Námskeið kennd

2021-2022

Frá þjóðveldi til konungsvalds. Íslandssaga I (haustönn).

Í námskeiðinu er fjallað um sögu Íslands frá landnámi til siðaskipta. Farið er yfir landnámið og uppruna Íslendinga, þjóðveldið, pólitísk innanlandsátök og kerfisbreytingu með Gamla sáttmála.  Einnig er farið í samspil og átök veraldlegs valds og kirkjuvalds í mismunandi myndum yfir tímabilið. Þessi viðfangsefni verða sett í samhengi við almenna sagnaritun tímabilsins og er saga Íslands sett í samhengi við umheiminn. Áhersla er lögð á að nemendur kynni sér frumheimildir. Kennslan fer fram í fyrirlestrum og í umræðutímum.

Upphaf og fyrstu aldir kristni (vorönn).

Í námskeiðinu er fjallað um sögu kristni frá dögum Jesú Krists og fram til um 800. Farið er yfir elstu heimildir um Krist og hugmyndir fyrstu kynslóðar Jesúhreyfingarinnar og fjallað um það hvenær og hvernig hugmyndin um Jesúm sem guð varð til og þróaðist. Þá er fjallað þróun kristni sem fjölbreytilegra trúarbragða fram til þess að hún varð opinber siður í Rómarveldi.  Fjallað verður um almennu kirkjuþing og hvernig þau mótuðu undirstöðuatriði trúarinnar og hvernig ágreiningur kristinna manna um eðli Krists leiddi að lokum til klofnings kirkjunnar.

Fyrri námskeið

Austrómverska ríkið

Saga austrómverska ríkisins spannar meira en ellefu aldir en frá 330 til 1453 var höfuðborg Rómarveldis í Konstantínópel við Sæviðarsund. Lengst af var austrómverska ríkið öflugasta ríki hins kristna heims og Konstantínópel stærsta borg Evrópu. Í námskeiðinu verða raktir höfuðdrættir í sögu ríkisins og farið yfir mikilvægar vörður í þróun þess. Lögð verður áhersla á að greina og túlka menningu og hugarfar í þessu kristna miðaldaríki sem bjó í óvenju ríkum mæli að klassískum menningararfi.

Breiðafjörður og Norður-Atlantshafið 1100-1700

Í þessu námskeiði verður fengist við sögu Breiðafjarðar og Norður-Atlantshafsins, á skjön við venjubundna þjóðarsögu og héraðssögu. Einnig verður rannsökuð langtímaþróun í afmörkuðu rými.  Breiðafjörður hefur sérstöðu meðal landshluta á Íslandi, sjávarnytjar hafa löngum haft þar meira vægi í búskapnum en annars staðar í íslenska bændasamfélaginu. Til varð byggð í stórum firði sem tengdi saman mismunandi héruð og síðast en ekki síst eru þar óteljandi eyjar sem buðu upp á búsetu og nytjar. Af þessu leiddi sérstöðu  um rými, samskipti og þjóðfélagsmynstur og kallaði á annars konar kerfi en í dæmigerðum íslenskum landbúnaðarhéruðum. Breiðafjörður hefur lengst af Íslandssögunnar verið ein mikilvægasta byggð Íslands og undirstaða fyrir iðju höfðingja, lærdómsmanna og athafnamanna. Í þessu sambandi er eðlilegast að líta á Breiðafjörðinn sem heild þar sem sjórinn var þjóðbraut fremur en farartálmi. Rætt verður um Breiðafjörðinn út frá kerfum og rými, sem hluta af stærri heild Norður-Atlantshafsins en einnig um minni rými innan þessa svæðis. Sérstök áhersla verður lögð á samgöngur, verslunartengsl og valdstjórn á þessu svæði, m.a. í tengslum við konungsvald.

Grikklandssaga

Fjallað verður um sögu Grikklands frá mínóískum tíma og fram að innlimun grísku borgríkjanna í Rómarveldi. Áhersla verður lögð á klassískan og hellenískan tíma, tilkomu lýðræðis innan borgríkjanna, Persastríðin og Pelopsskagastyrjöldina, heimsveldi Alexanders mikla. Einnig verða rakin örlög arftakaríkjanna í Makedoníu, Sýrlandi og Egyptalandi.

Grískir og rómverskir sagnaritarar

Námskeiðið fjallar um sagnaritun Forngrikkja og Rómverja, rekur upphaf hennar og þróun og ræðir umfang hennar, eðli, aðferðir og tilgang. Fjallað verður um höfunda á borð við Heródótos, Þúkýdídes, Xenofon, Pólýbíos, Cato, Sallustius, Livius, Plútarkos, Suetonius, Tacitus, Ammianus Marcellinus auk annarra.

Heimsmynd Íslendinga á miðöldum

Hvers vegna töldu íslenskir miðaldasagnaritarar að forfeður þeirra hefðu komið frá Asíu? Hvaða erindi áttu norrænir ferðalangar við stólkonunginn? Hvaða þjóðir þekktu Íslendingar í Austurvegi? Hver voru tengslin milli þeirra og Skrælingja í heimsmynd Íslendinga á miðöldum? Íslendingar skrifuðu um sjálfa sig og aðra og lýstu hvorutveggja, lífi bænda á Íslandi og konunga, dýrlinga og fornaldarkappa úti í löndum. Skrif íslenskra miðaldamanna um aðrar þjóðir hafa hlotið minni athygli en vert er, en þau eru þó mikil að vöxtum og fjölbreytt. Hvað segja þau um heimsmynd Íslendinga? Varpa skrif um aðra ljósi á íslenskt þjóðerni á miðöldum? Í þessu námskeiði verður tekið á þessum vandamálum og ýmsum öðrum í íslenskri hugarfarssögu miðalda í ljósi innlendra og erlendra heimilda og rannsókna á þessu sviði. Markmiðið er að kynna fyrir nemendum helstu rannsóknir og ágreiningsmál, þjálfa þá í að meta fræðiumfjöllun um miðaldir á gagnrýninn hátt, afla sér þekkingar úr ýmsum áttum og koma henni frá sér með markvissum hætti.

