(English) Acceptable ants and Atg7 on a run

Arnar Pálsson, 13/06/2022

Sorry this part has not been translated

(English) DNA methylation differences during development distinguish sympatric morphs of Arctic charr

Arnar Pálsson, 25/03/2022

From the abstract.

  • The data revealed strong differences between developmental timepoints and between morphs (mainly along the benthic – limnetic axis), both at single CpG sites and in 1000bp-regions. Genes located close to differentially methylated CpG sites were involved in nucleosome assembly, TGF-β regulation, and cell matrix adhesion.

From the abstract.

  • The data revealed strong differences between developmental timepoints and between morphs (mainly along the benthic – limnetic axis), both at single CpG sites and in 1000bp-regions. Genes located close to differentially methylated CpG sites were involved in nucleosome assembly, TGF-β regulation, and cell matrix adhesion.

 

(English) Contributions to the Icebio2021

Arnar Pálsson, 22/12/2021

Sorry this part has not been translated

(English) First results from scanning of charr juveniles

Arnar Pálsson, 06/09/2021

Sorry this part has not been translated

(English) Contributions to the Icelandic Ecology Conference

Arnar Pálsson, 24/04/2021

Sorry this part has not been translated

(English) Are there ants under Reykjavík?

Arnar Pálsson, 26/02/2021

Sorry this part has not been translated

(English) Master of Science (MS) program on aquatic biology and fisheries

Arnar Pálsson, 22/09/2020

Sorry this part has not been translated

Maurar Íslands

Arnar Pálsson, 12/07/2020

Erling Ólafsson á Náttúrufræðistofnun Íslands skráði um árabil maura sem fundust hérlendis. Í flestum tilfellum voru það maurar sem bárust með timbri, mat eða öðrum vörum sem nýkomnar voru frá útlöndum. En sumar tegundir, eins og húsamaur, virtust hafa sest hér að.

Ný er hafið nýtt rannsóknarverkefni sem miðar því að kortleggja nákvæmar dreifingu maura í þéttbýli hérlendis, hvaða tegundir finnast hér, í hvaða hverfum, hvenær má sjá drottningar á flugi og fleira í þeim dúr.

Verkefnið nýtist einnig til að vekja athygli fólks á landnámi tegunda hérlendis, áhrifum mannsins á vistkerfi og vistkerfi borga almennt.

Að meistaraverkefni vinnur Marco Mancini og honum til aðstoðar í sumar er Andreas Guðmundsson. Þeir hafa t.a.m. útbúið vefsíðuna maurar.hi.is þar sem finna má fróðleik um maura, myndir, myndbönd og spurningaleiki.

Til að vekja athygli á verkefninu voru einnig útbúnar síður á samfélagsmiðlum.

Twitter - MaurarÍslands

Sá hluti verkefnisins sem snýr að kynningu fyrir almenningi er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og nýtur einnig fulltingis vinnumálastofnunar.

Leiðbeinendur Marcos í meistaraverkefninu eru Arnar Pálsson, Mariana Tamayo og James Wetterer.

Hefur COVID-19 lagst harðar á karla en konur og hvað gæti skýrt það?

Arnar Pálsson, 12/06/2020

Arnar Pálsson. „Hefur COVID-19 lagst harðar á karla en konur og hvað gæti skýrt það?Vísindavefurinn, 12. maí 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=79406.

Fyrstu tölur um dauðsföll vegna veirunnar sem veldur COVID-19 bentu til þess að karlar væru í meiri hættu á að fá alvarlegan sjúkdóm en konur. Þetta virðist vera rétt, en ekki er vitað hvað veldur þessum mun á áhættu og hvort það er aðeins kynið sem hefur þar áhrif. Veiran sem veldur COVID-19 hefur breiðist mjög hratt út, gjarnan með mjög alvarlegum afleiðingum. Fólk er samt í mismikilli hættu á að veikjast illa og virðist sem margir þættir skipti þar máli. Undirliggjandi sjúkdómar, margir og misjafnir, virðast auka hættu á alvarlegri einkennum og dauða. Aldur er annar þáttur sem skiptir miklu máli en svo virðist sem dánartíðni sýktra aukist með aldri. Í nýlegri breskri rannsókn var lagt mat á áhættuaukninguna.[1] Rannsóknin kallast OpenSAFELY og í henni voru gögn um heilsu, aldur og fleira fyrir um 17 milljónir Englendinga greind í gegnum dulkóðaðar sjúkraskrár og síðan samþætt við lista um andlát af völdum COVID-19-veirunnar.[2] Matið byggir á dánartíðni á tímabilinu 1. febrúar 2020 til 25. apríl 2020. Miðað við aldurshópinn 50-60 ára var aukning á áhættu andláts meðal 60-70 ára áætluð tvöföld, hjá 70-80 ára var hún 4,8-föld og um 12,6-föld hjá fólki eldra en áttrætt. Þeir sem voru yngri en 50 ára voru síðan í minni áhættu. Einnig var lagt mat á hættu á andláti út frá kyni. Niðurstöðurnar meta hættuna á andláti sýktra karlmanna tvöfalda umfram konur (tafla 1). Margar aðrar rannsóknir og greiningar hafa gefið svipað mynstur í mismunandi löndum, þó matið á áhættuaukningunni sé mismunandi.

