Eitt leiðarstefa okkar í forritunarsmiðjum Vísindasmiðjunnar er að við viljum sýna þátttakendum hversu auðvelt er að nýta tæknina til að leysa alls kyns verkefni í kringum okkur. Safna gögnum, greina umhverfið, bregðast við inntökum, eða laga sig að aðstæðum. Í allnokkurn tíma hefur einnig verið afar undarlegt hitastig í Vísindasmiðjunni en erfitt að greina hvað er í gangi.

Svo nú er þá ráð að stilla bara upp nokkrum ónotuðum eldri Raspberry Pi tölvum sem við erum með hér í Smiðjunni og byrja að taka mælingar og safna saman. Þá ætla ég að styðjast við þetta ágæta skjal hér:
https://www.raspberrypi.org/documentation/computers/remote-access.html

Markmiðið er að setja upp eina vél með vefþjóni og svo tvær eða fleiri til að safna gögnum. Þjónninn tekur svo við mæligögnum, setur þær upp á vef og/eða sýnir á skjá.

Fyrstu skref

Einfaldasta leiðin til að skrifa Raspberry Pi OS stýrikerfið á SD kort á Windows vél er að nota Raspberry Pi Imager forritið. Í því er stýrikerfið og drifið valið og forritið sér um rest.

Þegar stýrikerfið er komið upp er SD kortinu stungið í Raspberry Pi vél, hún tengd við lyklaborð, mús og skjá, og kveikt á henni. Þegar stýrikerfið keyrir upp í fyrsta skipti tekur það notandann í gegnum nokkrar stillingar og uppfærir sig.

Í þessu skrefi er ágætt að fara í stillingarnar (Hindberið -> Preferences -> Raspberry Pi Configuration), velja það Interfaces, og kveikja á SSH, i2c og 1-wire tengimöguleikunum. Með því er hægt að skrá sig inn á vélina með SSH og tengja hana við alls kyns búnað með i2c og 1-wire.

Svo er bara að lofa vélinni að uppfæra sig og endurræsa hana að því loknu.

SSH

SSH, eða secure shell, er keyrt í skipanalínuviðmóti sem er afar þægilegt að nota á stýrikerfum sem byggja á Linux. Í greininni Remote Access segir hvernig á að finna IP tölu vélarinnar og hvernig hægt er að skrá sig inn frá öðrum vélum.

Á Windows er þægilegt að nota forrit eins og MobaXterm eða PuTTY en á Apple ætti að vera innbyggð skipanalína (terminal, terminal console, console eða álíka). Á Linux eru til mörg skipanalínuforrit en XTerm er það klassíska.

Vefþjónn

Vefþjónninn er settur upp með skipuninni

sudo apt install apache2 -y

og það er ekkert flóknara en það. Vefsíðan lifir þá í /var/www/html/ en sjálfgefið er hún bara ein skrá, /var/www/html/index.html. Síðuna má skoða með því að slá IP töluna (t.d. 192.168.2.10) inn sem vefslóð á vafra sem er á sama neti og Raspberry Pi tölvan og þá á sjálfgefna síðan að koma upp.

Síðunni má svo breyta í ritli.