Yfirlit rannsókna

A. Á sviði miðaldasögu

Skipta má rannsóknum mínum á þessu sviði í sex meginflokka:

i) Heimsmynd og íslenskt þjóðerni á miðöldum. Heimsmynd Íslendinga 1100-1400, var viðfangsefni doktorsritgerðar minnar, Við og veröldin, sem kom út 2005, auk fjölmargra tengdra greina sem hafa birst um efnið frá 1999. Þar á meðal eru þrjár greinar um þjóðerni á miðöldum („Hvers konar þjóð voru Íslendingar á miðöldum?“, „Defining a Nation“, og „Sjálfsmyndir miðalda og uppruni Íslendinga“) þar sem tekist er á við hugmyndir um íslenskt þjóðerni á miðöldum. Einnig má nefna skrif um konungstökuna 1262 og forsendur hennar („Þegar Ísland varð hluti af Noregi“). Hluti af þessu verkefni eru einnig greinar um viðhorf Íslendinga til þjóða í Austur-Evrópu („Austurvegsþjóðir og íslensk heimsmynd“, og „The Schism that never was: Old Norse views on Byzantium and the Rus“) og um viðhorf Íslendinga til þjóða í Asíu („On the Road to Paradise: ’Austrvegr’ in the Icelandic Imagination“, og „Draumurinn um Indíalönd og heimsmynd Íslendinga á miðöldum“) og greinar um Skrælingja á Vínlandi („Black Men and Malignant-Looking“) og siglingar norrænna manna til Vínlands („Vinland and Wishful Thinking“). Þá mætti nefna greinar um félagslega og menningarlega aðgreiningu („Sjálfsmynd Íslendinga á miðöldum“, „Sjálfsmynd og óvinarmynd“ og „Við og hinir“).

ii) Sagnaritun og menningarlegt minni. Menningarlegt minni hefur orðið mikilvægt rannsóknarefni fræðimanna í hugvísindum á seinni árum. Í almennu samhengi íslenskra hugvísinda má benda á 1. hefti Ritsins frá 2013 þar sem minni og gleymska voru til umfjöllunar en í samhengi miðaldasögu og – bókmennta má nefna forsagnaþingið 2012 þar sem meginefnið var „Sagas and the Uses of the Past“. Síðan 2013 hef ég fjallað um þetta efni í ýmsum fræðigreinum („Hin heilaga fortíð“, „The Early Kings of Norway“, „Hin sársaukafullu siðaskipti“, „Kennileiti sjálfsmyndar“, „Conversion and Cultural Memory in Medieval Iceland“ og „1277“) og í tveimur bókum (Kristur og The Varangians).

iii) Endurmat á sögu miðaldakirkjunnar, einkum í tengslum við guðsfrið. Því tengt eru tvær greinar á íslensku sem birtust 1998 („Griðamál á ófriðaröld“ og „Friðarviðleitni kirkjunnar á 13. öld“), grein sem birtist í tékknesku riti 2008 („The Peace of God in Iceland in the 12th and 13th centuries“) og grein í bandaríska tímaritinu Scandinavian Studies 2010 („Heaven is a Place on Earth: Church and Sacred Space in 13th-century Iceland“), grein í Viking and Medieval Scandinavia 2018 ("Saints and Politicians") og grein í Church History 2019 ("Conversion and Cultural Memory in Medieval Iceland") sem fjallar um mismunandi frásagnir af kristnun Íslendinga.

iv) Félags- og hagsaga á Íslandi á 12. og 13. öld, einkum samskipti ólíkra samfélagshópa og félagsleg tengsl innan tiltekins rýmis. Afrakstur þeirra rannsókna eru nokkrar greinar frá 2005-2007, s.s. „Frá þrælahaldi til landeigendavalds“, „(A)ustfirskur og hafði orðið sekur um konumál”, „Valdamiðstöðvar við Breiðafjörðinn á þjóðveldisöld“, og „Strangers in Icelandic Society 1100-1400“. Þá má nefna yfirlitsgrein í Scandinavian Journal of History frá árinu 2013, „From Reciprocity to Manorialism: On the Peasant Mode of Production in Medieval Iceland“, þar sem félags- og hagsaga á Íslandi er lesin í samhengi við rannsóknir á samfélagsgerð Evrópu og Miðjarðarhafslanda á ármiðöldum.

v) Önnur verkefni tengd miðaldasögu. Þar má nefna sagnaritun um Harald hárfagra í heimildafræðilegu og þjóðfræðilegu samhengi (sjá m.a greinar frá 1999-2002, „Óþekkti konungurinn“, „Erindringen om en mægtig personlighed“ og „Yfirstéttarmenning eða þjóðmenning?“). Þá hef ég rannsakað heimildargildi fornaldarsagna („Den eksotiske fortid“ frá 2003 og „Fornaldarsagaernes Verden og 1300-tallets panskandinaviske identitet“ frá 2009). Einnig má nefna rannsóknir á göldrum og galdramönnum á miðöldum sem ég sett í samhengi við félags- og þekkingarkerfi samfélaga fyrir daga ritmenningar („Galdur og forspá í ríkisvaldslausu samfélagi“ frá 2008). Þá má benda á bókina Auðnaróðal sem er tilraun til endurritunar á pólitískri sögu 12. og 13. aldar. Greinar sem beinast sérstaklega að orðræðunni um Norðurlönd (frá árunum 2009-2011) eru „Fornaldarsagernes Verden og 1300-tallets panskandinaviske identitet“,„Minitema: Images of the North - Introduction“,„The Emergence of the North“ og „The Emergence of Norðrlönd in Old Norse Medieval Texts, ca. 1100-1400“. Þá er ég einn höfunda miðaldakaflans í Naboer i Nordatlanten, yfirlitsriti um sögu Íslands, Færeyja, Grænlands og Norður-Noregs, sem kom út 2012, þar sem sjónum er sérstaklega beint að Norður-Atlantshafinu sem svæði.