Aldur Einstaklingar Fjöldi látinna
18-39 5.990.809 40
40-49 2.875.761 94
50-59 3.068.883 355
60-69 2.405.327 693
70-79 1.948.095 1.560
80- 1.948.095 2.941
Kyn
Konur 8.729.741 2.098
Karlar 8.695.704 3.585

Tafla 1. Upplýsingar um fjölda og dánartíðni Englendinga vegna COVID-19 úr handriti OpenSAFELY-rannsóknarhópsins (sjá heimildaskrá). Dálkarnir tiltaka fjölda einstaklinga í hverjum hópi (á vissu aldursbili eða kyni), og fjölda þeirra sem létust á tímabilinu. Heildarfjöldi í hvorum hópi er gefinn neðst.Þá liggur beinast við að spyrja hvað geti skýrt þennan mun? Svarið er enn á huldu. Mögulega er munurinn vegna ytri aðstæðna, umhverfis í sinni víðustu mynd, eða innri þátta, það er erfða og lífeðlisfræði. Eins gæti verið um samspil umhverfis og erfða að ræða.

Margar tilgátur um mun á áhrifum veirunnar eftir kynjum snúast um ónæmiskerfið.

Vera má að kynjamunurinn skýrist af félagslegum, menningarlegum eða atferlislegum þáttum að hluta. Margar mismunandi tilgátur hafa verið settar fram. Hittast karlar oftar utan heimilis? Eru þeir með viðkvæmari öndunarfæri vegna vinnuumhverfis eða lifnaðarhátta? Þvo þeir sér sjaldnar um hendur og sýkjast því af stærri skammti af veirunni? Reykja karlmenn aðeins meira en konur og einnig oftar? Eðli málsins samkvæmt er mjög erfitt að meta þessa þætti, eins og umhverfisþætti almennt. Stóra áskorunin er að þættirnir skipta hundruðum og jafnvel þúsundum og mælingar á þeim eru mikilli óvissu háðar. Lífeðlisfræðilega eru konur og karlar þó ólík um marga þætti.[3] Margt er á huldu varðandi það hvernig veiran dregur fólk til dauða, það gæti tengst líffræði lungna, öndunarfæra og ónæmiskerfis. Flestir sérfræðingar telja að það síðastnefnda skipti mestu máli. Ein tilgáta er að ofvirkni í vissum hlutum ónæmiskerfisins geti stuðlað að bólgusvörun og líffærabilun. Margar tilgátur um mun á áhrifum veirunnar eftir kynjum snúast einmitt um ónæmiskerfið. Ein er sú að mismunur í sterabúskap karla og kvenna geti haft ólík áhrif á ónæmiskerfið. Önnur tilgáta er að vegna þess að X-litningar bera gen sem tengjast ónæmiskerfinu séu konur betur varðar með sín tvö eintök af þeim litningi. Því til stuðnings er sú staðreynd að genin fyrir ónæmisviðtakana TLR7 og TLR8 eru á X-litningi karla. Þessir viðtakar binda einþátta RNA úr veirum og ræsa ónæmiskerfið. Erfðaefni veirunnar sem veldur COVID-19 er einmitt á því formi.[4]

Lega TLR7 og TLR9-genanna á X-litningi í erfðamengi manna. Mynd fengin af vef erfðamengjavafra Kaliforníuháskóla í Santa Cruz (UCSC genome browser).

