Um mig
Ég er prófessor í dönsku við Hugvísindasvið Háskóla Íslands.
Á sínum tíma lagði ég stund á nám í dönsku og heimspeki við Háskóla Íslands. Að loknu BA-prófi hlaut ég styrk frá dönskum stjórnvöldum til að stunda framhaldsnám í dönsku. Ég lauk meistaraprófi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1987 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1998.
Störf mín hafa öðru fremur tengst danskri tungu og menningu. Ég hef kennt dönsku á öllum skólastigum, samið námsefni fyrir framhaldsskóla, stundað þýðingar milli íslensku og dönsku og verið leiðsögumaður fyrir danska og aðra norræna ferðamenn.
Rannsóknasvið mitt er danskt mál, einkum danska sem erlent mál, dönsk menning og tunga á Íslandi í sögu og samtíð og dönsk orðasambönd í samanburði við íslensku. Ég fer fyrir norrænu rannsóknarverkefni, sem beinist að því að kanna tengsl færeysku, íslensku og norsku við dönsku á tímabilinu 1890-1920. Ásamt Birnu Arnbjörnsdóttur vinn ég að rannsókn á tengslum færeysku, grænlensku og íslensku við dönsku og ensku í samtímanum.
Á árunum 2001-2018 var ég forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og formaður stjórnar Alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar á árunum 2014-2018.