Kennslusýn


Hlutverk, ábyrgð og markmið

Kennsla felur að mínu mati í sér að miðla upplýsingum til nemenda, en einnig og kannski enn frekar að vekja hjá þeim áhuga fyrir viðfangsefninu og ástríðu fyrir námi. Ég lít á það sem hlutverk mitt að kveikja þennan áhuga hjá nemendum og gera þeim ljóst að alþjóðastjórnmál snerta á fjölmörgum sviðum mannlífs. Ég tel það vera á ábyrgð mína og mikilvægan þátt kennslunnar að varpa ljósi á þær tengingar sem eru milli okkar lífsstíls, hegðunar og lífskjara og þeirra atburða sem birtast okkur í fréttum af alþjóðavettvangi. Það er markmið mitt að nemendur komi út úr námskeiðum mínum með skilning á samspili stjórnmála, efnahags og annarra þátta á alþjóðavettvangi.

Kennsluaðferðir

Kennsla fer að miklu leyti fram í fyrirlestrum, en ég legg mikið upp úr því að nemendur taki virkan þátt í námi sínu. Þannig eru þeir hvattir til að spyrja í fyrirlestrum og gagnrýna þær hugmyndir sem þar koma fram. Að auki legg ég dæmi fyrir nemendur til að takast á við í minni umræðuhópum og reyni að nota hlutverkaleiki þar sem því verður við komið. Ég legg mig fram við að bæta kennslu mína með því að sækja námskeið og fyrirlestra, og stunda nám í kennslufræðum á háskólastigi samhliða vinnu.

Námsmat

Námsmat í mínum námskeiðum byggir á bæði ritgerðum, þátttöku og prófum, sem eru sett upp til að láta reyna á ólíka þætti; þekkingu, skilning, greiningu og nýmyndun. Ég reyni ávallt að láta þátttöku telja til einkunnar, með því að taka tillit til virkni í tímum þar sem því verður við komið eða með því að nota minni verkefni þar sem brugðist er við fyrirlestri á einhvern hátt. Í sumum námskeiðum, einkum á framhaldsstigi, skila nemendur lestrardagbókum reglulega, en þar bregðast þeir við lesefninu og setja það í samhengi við sinn veruleika. Í grunnnámi nota ég bæði krossapróf, skilgreiningar og ritgerðarspurningar til að hvetja nemendur bæði til að ná tökum á staðreyndum og setja þær í samhengi.

Hugmyndir og kenningar að baki kennslu

Ég tel að nemendur læri mest þegar þeir eru virkir og vinna með lesefnið. Ég hvet nemendur til virkni í tímum, bendi þeim á áhugaverða fyrirlestra og viðtöl við fræðimenn og stjórnmálamenn á netinu og nota til dæmis Facebook utan kennslutíma til að hvetja nemendur til að vera vakandi fyrir umræðu um alþjóðamál utan jafnt og innan námskeiðs og setja hana þannig í samhengi við sitt daglega líf. Ég hvet nemendur til að taka því ekki sem sjálfsögðu að hlutirnir séu eins og þeir eru og mætti sennilega fella kennslu mína að nokkru undir það sem kallast félagslega gagnrýnin nálgun (socially critical approach). Í einu námskeiði sérstaklega beiti ég þó nálgun sem byggir á upplifun og persónulegu mikilvægi (experiental or personal relevance approach), en þar þurfa nemendur að tileinka sér þekkingu og færni á ákveðnu sviði.

Frá nemendum:

Nemandi í námskeiðinu Alþjóðastjórnmál: Inngangur sendi þennan póst: „þakka þér fyrir frábæra kennslu á árinu, af kennurum fannst mér þú skara auðveldlega framúr á önninni, og átt hrós skilið fyrir metnaðarfulla kennslu og kennsluhætti. Eins skipta „litlir“ hlutir einsog að leggja á sig nöfn nemendanna miklu máli og er eitthvað sem mér finnst aðdáunarvert.“
Nemandi í námskeiðinu Samningatækni sendi þennan póst: „Ég vil þakka kærlega fyrir skemmtilega og lærdómsríka önn. Fyrirlestrar þínir og öll önnur skipulagning námskeiðsins, af þinni hálfu, var til fyrirmyndar.“
Nemandi sem ég leiðbeindi við ritun MA ritgerðar sendi mér þessi skilaboð að verkinu loknu: „takk fyrir langt og viðburðaríkt skrifsamband. Þú hefur sýnt mér ótrúlega þolinmæði og skilning en jafnframt stutt við bakið á mér þegar ég þurfti á því að halda. Þú ert svo sannarlega á réttri hillu í lífinu.“ Annar MA-nemandi sagði: „Takk kærlega fyrir samstarfið og fyrir að hafa alltaf verið til staðar. Ég hefði ekki getað verið með betri leiðbeinanda! 😀 Mér finnst líka svo gott hvað þú komst manni inn á rétta braut án þess að hafa samt algjörlega bein áhrif. ... Þú ýttir við mér þegar þess þurfti og peppaðir mig upp þegar ég þurfti mest á því að halda!“