Þriðja tilgátan er sú að virkni ónæmiskerfisins sé mismunandi milli kynja. Þessi tilgáta er studd nokkrum rannsóknum sem sýna meðal annars kynjamun í svörun karla og kvenna við inflúensuveirunni, og mun í svörun kynja við bólusetningum. Ónæmiskerfi hryggdýra er oft skipt í meðfædda eða ósértæka ónæmiskerfið (e. innate) og áunna eða sértæka ónæmiskerfið (e. adaptive). Ein rannsókn á tjáningu gena í frumum ónæmiskerfisins hjá heilbrigðu fólki á aldrinum 22 til 95 ára greindi mun á kynjum og benda niðurstöðurnar til þess að meðfædda kerfið sé virkara hjá körlum eftir 65 ára aldur, en sértæka ónæmiskerfið veikara. Þetta birtist þannig að gen sem tengjast bólgusvörun voru meira tjáð í körlum eftir þennan aldur, og á móti var fækkun vissra frumugerða í sértæka ónæmiskerfinu. Nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur á ónæmiskerfið í heild sinni er óvíst. Sabra Klein, prófessor á John Hopkins-sjúkrahúsinu sagði í viðtali við The Guardian um karla: „meðfædda ónæmiskerfi þeirra getur e.t.v. ekki brugðist rétt við þegar það mætir veirunni“.[5] Það á eftir að koma í ljós hvort að þessir þættir eða einhverjir aðrir skipti máli fyrir mun á dánartíðni milli kynja. Samantekt

  • Dánartíðni vegna COVID-19 er mismunandi eftir aldri og kyni.
  • Áhrif aldurs eru mun sterkari en áhrif kyns.
  • Óvíst er hvort munurinn sé eingöngu vegna kyns eða einnig annarra þátta.
  • Margar tilgátur eru um hvað veldur kynjamun, en svör vantar.

Tilvísanir:

  1. ^ Niðurstöðurnar eru í yfirlestri hjá sérfræðingum sem þýðir að taka ber þeim með fyrirvara.
  2. ^ Svokallaðan CPNS-lista: COVID-19 Patient Notification System.
  3. ^ Hér átt við að meðaltali. Þótt munur sé á mörgum eiginleikum karla og kvenna þýðir það ekki að annað kynið sé betra eða æðra en hitt. Meðaltalsmunur á hópum þýðir heldur ekki að allir í einum hópnum séu með lægra gildi en allir í hinum hópnum. Auðvelt er að sjá þetta þegar hugsað er um hæð mannfólks. Konur eru að meðaltali lægri en karlar, en töluverður fjöldi kvenna er hærri en margir karlar.
  4. ^ Vísindavefurinn: Stökkbreytist veiran sem veldur COVID-19 hraðar en aðrar RNA-veirur? (Sótt 11.05.2020).
  5. ^ “Their immune system may not initiate an appropriate response when it initially sees the virus”.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur þakkar Jóhönnu Jakobsdóttur, líftölfræðingi hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum og Jóni Magnúsi Jóhannessyni, deildarlækni á Landspítalanum, fyrir yfirlestur og gagnlegar athugasemdir.

Ef ég mynda ónæmi fyrir einni útgáfu af COVID-19 hef ég þá nokkuð vörn fyrir öllum stökkbreyttu útgáfunum?

Arnar Pálsson, 12/06/2020

Arnar Pálsson. „Ef ég mynda ónæmi fyrir einni útgáfu af COVID-19 hef ég þá nokkuð vörn fyrir öllum stökkbreyttu útgáfunum?Vísindavefurinn, 30. apríl 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=79322.

Upprunaleg spurning Bjarna var í löngu máli:

Er hjarðónæmi eða bólusetning óraunhæf vörn vegna fjölda stökkbreytinga? Ef sá sem myndar ónæmi fyrir einni útgáfu af veirunni sem veldur COVID-19 vantar þá ekki enn vörn fyrir 569 stökkbreyttum útgáfum? Miðað við að Íslensk erfðagreining hefur hingað til samkvæmt Kára skilgreint 570 stökkbreytt afbrigði af SARS-CoV-2? Þá vísa ég líka til þess sem segir í öðru svari á Vísindavefnum: "Mikilvægt er þó að taka fram að ónæmisminni sem myndast vegna einnar gerðar kórónuveiru mun ekki verja okkur gegn sýkingu annarrar gerðar kórónuveiru." Sjá svar við spurningunni: Er hægt að smitast tvisvar af COVID-19?.

