Rannsóknir

Ég vinn að doktorsritgerð við Princeton-háskóla, sem fjallar um náttúruhyggjustef í aristótelískri siðfræði á 2. öld. Rannsókn mín beinist einkum að ritum Alexandrosar frá Afrodisías, sem átti í rökræðum um þessi mál við stóumenn, en um leið er ég að hugsa um og legg eitthvert mat á uppsprettur þessara pælinga hjá Aristótelesi. Ég held að það sé alls ekki fráleitt að kalla Aristóteles og raunar stóumenn líka náttúruhyggjumenn í einhverjum skilningi. Ég er einkum að velta fyrir mér spurningum eins og hvers vegna Alexandros telji að hugtakið eignun (oikeiosis) – sem hann kynntist hjá stóumönnum – hafi mikilvægu hlutverki að gegna í aristótelískri kenningu og hvernig hann sjái fyrir sér að það geti rennt stoðum undir siðfræðikenningu Aristótelesar; hvaða máli hann telji að náttúrulegt upplag (náttúruleg „dygð“) hvers og eins skipti í siðfræði og fyrir siðferðisþroska; og hvernig Alexandros og Aristóteles sjái fyrir sér að náttúruhugtakið geti varpað ljósi á undirstöður réttlætisins.

Ég er einnig langt kominn með ritgerð um efasemdapésann Pyrrhon, þar sem ég legg til lestur á vandræðabroti um viðhorf hans, sem ég tel að dragi talsvert úr vandanum. Pyrrhon var lengi álitinn efahyggjumaður – enda var til efahyggja sem kennd var við hann! Upp á síðkastið hefur þetta viðhorf, sem á sér þó enn verjendur, verið tekið til endurskoðunar og ýmsir komist að þeirri niðurstöðu að þegar öllu er á botninn hvolft hafi Pyrrhon sjálfur í reynd verið neikvæður kredduspekingur (þ.e. maður sem fullyrðir að þekking sé ómöguleg). Þetta er túlkun á Pyrrhoni sem ég er hallur undir. En til er textabrot sem eignar honum viðhorf, sem væri vandræðalegt jafnvel fyrir neikvæðan kredduspeking (og enn vandræðalegra fyrir efahyggjumann), því þar virðist Pyrrhon skyndilega trúa að eðli guðdómsins og hins góða eigi sér ævarandi tilvist, hvorki meira né minna. Greinin er öðru fremur tilraun til textafræðilegra kúnsta til að sneiða hjá vanda, sem sumir fræðimenn hafa talið allt að því óleysanlegan.

Í annarri óbirtri grein geri ég tilraun til að túlka afstöðu Aristótelesar í 9da kafla ritsins Um túlkun. Þar er Aristóteles að velta fyrir sér rökfræðilegri nauðhyggju, sem hann hafnar að sjálfsögðu. En það er umdeilt hvernig hann hafnar henni. Gerir hann það með því að gera undantekningu á lögmálinu um annað tveggja, eins og því er stundum lýst? Eða gerir hann það með því að gera undantekningu á tvígildislögmálinu? Eða hefur hann eitthvað allt annað í huga? Þessi heiti á rökfræðilögmálum eru yngri en Aristóteles og eiga sér enga einfalda samsvörun í máli hans. Það þarf því að stíga varlega til jarðar. En ég held að eftir vandlegan lestur og greiningu á kaflanum hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að Aristóteles ætli sér að gera undantekningu á tvígildislögmálinu fyrir ákveðinn hóp yrðinga um framtíðina. Ég held enn fremur að það hljótum við einnig að gera.

Auk þessara skrifa um fornaldarheimspeki á ég tvær greinar sem koma bráðum út. Sú fyrri er stutt grein um Þorstein Gylfason, fyrrum kennara minn, sem ég var beðinn að skrifa fyrir hefti um íslenska heimspeki. Greinin heitir „Language, Mind, and Justice: Philosophical Topics in the Writings of Þorsteinn Gylfason“ en bókin verður á ensku. Í greininni, sem er því miður allt of stutt, gef ég yfirlit yfir helstu heimspekilegu áhugamál Þorsteins og heimspekilega áhrifavalda í lífi hans.

