Forsíða

Ég er lektor í kennslufræðum við Kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Sérsvið mitt er almenn kennslufræði og kennslufræði samfélagsgreina. Ég var grunnskólakennari við Æfingaskóla Kennararháskóla Íslands (nú Háteigsskóli) frá 1978 til 2003, eða í samtals 25 ár. Allan minn feril hef ég lagt sérstaka áherslu á fjölbreytt og sveigjanlegt skólastarf. Ég hef þróað kennsluhætti þar sem lýðræði í skólastarfi, samkomulagsnám, samþætting námsgreina, þemanám, skapandi starf og einstaklingsmiðað nám og kennsla hafa verið í fyrirrúmi. Þá hef ég langa reynslu af námskeiðahaldi fyrir kennara og skólaumdæmi um ofangreind viðfangsefni, ásamt ráðgjöf við þróunarverkefni í einstökum skólum. Auk þessa hef ég skrifað bækur m.a. um kennslufræði og kennsluleiðbeiningar með námsefni í lífsleikni.

Ég lauk doktorsnámi frá Menntavísindasvið Háskóla Íslands 18. janúar 2013. Viðfangsefni rannsóknar minnar var gengi og líðan kennara fyrstu fimm árin í grunnskólakennslu. Í þessari langtímarannsókn var könnuð sú merking sem nýir kennarar leggja í reynslu sína þessi fyrstu fimm ár. Eitt meginmarkmiðið var að skapa þekkingu sem varpaði ljósi á hvernig þeir náðu tökum á starfi sínu og hvernig þeir þróuðust sem byrjendur; hvað hindraði og hvað styddi þá. Annað markmið var að athuga hvers konar leiðsögn nýliðar í kennslu þurfa á að halda fyrstu árin í kennslu. Sjá nánar ágrip doktorsritgerðar minnar. An abstract of my doctoral thesis is here.

Hér er að finna grein sem ég skrifaði um rannsóknaraðferðina sem ég legg til grundvallar rannsókn minni, en hún heitir: Narratífa sem rannsóknaraðferð í menntarannsóknum. Ég hef einnig skrifað bókarkafla um viðhorf nýrra kennara til kennaramenntunar sinnar: „Það vantar einn áfanga sem ég hef kallað Bland í poka 107“. Viðhorf byrjenda í grunnskólakennslu til kennaranáms síns – ári síðar. Hér er hann að finna. Þá hef ég skrifað þessa grein í NETU: „Það er náttúrlega ekki hægt að kenna manni allt“. Viðhorf byrjenda í grunnskólakennslu til kennaramenntunar sinnar.