Rannsókn á áhrifum hlýnunar á hélumosavist
Hélumosi þekur stór svæði á hálendi Íslands þar sem hann í sambýli við margar aðrar örsmáar lífverur myndar gráleita lífskurn á yfirborði. Nú er verið að rannsaka hlut hélumosavista og annarra svæða sem einkennast af lífskurn á hálendum svæðum Íslands og er það gert með tilstyrk Rannsóknasjóðs Íslands og Háskóla Íslands.
Hluti verkefnisins felst í að athuga áhrif hlýnunar á hélumosavist með því að setja upp glær plastbúr sem eru opin að ofan (“Open Top Chambers”, OTC). Reynslan af slíkum búrum í langtímarannsóknum á Þingvöllum, Auðkúluheiði og víðar á norðurslóðum er góð og sýnt að með þeim er hægt að hækka jafnaðarhitastig um nærri tvær gráður og líkja þannig eftir fyrirsjáanlegum loftslagsbreytingum. Með þessari tilraunauppsetningu er leitast við að meta líkleg áhrif hlýnunar á vistgerð sem er mjög útbreidd á hálendum svæðum hérlendis og víðar á norðurslóðum.
Undanfarin tvö ár hafa verið könnuð nokkur svæði sunnan- og vestanlands. Svæðið sunnan Löðmundarvatns sýnist sérstaklega hentugt til athugana vegna góðs aðgengis og vegna þess hversu slétt það er. Því miður eru þessar aðstæður ekki algengar og ekki hafa fundist sambærileg hélumosasvæði annars staðar. Því leituðum við eftir leyfi til að nýta þessar hentugu aðstæður.
Rannsóknin felst í því að setja upp átta plastbúr, hvert þeirra er um einn fermetri og um 40 sm hátt. Í hverju búri er lítið mælitæki og annað utan þess. Þarna eru líka tekin sýni og gerðar ákveðnar mælingar. Búrin eru gagnsæ og a.m.k. 100 metra frá vegi svo að þau ættu að vera lítt sýnileg vegfarendum. Samkvæmt reynslu frá öðrum svæðum skapa þau ekki hættu fyrir dýr svo sem sauðfé og fugla.
Rannsóknareitirnir verða skoðaðir bæði vor og haust í a.m.k. þrjú ár (allt að tíu ár) og þeir lagfærðir eftir þörfum og yfirlit um athuganir skráð.
Ólafur S. Andrésson
Prófessor í erfðafræði við Háskóla Íslands
osa@hi.is s. 525 4627 og 864 2149
Sjá einnig: www.visindavefur.is/svar.php?id=75834