Rannsóknarverkefni
1) Dönskukennsla í íslenskum skólum
Fyrstu rannsóknir mínar beindust að dönskukennslu á Íslandi í sögu og samtíð. Meistaraprófsverkefnið fjallaði um kennsluhætti í íslenskum menntaskólum og eru niðurstöður þess að finna í bókinni Dansk som fremmedsprog i den islandske gymnasieskole.
Doktorsverkefnið fjallaði um dönskukennslu í grunnskólum. Í þríþættri megindlegri og eigindlegri rannsókn voru kennsluhættir dönskukennara í tíunda bekk grunnskóla kannaðir og skoðað hvaða áhrif kennsluaðferðir þeirra hafa á dönskukunnáttu nemenda, ekki síst tök þeirra á ólíkum færniþáttum, þ.e. að skilja talað og ritað mál og geta tjáð sig í ræðu og riti. Um rannsóknina er fjallað í bókinni Lærerens strategier - elevernes dansk.
2) Dönskukunnátta Íslendinga í framhaldsnámi í Danmörku
Markmiðið með rannsókninni var að fá innsýn í þörf íslenskra námsmanna fyrir dönskukunnáttu í framhaldsnámi í Danmörku og kanna hvernig þeim gengur að nota málið í námi sínu og í samskiptum við Dani. Rannsóknin var þríþætt. Annars vegar byggist hún á tveimur megindlegum spurningalistarannsóknum, sem voru lagðar fyrir námsmenn vorin 1999 og 2002, þegar þeir höfðu stundað nám ytra í eitt ár. Hins vegar fólst hún í viðtölum við afmarkaðan hóp námsmanna, sem tóku þátt í seinni spurningalistarannsókninni, þegar þeir höfðu stundað nám í Danmörku í tvo vetur. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar er að finna í ritinu Dansk som fremmedsprog i en akademisk kontekst.
3) Danska á Íslandi í sögu og samtíð
Á undanförnum árum hafa rannsóknir mínar snúist um stöðu og áhrif danskrar tungu og menningar á Íslandi í sögulegu ljósi. Þörf Íslendinga fyrir dönskukunnáttu hefur verið könnuð og skoðað hvernig viðhorf þeirra til málsins breyttust með vaxandi þjóðernisvitund. Greinar um þetta efni má finna í tímaritinu Skírni (frá 2016 og 2018), í tímaritinu Kult, og í Linguistik Online, en auk þess mun kafli um efnið birtast í nýrri danskri málsögu sem unnið er að hjá Det danske Sprog og Litteraturselskab.
4) Á mótum danskrar og íslenskrar menningar. Danir á Íslandi 1900-1970
Verkefnið var unnið á árunum 2007 til 2014. Fyrir verkefninu fóru auk mín þeir Guðmundur Jónssson prófessor í sagnfræði og Erik Skyum-Nielsen lektor í dönskum bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla. Tekin voru viðtöl við hátt í fjórða tug eldri Dana á Íslandi og þau skráð og greind. Verkefnið hlaut m.a. styrki frá RANNÍS, Rannsóknasjóði Háskóla Ísland, Danska vísindaráðuneytinu, Sjóði Kaj og Selmu Langvad og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Greinasafnið Gullfoss. Mødet mellem dansk og islandsk kultur, sem kom út hjá forlaginu Vandkunsten vorið 2015, hefur að geyma greinar um helstu niðurstöður rannsóknarinnar. Ritstjórar bókarinnar eru Auður Hauksdóttir, Erik Skyum-Nielsen og Guðmundur Jónsson.
5) Samanburður á föstum orðasamböndum í dönsku og íslensku
Rannsóknin felst í samanburði á ólíkum tegundum fastra orðatiltækja í dönsku og íslensku og hefur staðið yfir í mörg ár. Starfsmaður verkefnisins var um árabil Guðrún Haraldsdóttir, BA-í dönsku. Nokkrar greinar hafa birst um rannsóknina og niðurstöður hennar hafa einnig nýst við þróun máltækisins www.frasar.net, sem upphaflega var unnið í samvinnu við dr. Ola Knutsson, lektor og Robert Østling doktorsnema við Stokkhólmsháskóla ásamt Peter Juel Henrichsen, fyrrum dósent við Verslunarháskólann í Kaupmannahöfn. Verkefnið www.frasar.net hefur hlotið styrki frá fjölmörgum aðilum, m.a. frá Nordplus Sprog, Nordisk Kulturfond, danska menntamálaráðuneytinu, Augustinus Fonden og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
6) Nýsköpun í þágu dönskukennslu
Námsgagnið www.taleboblen.hi.is
Í samvinnu við norræna fræðimenn hef ég unnið að tveimur rannsóknar- og þróunarverkefnum, sem beinast að tileinkun Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga á dönsku máli. Annars vegar er um að ræða námsgagnið www.taleboblen.hi.is sem er ætlað að auðvelda nemendum tileinkun dansks talmáls, einkum framburð. Vinnu við verkefnið er nú lokið og er námsgagnið aðgengilegt öllum á netinu. Þáttakendur í stýrihóp verkefnisins voru þau Peter Juel Henrichsen, Jonhard Mikkelsen, Fróðskaparsetri Færeyja og Katti Frederiksen, forstöðumaður hjá Málráði Grænlands og Guðrún Haraldsdóttir verkefnisstjóri.
Tölvuleikurinn www.talerum.is
Annað verkefni í þágu dönskunáms, sem ég vinn að um þessar mundir, kallast www.talerum.is. Um er að ræða gagnvirkan töluvleik, þar sem framvinda leiksins ræðst af dönskunotkun nemenda. Samstarfsmenn við þróun leiksins hafa verið Peter Juel Henrichsen, f.v. dósent við Verslunarháskólann í Kaupmannahöfn, nú sérfræðingur hjá Dönsku málnefndinni, og Björn Þorvarðarson BS í tölvunarfræði.
Nýsköpunarverkefnin tvö hafa hlotið styrki frá Nordplus Sprog, Þróunarsjóði námsgagna og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
7) Tungumálatengsl og vistfræði tungumála á Vestur-Norðurlöndum
Tengsl færeysku, íslensku og norsku við dönsku á fyrri tíð
Um þessar mundir fer ég fyrir vestnorræni samanburðarrannsókn á tengslum færeysku, íslensku og norsku við dönsku á tímabilinu 1890-1920. Aðrir þátttakendur í verkefninu eru Gunnstein Akselberg, prófessor við Háskólann í Bergen, Zakaris Hansen, lektor við Fróðskaparsetur Færeyja og Guðrún Kvaran prófessor emerita við Háskóla Íslands. Verkefnið er styrkt af Nordplus Sprog og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
Vestnordisk Sprogbarometer
Ásamt Birnu Arnbjörnsdóttur prófessor fer ég fyrir rannsókn á tengslum færeysku, grænlensku og íslensku við dönsku og ensku í samtíma okkar. Verkefnið hefur hlotið myndarlegan styrk frá Nordplus Sprog.