vi) Útgáfur. Undirritaður er einn þriggja útgefenda Hákonar sögu sem kom út á vegum Hins íslenska fornritafélags árið 2013. Hákonar saga er samin af Sturlu Þórðarsyni skömmu eftir lát Hákonar og er mikilvægasta heimildin um sögu Noregs frá 1217, þegar Hákon gamli komst til valda, til 1263, þegar hann andaðist. Í sögunni segir einnig frá atburðum á Íslandi og í öðrum löndum þar sem Hákon átti ítök. Ég er aðalhöfundur fræðilegs inngangs að bókinni, en sé auk þess um efnisskýringar.

 

B. Rannsóknir á sögu Breiðafjarðar.

Ég var verkefnastjóri rannsóknaverkefnis sem fékk styrk úr Rannsóknasjóði fyrir árin 2011-2013. Þetta er samstarfsverkefni um sögu Breiðafjarðar í breiðu samhengi sem unnin er í samstarfi við Helga Þorláksson prófessor í sagnfræði, Oddnýju Sverrisdóttur dósent í þýsku og nokkra framhaldsnema, m.a. Benedikt Eyþórsson, Pétur Eiríksson, Heiðrúnu Evu Konráðsdóttur, Vilhelm Vilhelmsson, Kristbjörn Helga Björnsson, Kristínu Svövu Tómasdóttur og Þórunni Maríu Örnólfsdóttur. Meðal greina minna sem tengjast þessu efni eru „Braudel í Breiðafirði? Breiðafjörðurinn og hinn breiðfirski heimur á öld Sturlunga“ frá 2002, „Valdamiðstöðvar við Breiðafjörðinn á þjóðveldisöld“ frá 2007 og „Konur og völd í Breiðafirði á miðöldum“ frá 2013.

Tilgangur rannsóknarverkefnisins er að skrifa öðru vísi Íslandssögu, á skjön við hefðbundna þjóðarsögu og héraðssögu. Einnig er ætlunin að rannsaka langtímaþróun í afmörkuðu rými.  Íslensk sagnfræði hefur hingað til að mestu leyti verið miðuð við tímasnið á meðan samtímasneiðum, eða þversniðum, hefur verið gefinn minni gaumur. Ætlunin er að fjalla um Breiðafjörðinn út frá kerfum og rými, sem hluta af stærri heild Norður-Atlantshafsins en einnig um minni rými innan þessa svæðis. Árið 2015 gaf ég út bókina Saga Breiðfirðinga I. Fólk og rými frá landnámi til um 1400. Reykjavík: Sagnfræðistofnun, 2015.

 

C. Norrænir menn í Austurvegi

Ég er verkefnastjóri rannsóknaverkefnis sem fékk styrk úr Rannsóknasjóði fyrir árin 2019-2021 en fræðast má um það nánar á sérstakri heimasíðu.

 

D. Rannsóknir á sögu síðari alda.

i) Jón Sigurðsson og 19. öld. Ég hef fjallað ítarlega um Jón Sigurðsson og stjórnmálasögu 19. aldar („Jón Sigurðsson forseti“, „Frekja og fanatismi, forudfattede meninger og óstjórn“, og „Hverjir eiga Jón Sigurðsson?“) allt frá því ég gaf út úrval úr greinasafni Jóns árið 1994. Undanfarin ár hef ég einkum beint sjónum að fræðastörfum Jóns, annars vegar í sérstakri grein („Um fræðastörf Jóns Sigurðssonar“) en hins vegar í úttekt minni á uppruna Hins íslenska fornbréfasafns („Icelandic medieval documents: From Diplomatarium Islandicum to digital publishing“).

ii) Saga vísinda og tækni. Meðal rannsókna minna á heimsmynd miðalda hefur sérstakur gaumur að vísinda- og tæknikunnáttu (Sjá t.d. Við og veröldin og „Myndirnar af heiminum: Um heimsbelli, heimskringlur og Vínlandsferðir norrænna manna“ frá 2010). Einnig hefur ég kennt vísindasögu síðari alda í námskeiðunum Þættir úr sögu og heimspeki vísindanna og Vísindi, tækni og nývæðing.

iii) Saga áfengismála á Íslandi. Ég er einn þriggja höfunda bókar um sögu ÁTVR og áfengismála á Íslandi. Minn hluti fjallar um tímabilið 1935-1985 og er þar um að ræða frumrannsókn á sögu sem nánast ekkert hefur verið rannsökuð, tímabilið á milli bannáranna og lögleiðingar áfengs öls. Meðal þess sem ég hef rannsakað sérstaklega eru grasrótarhreyfingar sem tengjast atkvæðagreiðslum um áfengisútsölur víða um land. Þá er verkið einnig framlag til stjórnmálasögu Íslands á 20. öld þar sem vægi áfengismála er oft vanmetið.