Um

Ég er dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Ég gekk í Barnaskóla Ólafsfjarðar, Lundarskóla á Akureyri og Álftamýrarskóla í Reykjavík. Ég lauk stúdentsprófi af nýmálabraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, BA prófi í alþjóðasamskiptum frá Lewis & Clark College í Portland, Oregon og MA prófi í sömu grein frá University of Southern California í Los Angeles. Þar hóf ég einnig doktorsnám, en lauk seinna doktorsprófi frá University College Cork á Írlandi. Ég lauk að auki viðbótardiplómu í aðferðafræði félagsvísinda frá Háskóla Íslands og kennslufræðinámi fyrir háskólakennara frá sama skóla.

Frá því ég sneri aftur til Íslands árið 2003 hef ég starfað sem verkefnastjóri og sviðsstjóri á Jafnréttisstofu, sem forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Rannsóknaseturs um smáríki, og nú síðast sem dósent við Stjórnmálafræðideild. Þar kenni ég námskeið um alþjóðastjórnmál og samningatækni, leiðbeini nemendum við ritun lokaritgerða og sinni rannsóknum. Ég beini sjónum mínum einkum að utanríkis- og öryggismálum og hef sérstakan áhuga á stöðu kvenna í alþjóðastjórnmálum.

Ég hef setið í stjórnum ýmissa félaga sem vinna að jafnrétti kynjanna, þ.m.t. stjórn Landsnefndar UNIFEM á Íslandi, í ráði Femínistafélags Íslands og í aðalstjórn Kvenréttindafélags Íslands. Frá 2008 til 2012 var ég fulltrúi Femínistafélags Íslands, Kvenfélagasambands Íslands og Kvenréttindafélags Íslands í Jafnréttisráði. Ég sat í áhættumatsnefnd á vegum utanríkisráðuneytisins 2007-2009 og var í bakhópi samninganefndar við ESB um utanríkis- og öryggismál, þróunarmál og utanríkisviðskipti frá 2009 þar til hann var lagður niður 2013. Frá vorinu 2018 hef ég setið í landsstjórn Rauða krossins á Íslandi og vorið 2019 var ég skipuð formaður Jafnréttisráðs.

Auk þessa hef ég unnið útvarpsþætti um alþjóðamál fyrir Rás 1. Gárur voru sendar út veturinn 2007-2008.