Stutta svarið við spurningunni er einfaldlega þetta: Ólíklegt er að stökkbreytingar sem þegar hafa orðið á veirunni sem veldur COVID-19 valdi því að ónæmiskerfi þeirra sem hafa smitast muni ekki eftir veirunni. Vísindamenn telja að slík þróun veirunnar taki ár.

Hvað er stökkbreyting?

Orðið stökkbreyting hefur mismunandi merkingu í almennu máli og erfðafræði. Í erfðafræði er hugtakið notað um alls konar erfðafrávik, frá mjög smávægilegum til þeirra sem valda breytingum á svipgerð. Í almennu máli táknar stökkbreyting veigamiklar breytingar á eiginleikum einstaklinga, samanber hugmyndir um X-mennin. Því er eðlilegt að fólk hafi áhyggjur þegar talað er um 40 eða 570 nýjar stökkbreytingar í veirunni sem veldur COVID-19. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að stökkbreytingar eru fæstar slæmar. Mikill meirihluti stökkbreytinga sem finnast í fólki hafa til dæmis engin áhrif á hæfni einstaklinga. Að sama skapi fær hver einstaklingur milli 40 og 120 nýjar einsbasa breytingar frá foreldrum sínum. Engu að síður eru nær öll börn mjög lík foreldrum sínum, enda hafa fæstar þessara breytinga veruleg áhrif á útlit eða svipfar.[1] En hvað með þessar stökkbreytingar í veirunni sem veldur COVID-19? Kveikjan að spurningunni er nýleg frétt um að 570 breytingar hefðu fundist í veirunum sem hefðu verið raðgreindar úr fólki á Íslandi.[2] Á heimsvísu hafa rúmlega þrjár milljónir manna greinst smitaðir og 12.000 veiruerfðamengi verið raðgreind.[3] Fjöldi stökkbreytinga sem orðið hafa í veirunni frá því að faraldurinn hófst er því umtalsverður. Ástæðan er sú að í hvert skipti sem veiran SARS-CoV-2 fjölgar sér og smitast frá einum einum einstaklingi til annars, verða breytingar á erfðefni hennar.

Stökkbreytingar hafa áhrif á hæfni

Hægt er að líta á stökkbreytingar í erfðaefni á tvo vegu. Í fyrsta lagi með því að meta áhrif stökkbreytinganna á hæfni lífverunnar. Í öðru lagi má skoða hvar stökkbreytingin verður í erfðaefninu, og hvaða afleiðingar hún hefur fyrir virkni gensins eða eiginleika lífverunnar. Áhrif stökkbreytinga á hæfni[4] falla í þrjá flokka:

  1. Neikvæðar breytingar, það er stökkbreytingar sem geta dregið úr hæfni lífveru, með því að skerða fjölgunargetu eða lífslíkur.
  2. Jákvæðar, það er geta aukið hæfni lífveru, með því að breyta virkni henni þannig að lífslíkur aukast eða fjölgunargeta eykst.
  3. Hlutlausar stökkbreytingar, það er hafa engin áhrif á hæfni lífveru.

Þær breytingar sem finnast í stofnum lífvera eru flestar af gerð 3, en jákvæðar breytingar eru sjaldgæfar. Litlar líkur verða raunverulegar ef teningnum er kastað nógu oft. Eins og áður hefur verið fjallað um á Vísindavefnum, eykst hættan á að jákvæð breyting verði í erfðaefni veirunnar með auknum fjölda smita.[5] Ef aðeins 1.000 manns smitast þýðir það 1.000 möguleika fyrir stökkbreytingar með jákvæð áhrif á hæfni veirunnar. Ef fimmtíu milljónir manna smitast aukast líkurnar á breytingum sem eru veirunni í hag. Hver veirukynslóð skiptir máli og því er gríðarlega mikilvægt að koma hömlum á útbreiðslu veirunnar.

