Nú í dag var haldinn þriðji fundur Pælt í PISA fundarraðarinnar og var yfirskrift hans Farsæld, félagshæfni og viðhorf nemenda.

Á fundinum voru þrjú áhugaverð erindi. Í fyrsta lagi benda PISA niðurstöðurnar til þess að nemendur upplifi öryggi og almenna vellíðan en þó eru teikn á lofti um að tilfinninga- og félagshæfni ungmenni sé að hraka. Á sama tíma búum við í góðu samfélagi og við sjáum mörg dæmi þess að ungt fólk er fært um mikla samkennd og ábyrga hugsun.

Í lokaerindinu nefndi Salvör Nordal dæmi um róttækar breytingar á skólakerfinu sem gerðar hafa verið án nokkurrar aðkomu ungmenna. Þetta er áhugaverður þáttur því það er ekki endilega augljóst hvernig standa skuli að samráði og samtali milli fagfólks og hagaðila. Ég hugsa að við þurfum að læra að eiga það sem samfélag.

Ekki það að þessar breytingar hafi allar verið gerðar á sérstaklega faglegum forsendum, en það er önnur saga.



Á fundinum voru tveir fulltrúar ungmennaráðs Samfés (Samféss?) sem tóku undir önnur atriði sem Salvör kom inn á með mikilvægi þess að bjóða nemendum upp á val við nám sitt. Ég hugsa að við séum öll sammála um það, sem og að auka þurfi veg verklegra æfinga í raunvísindanámi, en það virðist vera atriði sem ítrekað koma upp í athugasemdum ungs fólks um raunvísindakennslu.