Heimssaga fyrir 1815

Stutt yfirlit yfir forsögualdir og sögu elstu siðmenningarheilda í Evrasíu og Afríku, þ.e. Austurlanda, Indlands, Kína, Grikklands og Rómar ásamt sögu helstu trúarbragða þar, sögu Islams, sögu evrópskra miðalda og asískrar og afrískrar sögu á sama tíma og sömuleiðis siðmenningu í Ameríku fram til 1500. Enn fremur yfirlit yfir sögu evrópskrar endurreisnar, siðaskipta og trúardeilna, einveldis og annarra stjórnhátta fram um 1800, sögu aukinna samskipta á heimsvísu , umskipta í Afríku og Asíu á sama tíma og upphafs nýrrar heimssýnar á Vesturlöndum. Loks verður fjallað um pólitískar byltingar á árunum 1775-1815.

Norðurlönd: saga og samfélag

Námskeiðið miðar að því að auka þekkingu og skilning nemenda á sögu Norðurlanda frá 19. öld til samtímans og sameiginlegum menningar- og stjórnmálaarfi þeirra. Fjallað er um myndun þjóðríkja á 19. öld, iðnvæðingu og almenna efnahagsþróun, stjórnmál og flokka, Norðurlönd á alþjóðavettvangi frá 19. öld til samtímans og samvinnu norrænu ríkjanna sín á milli. Sérstök áhersla er lögð á að skoða hugtakið norrræn samfélagsgerð, den nordiske model, sérkenni norrænu velferðarríkjanna í alþjóðlegum samanburði og sögulega þróun þeirra á 20. öld.

Nýjar rannsóknir í sagnfræði

Yfirlit yfir rannsóknarefni sagnfræðinga víða um heim frá 1990.

Rómarsaga

Yfirlit yfir stjórnmála- og félagssögu Rómar frá stofnun borgarinnar til falls hennar árið 476. Reynt verður að kryfja stöðu Rómar í mannkynssögunni og áhrifum Rómarveldis á heimsmenningu fyrr og síðar. Einkum verður lögð áhersla á lýðveldistímann og fyrstu áratugi keisaraveldisins, þ. á m. útþenslu Rómar, borgarastríð fyrstu aldar f. Kr. og stjórnartíð Ágústusar. Einnig verður lögð nokkur áhersla á upphaf dominatsins og sigurgöngu kristni innan Rómarveldis.

Saga krossferðanna

Í námskeiðinu verður fjallað um krossferðir og krossferðatímann í ljósi nýjustu rannsókna í sagnfræði. Leitast verður við að skilgreina fyrirbærið og greina hugmyndafræðina á bak við krossferðir. Krossferðir verða m.a. settar í samhengi við guðsfriðarhreyfinguna í hinum rómversk-katólska heimi og hugmyndafræði riddaramennsku. Einnig verða þær greindar í samhengi við baráttu heimsvelda, hnignun austrómverska ríkisins og innrásar Tyrkja og Mongóla í lönd islam. Reynt verður að gera grein fyrir ýmsum öðrum þáttum sem tengjast krossferðunum, t.d. viðhorfum múslima til krossferða og þátttöku Íslendinga og norrænna manna í þeim. Áhrif krossferðanna á evrópskt samfélag, stofnanir, hugmyndir og sjálfsmynd verða tekin til sérstakrar athugunar.  Bornar verði saman mismunandi aðferðir við að greina samspil menningarheima í ljósi krossferðanna.

Vísindi, tækni og nývæðing

Tekið verður fyrir tímabilið 1900-1925. Þá sáu dagsins ljós fyrirbrigði í vísindum og tækni, og skipulagningu þessara sviða, sem voru mikilvægir aflvakar nývæðingar á 20. öld. Sjónarhornið er alþjóðlegt og íslenskt, vísindasögu- og tæknisögulegt. Lögð verður áhersla á samanburð og greiningu strúktúra. Fjallað verður t.d. um vísindanýjungar á borð við atóm, erfðafræði, geislavirkni, röntgengeisla, rúm og tíma, skammtafræði, háskóla og nýjar rannsóknastofnanir, tölfræði og félagsvísindi, mannfræði og sálfræði, tæknikerfi á sviði orku og samgangna, langdræg rafræn samskiptakerfi, fjöldaframleiðslu og vísindalega stjórnun, heilbrigðishreyfingar og afskipti ríkisins af heilbrigðismálum, borgir og matvælaiðnað, hernað og vísindi.

Þættir úr sögu og heimspeki vísindanna

Markmið: Að kynna nemendum þróun vísinda og eðli með því að rekja dæmi úr vísindasögunni og nýleg viðhorf í vísindaheimspeki. Að þjálfa nemendur í erindaflutningi og ritgerðasmíð um fræðileg efni á íslensku. Námsefni: Saga stjörnufræði og heimsmyndar fram yfir byltingu Kópernikusar og Newtons. Saga þróunarkenningarinnar. Nýleg viðhorf sem varða eðli, markmið og þróun vísinda. Vísindi og samfélag. Hver nemandi flytur erindi á umræðufundi um efni, sem valið er í samráði við kennara, og skilar ritgerð í lok misseris. Áhersla er lögð á að þjálfa nemendur í að vinna með heimildir og setja mál sitt fram í ræðu og riti. Námsefni getur breyst með hliðsjón af nemendahópi, kennurum og öðrum aðstæðum.