Norrænir menn í Austurvegi

Norrænir menn í Austurvegi er rannsóknarverkefni til þriggja ára sem er styrkt af Rannsóknarráði Íslands, frá 2019 til 2021. Komin er ný heimasíða verkefnisins hér sem er uppfærð reglulega.

Víkingaferðir norrænna manna á 8., 9. og 10. öld beindust í vesturátt, til Norður–Atlantshafsins, Bretlandseyja og Vestur–Evrópu, og í austurátt, yfir sléttur Rússlands og alla leið til Konstantínópel. Hafa víkingar í Austurvegi iðulega verið nefndir væringjar, enda er það hugtak notað yfir hluta þeirra í bæði grískum og norrænum heimildum. Þessi rannsókn felur í sér endurmat á ritheimildum um ferðir norrænna manna í Austurvegi, allt frá því að getið er um þá í frönskum annálum frá 838 og fram að fjórðu krossferðinni árið 1204. Frá lokum 10. aldar virðist hafa verið starfandi sérstök sveit innan lífvarpar Rómarkeisarans sem kennd var við væringja. Töluvert er getið um væringja í íslenskum miðaldaheimildum og hafa slíkar frásagnir vakið athygli fræðimanna víða um lönd en sá höfuðgalli er á alþjóðlegum rannsóknum á fyrirbærinu að ekki hefur verið tekið tillit til þróunar rannsókna á Íslendingasögunum sem heimildum undanfarna áratugi. Ætlunin er að taka sögu væringja til endurskoðunar í heildrænu samhengi og leggja sérstaka áherslu á hvernig meta beri íslenskar heimildir um norræna menn í Austurvegi. Rannsóknin er hugsuð sem framlag til íslenskrar hugarfarssögu og til sögu miðaldaorðræðunnar um væringja.

 

Cassandra Ruiz

Cassandra Ruiz er frá Bandaríkjunum en er búsett og í námi á Íslandi. Hennar helstu áhugamál innan fræðasviðsins eru samspil vísinda og sagnfræði, einkum  súrrealismi og þjóðfræði. Hún hefur unnið sem ljósmyndari, þýðandi og rithöfundur. Cassandra er í meistaranámi í verkfræði og í framtíðinni vonast hún eftir að sérhæfa sig í stafrænum hugvísinum (e. digital humanities) og menningar stjörnufræði (e. cultural astronomy).

Cassandra Ruiz

Varangians and Rus

Constructing collective identities

Daria Segal

Daria Segal útskrifaðist með BFA gráðu frá Bezalel Academy árið 2012 og í framhaldinu tók hún áfanga í miðaldasögu og listasögu frá Háskólanum í Tel Aviv í Ísrael. Árið 2017 fékk hún MA-gráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Osló og er núna að klára doktorsprófið sitt í miðaldasögu. Rannsóknir hennar beinast aðallega að þróun sjálfsmyndar miðaldamanna, einkum fólksflutninga víkinga (e. disapora) í austri. Hennar helstu áhugamál innan sviðsins eru menningarlegt minni, trúarskipti og menning dýrlinga á miðöldum.

Daria Segal

Meginviðfangsefni Dariu er að rannsaka fornslavnesku og fornnorrænu, einkum með því að skoða frumheimildir sem lýsa fólksflutningum (e. disapora) víkinga í austri. Auk þess að kanna menningarlegt umhverfi með áherslu á samhengi og tilgang víkingaferðanna.

 

The Rus in Latin Chronicles

from the 9th to the 11th century

Ryan Fenster

Ryan Fenster er frá Seattle í Bandaríkjunum og lauk BA- prófi í sagnfræði frá Seattle Pacific University árið 2016.

Ryan Fenster

Í rannsókninni skoðar Ryan sagnaritara og latneska annála í Vestur–Evrópu og athugar hvernig þeir fjalla um væringja og víkinga Garðaríkis (e. Rus). Ryan nálgast rannsóknina einkum með því að kanna hvers konar hugtök og skilgreiningar sagnaritararnir nota þegar þeir lýsa væringjunum sem eru af norrænu og slavnesku bergi brotnir. Auk þess er hann að skoða slavneskar heimildir, eins og frumheimildir rússneskra annála og slavneska annála Helmonds (e. The Russian Primary Chronicles and Helmond’s Chronicle of the Slavs) til að sjá hvernig Norðmönnunum var lýst. Einnig hyggst Ryan á að útbúa sérstakt yfirlit yfir nýjustu rannsóknirnar sem hafa verið gerðar varðandi þetta rannsóknarefni og skoða þá sérstaklega hvaða frumheimildir nútíma fræðimenn telja að séu áreiðanlegastar.