Áhrif stökkbreytinga á prótín og virkni

Hægt er að spá fyrir um hvort stökkbreytingar séu jákvæðar, neikvæðar eða hlutlausar með því að skoða áhrif þeirra á gen lífvera. Slíkar spár eru háðar óvissu, en gera okkur samt kleift að meta hvort tiltekin stökkbreyting geti haft áhrif á virkni gena og þar með hæfni. Í tilfelli veirunnar sem veldur COVID-19 getum við athugað hvar stökkbreytingar lenda í erfðamengi veirunnar og hvort genin raskist eða verði ekki fyrir áhrifum. Erfðamengi veirunnar er að meðaltali 29903 basapör, og það skráir nær allt fyrir prótínum. Talið er að það skrái fyrir 29 ólíkum prótínum, hlutverk sumra er þekkt en annarra ekki.[6] Stökkbreytingar í erfðefni veirunnar geta annað hvort valdið breytingu á röð prótína eða ekki. Stórt hlutfall stökkbreytinga sem fundist hafa í veirunni breyta ekki byggingu prótína veirunnar. Þetta eru svokallaðar þöglar breytingar. Líklegast er að nær allar séu þróunarfræðilega hlutlausar. Þær munu ekki gera veirunni kleift að sleppa frá ónæmiskerfinu.[7] Mótefni sem ónæmiskerfið framleiðir óvirkjar veirur og sýkingar á marga vegu. Þau bindast sýklum og stýra drápi á sýktum frumum.[8] Bútar eða hlutar prótína veirunnar mynda svokallaða mótefnavísa (e. epitope), sem ónæmiskerfið skynjar. Mótefni gegn veirunni SARS-CoV-2 gætu til dæmis bundist ytra byrði agnarinnar og þannig heft framvindu sýkingar. Ónæmisfrumur einstaklings muna eftir eldri sýklum og geta svarað seinna smiti hratt og afgerandi. Það er lykillinn í bóluefnum, að kenna ónæmiskerfinu að þekkja sýkla af ákveðnum gerðum.

Einföld skýringarmynd af veirunni SARS-CoV-2. Bindiprótínin eru á ytra byrði veirunnar. Þau tengjast viðtökum hýsilfrumunnar og þannig kemst veiran inn í hana.

Víkjum aftur að veirunni. Skipti á amínósýrum í öllum 29 prótínum veirunnar geta mögulega gert henni kleift að víkja sér undan minni ónæmiskerfisins. En ekki eru öll prótín jöfn. Líklegra er að breytingar á tilteknum prótínum veirunnar auðveldi henni að sleppa undan ónæmiskerfinu. Sennilega er svokallað bindiprótín mikilvægast í þessu samhengi. Það stendur út úr yfirborði veiruagna og stuðlar að innlimun þeirra í frumur. Eins og fjallað verður um síðar, er einnig mögulegt að önnur prótín veirunnar veki mótefnasvar. Mikilvægi bindiprótínsins er stutt rannsóknum á þróun erfðamengja annarrar kórónuveira. Greining á erfðamengjum og sögu smita OC43-veirunnar í heilan áratug sýndi til dæmis að bindiprótínið þróast hraðast. Þar urðu flestar breytingar á byggingu prótínanna. Ástæðan er sú að breytingar á amínósýruröð veiruprótíns geta valdið því að ónæmiskerfi einstaklings þekki veiruna ekki aftur. Líklega þarf margar slíkar stökkbreytingar til að sleppa frá minni ónæmiskerfisins (það er að segja ein stökkbreyting dugir ekki til).

Þróunarsaga og mynstur basaskipta í erfðamengi OC43-veirunnar. Efri hlutinn sýnir þróunarsögu heilraðgreindra veira frá 1976 til 2019. Hver punktur táknar greint sýni og þau eru tengd í tölfræðilega metið ættartré. Neðri hlutinn sýnir byggingu litnings veirunnar, súlurnar tákna basabreytingar. Því hærri sem súlan er, því fleiri breytingar hafa orðið eða meiri munur á tíðni gerða yfir tímabilið. Bláleitur kassi er utan um genið sem skráir fyrir bindiprótíninu sem er sérstaklega breytilegt. Myndina gerði Emma Hodcroft eftir gögnum frá Ren o.fl. 2015.

