Sprungukortlagning

 

Sprungur og sprungusveimar á Íslandi

Ísland liggur á flekaskilum Norður-Ameríku og Evrasíuflekans. Flekarnir reka hver í sína áttina um 9,7 mm á ári, samtals um 19, 4 mm á ári (Árnadóttir et al., 2009). Á flekamótunum verða til sprungur þegar flekana rekur í sundur eða meðfram hvor öðrum. Til að auka aðeins á flækjuna má skilgreina þriðja flekann, Hreppaflekann, sem er smáfleki á suðurhluta landsins (Einarsson, 2008).

Eðli þessara sprungna er alla jafna misjafnt eftir því hvar þær eru. Þannig myndast siggengi og togsprungur þar sem fleka rekur í sundur, en þar sem hreyfingin er samsíða sprungunum (fleka rekur meðfram hvor öðrum), þar myndast sniðgengissprungur. Stundum eru sprungurnar í raun samspil þessara þátta og bera einkenni þeirra beggja. Erlendis er auk þess algengt að finna samgengissprungur, þar sem fleka rekur saman, en það er mjög sjaldgæft að finna slíkar sprungur hér á landi og má í raun bara finna staðbundið, þar sem jarðskorpa hefur kýst eilítið saman.

Sprungusveimar

Sprungusveimar á Íslandi finnast þar sem fleka rekur í sundur, á fráreksbeltum (Hjartardóttir and Einarsson, 2017; Hjartardóttir et al., 2016a; Hjartardóttir et al., 2016c; Sæmundsson, 1974). Sprungusveimar eru í raun bara svæði þar sem mikið er af sprungum og gossprungum. Oft eru sprungusveimar með megineldstöð. Þar er mesta eldvirknin á svæðinu, en þó má finna gossprungur víða á sprungusveimum. Í ljós hefur komið að sprungur í sprungusveimum á Íslandi virðast aðallega myndast í tengslum við eldvirkni. Þetta sást til dæmis skýrt árið 2014, þegar gangainnskot skaust frá Bárðarbungu og allt að (gamla) Holuhrauni (Sigmundsson et al., 2015). Eftir að gangainnskotið komst norður fyrir Vatnajökul sáust nýjar sprungur á yfirborði gamla Holuhraunsins. Þessar sprungur mörkuðu sigdal. Sigdalurinn var ekki breiður, um 1 km að breidd sunnan til og einungis um 250-450 m breiður norðan til. Þessi mjói sigdalur benti til þess að kvikan væri á mjög litlu dýpi. Nýju sprungurnar sáust þann 27.ágúst 2014. Tveimur dögum síðar hófst eldgos, sem átti sér upptök innan sigdalsins, eins og við mátti búast (Hjartardóttir et al., 2016b).

Svipaða hegðun mátti einnig sjá þegar Kröflueldar áttu sér stað á árunum 1975 til 1984. Þá áttu ítrekuð gangainnskot sér stað, þar sem gangar skutust annað hvort til norðurs eða suðurs frá megineldstöðinni Kröflu (Einarsson, 1991; Sigurdsson, 1980).

Þverbrotabelti

Á þverbrotabeltum geta jarðskjálftar orðið stærri en annars staðar á flekaskilunum á Íslandi. Á Íslandi eru tvö þverbrotabelti, Suðurlandsskjálftabeltið og Tjörnesbrotabeltið (Einarsson, 2008; Einarsson, 2010). Það síðarnefnda samanstendur af þremur brotabeltum, Grímseyjarbeltinu, Húsavíkurmisgenginu og Dalvíkurbeltinu. Á þessum svæðum verða jarðskjálftar allt að 6 til 7 stig að stærð (Stefánsson et al., 2008).

 

Heimildir

Árnadóttir, T., Lund, B., Jiang, W., Geirsson, H., Björnsson, H., Einarsson, P. and Sigurðsson, T., 2009. Glacial rebound and plate spreading: results from the first countrywide GPS observations in Iceland. Geophys J Int, 177(2): 691-716.

Einarsson, P., 1991. Umbrotin við Kröflu 1975-1989. In: A. Garðarsson and Á. Einarsson (Editors), Náttúra Mývatns. Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík, pp. 97-139.

Einarsson, P., 2008. Plate boundaries, rifts and transforms in Iceland. Jökull, 58: 35-58.

Einarsson, P., 2010. Mapping of Holocene surface ruptures in the South Iceland Seismic Zone. Jökull, 60: 117-134.

Hjartardóttir, Á.R. and Einarsson, P., 2017. Sprungusveimar Norðurgosbeltisins og umbrotin í Bárðarbungu 2014-2015. Náttúrufræðingurinn, 87(1-2): 24-39.

Hjartardóttir, Á.R., Einarsson, P. and Björgvinsdóttir, S., 2016a. Fissure swarms and fracture systems within the Western Volcanic Zone, Iceland – effects of spreading rates. J Struct Geol, 91: 39-53.

Hjartardóttir, Á.R., Einarsson, P., Gudmundsson, M.T. and Högnadóttir, T., 2016b. Fracture movements and graben subsidence during the 2014 Bárðarbunga dike intrusion in Iceland. J Volcanol Geotherm Res, 310: 242-252.

Hjartardóttir, Á.R., Einarsson, P., Magnúsdóttir, S., Björnsdóttir, Þ. and Brandsdóttir, B., 2016c. Fracture systems of the Northern Volcanic Rift Zone, Iceland - an onshore part of the Mid-Atlantic plate boundary. In: T.J. Wright, A. Ayele, D.J. Ferguson, T. Kidane and C. Vye-Brown (Editors), Magmatic Rifting and Active Volcanism. The Geological Society of London, pp. 297-314.

Sigmundsson, F., Hooper, A., Hreinsdottir, S., Vogfjord, K.S., Ofeigsson, B.G., Heimisson, E.R., Dumont, S., Parks, M., Spaans, K., Gudmundsson, G.B., Drouin, V., Arnadottir, T., Jonsdottir, K., Gudmundsson, M.T., Hognadottir, T., Fridriksdottir, H.M., Hensch, M., Einarsson, P., Magnusson, E., Samsonov, S., Brandsdottir, B., White, R.S., Agustsdottir, T., Greenfield, T., Green, R.G., Hjartardottir, A.R., Pedersen, R., Bennett, R.A., Geirsson, H., La Femina, P.C., Bjornsson, H., Palsson, F., Sturkell, E., Bean, C.J., Mollhoff, M., Braiden, A.K. and Eibl, E.P.S., 2015. Segmented lateral dyke growth in a rifting event at Bardarbunga volcanic system, Iceland. Nature, 517(7533): 191-195.

Sigurdsson, O., 1980. Surface deformation of the Krafla fissure swarm in two rifting events. Journal of Geophysics-Zeitschrift Fur Geophysik, 47(1-3): 154-159.

Stefánsson, R., Guðmundsson, G.B. and Halldórsson, P., 2008. Tjörnes fracture zone. New and old seismic evidences for the link between the North Iceland rift zone and the Mid-Atlantic ridge. Tectonophysics, 447(1-4): 117-126.

Sæmundsson, K., 1974. Evolution of the axial rifting zone on Northern Iceland and the Tjörnes Fracture Zone. Geol Soc Am Bull, 85: 495-504.