The Varangians

In God’s Holy Fire

Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Sverrir lauk BA-prófi við HÍ í sagnfræði árið 1993 og  MA-prófi frá Háskólanum í Leeds í Bretlandi árið 1994. Árið 2005 lauk Sverrir doktorsprófi frá Háskóla Íslands og hefur starfað þar sem prófessor í sagnfræði frá 2014. Meginviðfangsefni Sverris eru til að mynda: Heimsmynd Íslendinga á miðöldum, þjóðerni á miðöldum og sjálfsmynd miðaldamanna. Auk þess hefur hann rannsakað íslenska pólitíska sögu 12. og 13. aldar.

Sverrir Jakobsson

Markmið rannsóknarinnar er að skoða sögu víkinga í austri, Garðaríkis og væringja út frá nýjum sjónarhornum, allt frá því þegar þeirra er fyrst getið í heimildum og fram undir lok miðalda, þegar þeir birtast sem staðlaðar ímyndir í norrænum rómönsum. Miðaldaheimildir sem greina frá víkingunum í austri eru kannaðar út frá því menningarlega samhengi sem þær spruttu úr og „umræðan“ um Garðaríki og væringja á miðöldum greind í ljósi þess samhengis. Heimildir frá ólíkum menningarheimum, eins og Býsans, Kalífaríkinu (e. the Appasid Caliphate), fyrstu rússnesku ríkjunum og Norðurlöndum, eru bornar saman og greint hvaða merkingu norrænir menn í Garðaríki og Miklagarði fengu í mismunandi samhengi. Markmið er að endurmeta „stórsögurnar“ (e. grand narrative) sem sagðar eru um víkinga í Austurvegi. Heimildir verða skoðaðar í pólitísku og menningarlegu samhengi til að greina þróun umræðunnar um Garðaríki og væringja með sérstakri áherslu á ímyndir og viðhorf ólíkra menningarheima hvers gagnvart öðrum. Rannsóknin er hugsuð sem framlag til hugarfarssögu og til sögu miðaldaorðræðunnar um væringja.

Equal rites:

Parsing Rus’ Gender Values through an Arabic Lens

Tonica Upham

Tonica Upham er meistaranemi í víkinga- og norrænum miðaldarannsóknum við Háskóla Íslands. Hún á á rætur sínar að rekja til Leeds í Englandi en hún er með BA-gráðu í engilssaxnesku, norrænu og keltnesku frá Háskólanum í Cambridge. Tonica er aðstoðarritstjóri fyrir Kyngervi sem er nýtt stúdentablað fyrir hinsegin-og kyngervirannsóknir í frumnorrænu.

Tonica Upham

Í rannsókninni, Equal Rites: Parsing Rus’ Gender Values through an Arabic Lens, eru arabískar heimildir um konur meðal víkinga í Austurvegi (e. Rus) greindar og sjónum beint að því hvernig konur úr þessum menningarheimi voru skilgreinar og þeim lýst í heimildum frá kalífaríki Abbasída (e. The Abbasid Caliphate). Í stað þess að beina sjónum að mögulegu sannleikskorni á bak við þær kvenímyndir sem finna má í þessum heimildum er fremur reynt að kanna hvernig sú ímynd sem dregin er upp af þeim var sköpuð. Með það í huga er hægt að greina vinsælar staðalímyndir sem einkenna norrænar konur sem lýst er í heimildum á arabísku. Ætlunin er að setja fram hugmyndir sem birtast í þessum verkum um sjálfið og „hina“ með það að markmiði að byggja upp kenningaramma til að skoða norrænar konur í arabískum heimildum. Rannsóknin er unnin bæði út frá kynjafræðilegu sjónarhorni og með hliðsjón af staðalmyndum um hina (e. the Others) í orðræðuheimi stórveldis sem skilgreinir umheiminn. Ríkjandi staðalmyndir af þessum eru tvíþættar: Annars vegar er litið á þær sem fórnarlömb frumstæðra helgisiða (e. victims of barbaric sacrificial rituals) og hins vegar má greina stöðu kvenna sem getið er í öðru samhengi. Segja má að megintilgangur rannsóknarinnar sé að kanna hefðbundnar lýsingar á norrænum konum í arabískum heimildum þar sem er fjallað um þær sem fjarstæðukenndar, framandi og frumstæðar (e. barbaric) verur.

