Uppeldissvæði laxfiska í Þingvallavatni og tengdum ám
Uppeldissvæði laxfiska í Þingvallavatni og tengdum ám / Areas used by Salmonid juveniles in Lake Þingvallavatn and connected rivers. Guðbjörg Ósk Jónsdóttir, Benóný Jónsson, Magnús Jóhannsson og Arnar Pálsson. (Náttúrufræðingurinn).
UPPELDISSVÆÐI SEIÐA og ungra fiska veita þeim athvarf og fæðu og eru því mikilvæg fyrir líf einstaklingsins, stofninn og tegundina sem heild. Í Þingvallavatni lifa tvær tegundir af ætt laxfiska, urriði (Salmo trutta) og bleikja (Salvelinus alpinus), sem á íslensku hafa samheitið silungur. Hafa umfangsmiklar rannsóknir verið stundaðar á fullorðnum einstaklingum þessara tegunda, en minna farið fyrir athugunum á seiða- og ungstigi tegundanna. Vegna mikilvægis uppeldissvæða fyrir fiskana og þýðingu þeirra fyrir líffræðilegan fjölbreytileika var ákveðið að leitast með rannsókn við að varpa ljósi á dreifingu og þéttleika bleikju og urriðaseiða í fjöruvist Þingvallavatns og straumvötnum sem tengjast vatninu. Spurt var:
1) Hvar í vatninu og tengdum ám finnast seiði þessara tegunda?
2) Hefur þéttleiki og dreifing seiða bleikju og/eða urriða breyst á síðustu tuttugu árum?
3) Er tenging milli umhverfisaðstæðna (ólífrænna (e. abiotic) og lífrænna (e. biotic) þátta) og tilvistar seiða?
Greind voru gögn úr vöktun Veiðimálastofnunar (nú Hafrannsóknastofnunar) í Þingvallavatni og nærliggjandi ám frá 2000 til 2021. Sumarið 2022 voru tíu svæði í Þingvallavatni könnuð, fiskar veiddir og mældir og umhverfisaðstæður kannaðar. Helstu niðurstöður eru að tegundirnar nýta ólík svæði. Urriðaseiði finnast helst í nærliggjandi ám og hefur þéttleiki aukist frá 2000 til 2021. Bleikjan er fyrst og fremst í vatninu sjálfu og hefur þéttleiki hennar lítið breyst, eða jafnvel aðeins dvínað. Árið 2022 fundust seiði á sex mögulegum uppeldissvæðum í Þingvallavatni. Á fjórum þeirra var bleikjan í miklum meirihluta en á tveimur var það urriðinn. Tegundirnar sköruðust lítið. Gróður á strandlengju var eini umhverfisþátturinn sem virtist hafa áhrif á það hvort seiði fundust. Í framhaldi af þessari rannsókn væri forvitnilegt að kanna nýtingu mismunandi afbrigða bleikju og arfgerða urriðans á ólíkum uppeldissvæðum og kanna samspil umhverfisþátta og gena við þroskun fullorðinna fiska og ýmsa eiginleika þeirra, svo sem stærð og fæðu- og búsvæðaatferli.