Hröð þróun bindiprótínsins er því merki um að það hafi þróast frá ónæmiskerfinu. Þannig að einstaklingar sem smituðust af eldri gerðum þeirrar veiru, búi ekki lengur yfir ónæmi. Þetta er raunverulegur möguleiki sem virðist eiga sér stað hjá öðrum kórónuveirum sem sýkja menn og því líklegt að svipuð gerist hjá þessari nýju veiru. Benda þarf á tvö atriði til viðbótar. Þróun OC43-veirunnar sýnir að fleiri svæði í erfðamengi veirunnar hafa þróast hratt. Það gæti líka tengst flótta hennar undan ónæmiskerfum okkar. Einnig skiptir máli að þróun OC43-veirunnar varð yfir margra ára eða áratuga langt tímabil. Það bendir til að þróun kórónuveira frá ónæmisminni taki umtalsverðan tíma. Það er að minnsta kosti ályktun Trevors Bedford, sérfræðings í þróun og stofnerfðafæði veira við háskólann í Washington. Rannsóknarhópur hans hefur kortlagt smit og dreifingu veirunnar á heimsvísu í einstöku verkefni sem nefnist Nextstrain. Trevor lýsti því nýlega yfir á Twitter.com „að það tæki veiruna líklega nokkur ár að stökkbreytast nægilega mikið til að gera bólusetningu gagnslausa.“[9] Í sama streng tekur Nick Loman, prófessor og sérfræðingur í erfðamengjafræði og lífupplýsingafræði örvera við háskólann í Birmingham. Í viðtali við Financial Times ályktaði hann að „við getum sannarlega búist við að einhverjar stökkbreytingar breyti eiginleikum veirunnar, en að ekki séu vísbendingar um að þetta hafi þegar gerst“.[10] Með öðrum orðum, ólíklegt er að stökkbreytingar sem þegar hafi orðið á veirunni til þessa (til dæmis þessar 570 sem fundist hafa hérlendis) valdi það miklum breytingum á veirunni, að hún sleppi frá ónæmikerfi þeirra sem lifað hafa sýkinguna af.

Samantekt

  • Stökkbreytingar valda ekki byltingu á eiginleikum lífvera.
  • Stökkbreytingar sem auka hæfni veirunnar eru ólíklegar en geta orðið ef faraldurinn geisar nægilega lengi.
  • Ónæmiskerfið man eftir sýkingum kórónuveira og verndar fólk fyrir seinna smiti (þetta á líklega einnig við um veiruna sem veldur COVID-19).
  • Veirur geta þróast þannig að ónæmiskerfin beri ekki kennsl á þær lengur.
  • Búist er við að slík þróun veirunnar sem veldur COVID-19 taki ár.

Tilvísanir:

  1. ^ Nýjar stökkbreytingar eru alltaf arfblendnar og ef þær eru víkjandi hafa þær engin áhrif á svipfar. En ef alvarlegar breytingar lenda á arfhreinu formi eða parast við aðra alvarlega breytingu í saman geni, þá er voðinn vís.
  2. ^ RÚV. (2020, 17. apríl). Hættulegt að nálgast þessa veiru eins og hverja aðra. (Sótt 28.04.2020).
  3. ^ GISAID - Initiative. (Sótt 27.04.2020).
  4. ^ Hér er átt við þróunarfræðileg hæfni, sjá nánar: Arnar Pálsson. (2020, 26. mars). Getur kórónuveiran sem veldur COVID-19 stökkbreyst og orðið hættulegri? Vísindavefurinn. (Sótt 28.04.2020).
  5. ^ Jón Magnús Jóhannesson. (2020, 20. mars). Er hægt að smitast tvisvar af COVID-19? Vísindavefurinn. (Sótt 28.04.2020).
  6. ^ Jonathan Corum og Carl Zimmer. (2020, 3. apríl). Bad News Wrapped in Protein: Inside the Coronavirus Genome. The New York Times.(Sótt 28.04.2020).
  7. ^ Arnar Pálsson. (2020, 14. apríl). Vísindavefurinn: Eru til tvö eða fleiri afbrigði af kórónuveirunni sem veldur COVID-19? Vísindavefurinn. (Sótt 28.04.2020).
  8. ^ Sjá svar við spurningunni: Hvernig vinnur ónæmiskerfið? Er hægt að verða ónæmur fyrir kvefi?. (Sótt 28.04.2020).
  9. ^ Sjá: Trevor Bedford on Twitter: "A thread on #SARSCoV2 mutations and what they might mean for the #COVID19 vaccination and immunity, in which I predict it will take the virus a few years to mutate enough to significantly hinder a vaccine. 1/12". (Sótt 28.04.2020).
  10. ^ Nick Loman, „We could certainly have mutations that change the character of the virus,“ he added, „though we have not yet seen this happening“. Clive Cookson og Ian Bott. (2020, 21. apríl). Mutations map holds the key to bringing coronavirus under control. Financial Times. (Sótt 28.04.2020).

Heimild:

Myndir: