Ávarp

Ágætu gestir,

Á þessu vefsetri er að finna upplýsingar um starfsemi Rannsóknamiðstöðvar stefnu og samkeppnishæfni sem undirritaður er í forystu fyrir. Einnig eru hér upplýsingar sem tengjast störfum mínum sem prófessor í stjórnun og stefnumótun í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Rannsóknir undirritaðs og kennslugreinar eru einkum á sviði stefnumiðaðrar stjórnunar, samkeppnishæfni, stjórnarhátta og skipulags fyrirtækja, auk þjónustustjórnunar.

Starf háskólakennara skiptist í þrennt: Rannsóknir, kennslu og stjórnunarstörf innan Háskólans. Undirritaður hóf störf við Háskóla Íslands árið 1993 hefur haft mikinn áhuga á öllum þáttum starfsins. Ef stiklað er á stóru þá var undirritaður sérstakur hvatamaður að því að koma á fót MS námi í viðskiptafræði og var fyrsti umsjónarmaður þess frá stofnun námsins árið 1997 til ársins 2000. Þá tók við stofnun MBA námsins í Háskóla Íslands og forstaða þess frá 2000 – 2007. Haustið 2007 varð undirritaður formaður viðskiptaskorar Viðskipta- og hagfræðideildar HÍ þar til að viðskiptaskor varð að Viðskiptafræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands árið 2008. Eftir skipulagsbreytinguna var undirritaður varadeildarforseti frá 2008-2010 og síðan deildarforseti Viðskiptafræðideildar á árunum 2014-2016.

Rannsóknarmiðstöð stefnu og samkeppnishæfni var sett á stofn við Viðskiptafræðideild í janúar árið 2008. Rannsóknarmiðstöðin hefur fyrst og fremst verið umgjörð utan um rannsóknir og fræðastarf á sínu sérsviði og hún hefur einnig verið ákveðið bakland fyrir kennslu í námskeiðunum Stefnumiðaðri stjórnun og Samkeppnishæfni, sérstaklega varðandi meistararitgerðir og samstarf við meistara- og doktorsnema í rannsóknum. Námskeiðið Samkeppnishæfni er í boði við Viðskiptafræðideild HÍ í samstarfi við net háskóla (MOC Network) sem haldið er utan um af Institute for Strategy and Competitiveness, sem er Stofnun Michaels E. Porters við Harvard Business School. Í tengslum við þetta samstarfsnet háskóla eru starfræktar yfir 50 rannsóknarmiðstöðvar, sem eru fyrirmyndir að starfi miðstöðvarinnar og eftir atvikum samstarfsaðilar. Rannsóknarmiðstöðin á einnig í virku samstarfi við Klasasetur Íslands og tekur þátt í ráðstefnum og málstofum í tengslum við það samstarf.

Kær kveðja,

Runólfur Smári.