Afneitun loftslagsvandans
Eftirfarandi pistill sem við Hrönn Egilsdóttir skrifuðum birtist í Kjarnanum 16. janúar síðastliðinn.
Tilgangur og markmið vísinda er að afla skilnings á náttúrulegum fyrirbærum og skapa þekkingu. Vísindalegar rannsóknir og þróunarvinna eru undirstaða daglegs lífs langflestra jarðarbúa. Þar má nefna hluti sem okkur þykja sjálfsagðir eins og lyf, samgöngur, ýmis raftæki, nýtingu auðlinda o.s.frv. Þökk sé vísindalegum rannsóknum vitum við að reykingar valda krabbameini, HIV veiran veldur alnæmi og hreyfingar í kvikuhólfum í jarðskorpunni geta orsakað jarðskjálfta. Þetta allt er almennt viðurkennt og óumdeilt.
Vísindalegar rannsóknir sýna líka ótvírætt að stærsta ógnin við líf og lifnaðarhætti manna (og annarra lífvera á jörðinni) eru loftslagsbreytingar sem stafa af auknum gróðurhúsaáhrifum og súrnun sjávar en hvort tveggja stafar af losun mannkyns á koldíoxíði (CO2) út í andrúmsloftið. Það er bráðnauðsynlegt og áríðandi er að takast á við þennan vanda og þjóðir heimsins hafa flestar komist að samkomulagi um að setja metnaðarfull markmið um aðgerðir til að draga úr ógninni. Þrátt fyrir þetta heyrast enn háværar raddir sem afneita þessari ógn. Það er sérstaklega alvarlegt mál þegar stjórnmálamenn, aðrir kjörnir fulltrúar eða jafnvel áhrifaríkir hagsmunaaðilar afneita loftslagsvandanum, því þar með eru þeir að neita kynslóðum framtíðar um þær lausnir sem hægt er að grípa til nú strax til að leysa vandann. Og lausnirnar eru svo sannarlega til!
Afneitun á loftslagsvandanum getur verið af nokkrum ástæðum, t.d.:
- Skorti á skilningi á því hvernig vísindalegar rannsóknir fara fram og því hlutverki sem vísindin hafa í samfélagi manna, þ.e.a.s. vegna skorts á vísindalæsi.
- Vegna blindrar trúar á tæknilegar lausnir eða mátt markaðarins.
- Af eindregnum vilja til þess að ljúga, t.d. til að vernda eigin hagsmuni eða ganga erinda hagsmunaaðila.
Ekki er alltaf auðvelt að sjá hvaða ástæður liggja að baki afneitunar hvers einstaklings. Nærtækt dæmi eru pistlar sem Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður olíuleitarfyrirtækisins Eykon Energy skrifaði nýverið í Kjarnann. Í pistlunum birtist mikil trú á mátt markaðarins og tæknilegar framfarir, en efni pistilsins kann að vera dæmi um alvarlegan skort á vísindalæsi, blinda trú á kapítalisma eða einbeittan vilja til að afvegaleiða umræðuna um þá ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir.
Erlendis er vel skrásett að andóf gegn loftslagsvísindum er skipulagt af hagsmunaaðilum í olíu og gasiðnaði. Iðnaði sem jafnan svífst einskis til þess að kasta rýrð á vísindamenn, fræðasamfélagið og alþjóðlegar stofnanir til þess að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna. Beitt er svipuðum aðferðum og tóbaksiðnaðurinn notaði gegn vísindamönnum sem afhjúpuðu skaðsemi reykinga.
Taka skal fram að vísindin og vísindalegar aðferðir eru alls ekki yfir gagnrýni hafðar. Þvert á móti því vísindin þrífast á gagnrýnni umræðu. En skipulagðar og vel fjármagnaðar áróðursherferðir eru ekki gagnrýnin umræða, heldur tilraun til að afvegaleiða almenning og stjórnvöld. Framtíð komandi kynslóða manna og alls lífs á jörðinni veltur á því við verjumst þessum áróðri. Hér er hlutverk fjölmiðla mikilvægt, og ábyrgð kjörinna fulltrúa enn meiri.
Því þrátt fyrir það veisluborð upplýsinga sem internetið færir okkur, þá vilja rangfærslur og staðreyndavillur ósjaldan yfirtaka almenna umræðu um ýmis málefni. Erfitt er að eiga við eindreginn vilja til að afvegaleiða umræðu með rangfærslum. En almennt vísindalæsi er auðvelt, og nauðsynlegt að bæta með því að efla ábyrga upplýsingamiðlun og menntun. Því þrátt fyrir það veisluborð upplýsinga sem internetið færir okkur, þá vilja rangfærslur og staðreyndavillur ósjaldan yfirtaka almenna umræðu um ýmis málefni.
Vísindamenn eru fjölbreyttur hópur fólks sem vinnur bæði í samvinnu og í samkeppni við aðra vísindamenn. Vísindalegar rannsóknir ganga út á prófa tilgátur sem lagðar eru fram út frá fyrirliggjandi þekkingu. Stundum er tilgátum hafnað en stundum renna rannsóknirnar stoðum undir tilgáturnar. Tilgátur sem hafa staðist ítrekuð próf festast í sessi og með tímanum verður almenn og víðtæk sátt um sannleiksgildi tilgátunnar sem eftir það litið á sem staðreynd, jafnvel lögmál eða kenningu. Dæmi um þetta eru m.a. þyngdarlögmál Newtons, erfðalögmál Mendels eða þróunarkenning Darwins. Nú er það viðurkennt sem vísindaleg prófuð staðreynd að stórtækur útblástur manna á koldíoxíði (CO2 ) er að valda og mun halda áfram að valda víðtækum neikvæðum áhrifum á samfélög manna og annað lífríki á jörðinni.
Byggjum umræðu um loftslagsmálin á niðurstöðum sem aflað er með vísindalegum prófunum. Gagnrýnin hugsun gengur ekki út á að efast um allt, heldur að spyrja um gæði upplýsinga og ræða um þær á yfirvegaðan hátt. Þar bera allir, stjórnvöld, fjölmiðlamenn, fræðimenn og aðrir, mikla ábyrgð. Samþykkjum ekki staðreyndavillur og samsæriskenningar. Vegferð mannkyns byggir á því.
Arnar er dósent við líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Hrönn er doktorsefni við Jarðvísindadeild HÍ.