Dancing on the (city)line

Karl Benediktsson, June 6, 2017

Almenningssamgöngur í borgum eru stórt atriði í hugum þeirra sem láta sig umhverfið varða. Undanfarið hefur verið talsvert fjallað í fjölmiðlum um áform sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um svokallaða borgarlínu, sem ætlað er að gerbreyta almenningssamgöngum á svæðinu öllu. Einkabílamiðað skipulag, líkt og það sem mótaði helstu drætti höfuðborgarsvæðisins á síðari hluta tuttugustu aldar, er litið hornauga nú á tuttugustu og fyrstu öldinni, vegna þeirrar sóunar sem það hefur í för með sér á mörgum sviðum. Borgarlínan gæti breytt miklu, verði hún að veruleika.

Vistspor einkabílsins er stórt. Smíði bíla krefst í fyrsta lagi mikilla og margvíslegra auðlinda, sem flestar eru óendurnýjanlegar. Í annan stað eru flestir bílar (enn) knúnir jarðefnaeldsneyti, sem veldur miklum útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Á staðbundnum kvarða blasir við að gríðarmikið land er tekið undir götur og bílastæði í mörgum borgum, og ómældu fjármagni er varið til uppbyggingar æ tröllauknari samgöngumannvirkja.

Umhverfi í bílaborg: Frá Bangkok, Thailandi.

Ofan á þetta bætast ýmis heilsutengd hliðaráhrif af ofnotkun einkabíla: Umferðarslys verða fjölda fólks að bana ár hvert og valda öðru örkumlum og ómældum þjáningum; hreyfingarleysi stuðlar að sjúkdómum. Loks blasir við hverjum sem það vill sjá að borgarumhverfi sem hannað er með tilliti til bíla er ekki beinlínis aðlaðandi til íveru. Átakanleg dæmi um þetta má sjá víða á Reykjavíkursvæðinu.

Maður kynni því að ætla að fagna beri áformunum um borgarlínu, hvort heldur sem línan sú mun taka form léttlestar, sporvagns eða hefðbundnari strætisvagna á sérstökum brautum. En einhverjir virðast hafa horn í síðu þessarar róttæku og umhverfisvænu hugmyndar. Um daginn sá ég í blaði haft eftir kunnum „athafnamanni“ að þetta væri nítjándu aldar hugmynd. Línan sú arna myndi í fyrsta lagi kosta skrilljónir. Tæknin væri aukinheldur gersamlega úrelt; ökumannslausir bílar væru handan við hornið og myndu leysa vandann innan tíðar. Slík einstaklingsfarartæki myndu sem sé koma í stað almenningssamgangna.

Ég bið hunda landsins fyrirfram afsökunar, en þetta er eiginlega ágætt dæmi um svokallaða hundalógík. Þróunin í bílasmíði er vissulega hröð og líklegt má telja að verulegur fjöldi sjálfkeyrandi bíla muni bruna um götur í náinni framtíð. En hvað þýðir þetta, séu almenningssamgöngur vanræktar – eins og raunin varð í Reykjavík og nágrannabyggðum þegar leið á síðustu öld? Að sjálfsögðu enn fleiri bíla á götunum. Sem aftur þýðir enn breiðari götur, enn umfangsmeiri mislæg gatnamót, enn fleiri bílastæði og svo framvegis. Sem kostar næstum því jafn margar skrilljónir. Frá sjónarhóli umhverfisins – hins náttúrlega jafnt og hins félagslega – er þetta ekki sérlega björt framtíðarsýn fyrir borgir. Bót í máli er samt að sennilega verða þessir ágætu bílar þó ekki knúnir jarðefnaeldsneyti: Orkuskipti í samgöngum eru þegar hafin.

Yfirvöld hinna ýmsu borga vítt og breitt um heiminn eru síður en svo hætt að byggja upp almenningssamgöngur með svipuðum hætti og hér er fyrirhugað. Í Kína er til að mynda verið að leggja jarðlestir í gríð og erg í ört stækkandi borgum landsins. Jafnvel í landi einkabílsins, Bandaríkjunum, finnast borgir þar sem yfirvöld hafa séð ljósið, til að mynda Portland í Oregonríki þar sem sporvagna- og léttlestakerfi hefur verið byggt upp af metnaði á undanförnum árum. Að halda því fram að slíkar samgöngur heyri sögunni til ber vott um að viðkomandi dansi að minnsta kosti á línunni milli veruleikans og vitleysunnar – hafi jafnvel þegar dottið af henni og lent vitleysumegin.

Greiðar almenningssamgöngur eru leið til að ná ýmsum markmiðum í senn. Auk þess sem þær stuðla að varðveislu auðlinda og vernd umhverfis eru flestir málsmetandi aðilar sammála um að þær séu lykilþáttur í að móta mannvænar og lífvænlegar borgir.