Önnur væntanleg grein heitir „The Meanings of «Meaning» and Reception Studies“ og mun birtast í Materiali e discussioni per l’analisi dei testi classici. Hún er afrakstur af samvinnu minni við Andreas Thomas Zanker, fyrrverandi skólafélaga minn á Princeton-háskóla, og af áralöngum samræðum okkar um heimspeki, um gildi heimspekinnar sem fræðigreinar og um ýmsa strauma í klassískum fræðum. Í greininni, sem Tom átti frumkvæði að, leggjum við til atlögu við ákveðna kreddu í bókmenntatúlkunum í fornfræði. Því er haldið fram að merking verði til við lestur (eða hjá „viðtakandanum“) og viðhorfið er að verða að réttnefndri kreddu. Þessu andmælum við og útskýrum á mannamáli (en þó með örfáum lánuðum hugtökum frá mannamálsspekingunum í Oxford) hvernig orðið „meaning“ (af því að greinin er á ensku) getur merkt fleira en bara þýðinguna sem texti hefur fyrir lesandann. Kreddan er í raun ekkert annað en glannaleg alhæfing, sem er óréttmæt sem slík. En ef hún er umorðuð (t.d. með því að segja að sérhver túlkun verði til hjá viðtakandanum), þá er hún ekkert spennandi lengur. Við bendum á að það sé varla þess virði að gera óspennandi hugmynd aðlaðandi með ónákvæmu orðalagi, ekki síst af því að orðalagið er óþarflega stuðandi og til þess fallið að valda ruglingi.

Auk skrifa hef ég gaman af þýðingarstarfi og hef ýmis afar mislangt komin þýðingarverkefni í gangi. Vorið 2002 hóf ég að þýða grein eftir bandaríska heimspekinginn  Donald Davidson, sem heitir „Fásinnan að reyna að skilgreina sannleikann“. Þegar Davidson heimsótti Ísland um haustið sama ár fékk ég leyfi hans til að birta þýðinguna á Heimspekivef Háskóla Íslands. Í kjölfarið þýddi ég einnig viðtal, sem Mikael M. Karlsson tók við Davidson og birtist það í Lesbók Morgunblaðsins undir titlinum „Ég hafna engu sem fólk gerir í nafni heimspekinnar“ (9. nóvember 2002, bls. 6-7). Óstytt útgáfa af viðtalinu birtist síðar í  Hug, tímariti Félags áhugamanna um heimspeki undir titlinum „Það hefur aldrei verið markmið hjá mér að þróa alltumfaðmandi heimspekikerfi“ (Hugur 14 (2002), bls. 11-24). Nokkrum árum seinna þýddi ég örstutta en sígilda grein um þekkingarfræði eftir bandaríska heimspekinginn  Edmund L. Gettier, sem heitir „Er sönn rökstudd skoðun þekking?“ og birtist hún einnig í Hug (Hugur 18 (2006), bls. 71-3).

Af óbirtum en meira eða minna kláruðum þýðingum á fornum textum má nefna þýðingu mína á samræðunni Lakkesi eftir Platon en hún var hluti af BA-verkefni mínu í grísku við Háskóla Íslands vorið 2004. Þessa þýðingu ætlaði ég mér að gefa út eftir að ég hefði þýtt til viðbótar þrjár aðrar stuttar samræður eftir Platon sem heita Karmídes, Lýsis og Þeages (sú síðastnefnda er reyndar ekki ósvikin) en þegar heildarverk Platons var gefið út í fornöld mynduðu þær fjórleik. Önnur þýðing úr forngrísku var hluti af BA-verkefni mínu í heimspeki við Háskóla Íslands haustið 2003. Það var þýðing á verkinu Um túlkun eftir Aristóteles, sem er eitt af rökfræðiritum hans, þar sem hann meðal annars finnur upp háttarökfræði fyrstur manna. Haustið 2008 þýddi ég stutt verk eftir Xenofon, sem heitir Varnarræða Sókratesar. Önnur varnarræða Sókratesar, eftir Platon, er varðveitt og til í íslenskri þýðingu. Hins vegar er engin aðgengileg íslensk þýðing á sókratískum (eða öðrum) verkum Xenofons en fróðlegt er að bera saman meðhöndlun þeirra Platons og Xenofons á Sókratesi. Að lokum má nefna þýðingu mína á stuttri háðsádeilu eftir Lúkíanos, sem heitir Sala heimspekinganna. Allar þessar þýðingar ætla ég mér að gefa út þegar ég hef tíma til og finna rétta vettvanginn fyrir hverja og eina þeirra.

Auk fyrrnefndra þýðinga hef ég hafið vinnu við þýðingu á ýmsum öðrum fornum textum, sem ég hef ekki náð að ljúka við enn þá. Þar má meðal annars nefna 12tu bók Frumspekinnar eftir Aristóteles og ræðu Antifons Um morðið á Heródesi. Ég á einnig óbirtar og mislangt komnar þýðingar úr ensku, aðallega á ýmsum heimspekiritum. Drög að þýðingu minni á bókinni Hugur, mál og samfélag eftir bandaríska heimspekinginn John Searle hafa legið hjá ritstjórum lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags allt of lengi – en sökin er alfarið mín. Ég þarf að lesa drögin yfir og færa til betri vegar áður en aðrir geta hafið yfirlestur. Þá hef ég hafið vinnu við þýðingar á ritgerðum eftir Donald Davidson, Bertrand Russell, A.J. Ayer og Bernard Williams, sem er enn ólokið.