 

Arabic sources on the Rus

Þórir Jónsson Hraundal

Þórir Jónsson Hraundal er lektor í Mið-Austurlandafræði og arabísku. Þórir lauk doktorsnámi í miðaldafræðum frá Centre of Medieval Studies við háskólann í Bergen árið 2013 (“Rus in Arabic Sources: Cultural Contacts and Identity), M.Litt. gráðu frá Háskólanum í Cambridge árið 2005 þar sem hann rannsakaði útbreiðslu íslam norður á bóginn inn í Mið-Asíu, Kákasus og víðar (“The Islamization of the Volga Bulghars”), og BA-prófi í Almennum Málvísindum frá Háskóla Íslands árið 1998. Hann gegndi einnig stöðu nýdoktors við Sagnfræðistofnun árin 2014-2017 með styrk frá Rannís (verkefnið "Eastern Vikings in Arabic Sources).

Rannsóknir hans beinast mest megnis að arabískum miðaldatextum sem varpa ljósi á ferðir víkinga í austurvegi, svo og samskiptum og menningartengslum norrænna manna við austrænar þjóðir á miðöldum, eins og þau birtast bæði í rituðum heimildum og fornminjum. Þórir er einnig umsjónarmaður námsleiðar í Mið-Austurlandafræði og arabísku við HÍ, og kennir þar ýmis námskeið um sögu og tungumál Mið-Austurlanda, N-Afríku og ríki múslima á Spáni.

Þórir Jónsson Hraundal

„Gæfumenn

Ímynd væringja í íslenskum heimildum frá 13. og 14. öld

Þuríður Ósk Sigurbjörnsdóttir

Þuríður Ósk Sigurbjörnsdóttir er BA-nemi í sagnfræði og íslensku við Háskóla Íslands. Hún hóf nám við Háskólann haustið 2017 og áætlar að útskrifast sumarið 2020. Íslensk miðaldasaga og miðaldabókmenntir, einkum kvenna- og kynjasögurannsóknir í íslenskri miðaldasögu og kvenímyndir í miðaldabókmenntum, eru hennar helsta áhugasvið innan fræðanna og stefnir hún á að sérhæfa sig á því sviði eftir útskrift.

Þuríður Ósk Sigurbjörnsdóttir

Rannsóknin fól í sér að rýna í valda kafla í íslenskum heimildum frá 13. og 14. öld þar sem væringjar komu við sögu. Þær heimildir sem voru kannaðar voru einkum valdar sögur í Íslendingasögununum, konungasögunum og riddarasögunum. Reynt var að athuga hvernig fjallað var um væringja í sögunum, hvers konar hugtök voru notuð um þá og hver ímynd þeirra almennt var.

Fræðimenn tengdir verkefninu

Csete Katona er doktorsnemi við Háskólann í Debrecen, í Ungverjalandi og er með BA- og MA-gráðu frá sama skóla. Auk þess er Katona með meistaragráðu í norrænum víkinga- og miðaldafræðum frá Háskóla Íslands. Áhugasvið Csete innan fræðanna eru einkum tengsl víkinga við valdamiklar tyrkneskar ættir á 9. og 11. öld en nýlega hefur hann verið að gera samanburðarrannsóknir sem tengjast þróun og störfum hernaðarsinna í Austur-Evrópu og Skandinavíu frá 9. öld til 11. aldar.

Sjá eftirfarandi hlekk til að nálgast frekari upplýsingar um Csete Katona: https://medievalstudies.ceu.edu/people/csete-katona

Csete Katona

Neil Price er enskur fornleifafræðingur og starfar sem prófessor í fornleifafræði og fornsögu við Háskólann í Uppsala, í Svíþjóð. Hann fékk BA-gráðuna sína í miðaldafornleifafræði frá The University College London’s Institute of Archaeology árið 1988 og lauk doktorsprófi árið 2002. Áhugasvið Price innan fræðanna ná einkum til fornleifafræði víkingaaldar, ásamt sögulegum fornleifum í Asíu frá upphafi 18. aldar til nútímans.

Sjá eftirfarandi hlekk til að nálgast frekari upplýsingar um Neil Price og rannsóknir hans: https://www.arkeologi.uu.se/staff/Presentations/neil-price/

Neil Price