Rektorskjör 2025

 

Háskóli sem horft er til

Háskóli Íslands hefur lengi verið eitt af mínum helstu hjartans málum. Hann er lykilstofnun í íslensku samfélagi og velferð hans er snar þáttur í velferð þjóðarinnar. Háskólinn er miðstöð þekkingaröflunar á Íslandi. Þar fá lærðir og leikir aðgang að þeim undraheimi þekkingarinnar sem skiptir sköpum, ekki síst um þessar mundir þegar mannkynið stendur frammi fyrir tröllauknum úrlausnarefnum. Háskólinn er líka gróðrarstöð frjálsrar, skapandi og gagnrýninnar hugsunar þar sem allt er til skoðunar og hugsjón sannleikans er höfð í heiðri.

Kjarnastarfsemi Háskólans á sér stað í akademíunni en forsenda hennar er hið ósérhlífna starf sem fram fer innan stjórnsýslu skólans. Ekki má heldur gleyma þeim vinnandi höndum sem sjá um þá grunnþjónustu og aðbúnað sem heldur hinni daglegu starfsemi gangandi. Hlúa þarf að velferð og starfsánægju allra þessara hópa.

Háskóli Íslands er háskóli sem horft er til. Hann á að vera í fararbroddi í öflun og útbreiðslu þekkingar á viðsjárverðum tímum. Hann á að vera til fyrirmyndar hvað varðar jafnrétti, fjölbreytileika og lýðræðisleg vinnubrögð. Hann á að vera fyrirtaks vinnustaður þar sem starfsfólk og nemendur vinna saman að mikilvægum markmiðum og gleði og traust ríkir.

Um mig

Ég hef gegnt starfi prófessors í heimspeki við Háskóla Íslands frá árinu 2016. Tveimur árum fyrr var ég ráðinn lektor í heimspeki. Frá 2004 til 2014 vann ég ýmis störf við Háskólann, var stundakennari og vann við rannsóknir sem sérfræðingur og nýdoktor, en starfaði einnig sem aðstoðarmaður á rektorsskrifstofu og hafði sem slíkur umsjón með því að koma Háskóla unga fólksins á fót auk annarra verkefna sem náðu til Háskólans alls.

Ég bý yfir víðtækri reynslu af kennslu, rannsóknum og stjórnun innan Háskóla Íslands. Ég hef verið farsæll í starfi, vinsæll kennari og fengsæll í rannsóknum. Mér hefur verið treyst fyrir margvíslegum trúnaðarstörfum þar sem reynir á dómgreind, vandvirkni og staðfestu. Ég er mannasættir og vil að fólki líði vel á vinnustaðnum en forðast ekki að taka erfiðar ákvarðanir þegar þörf krefur.

Meðal þeirra trúnaðarstarfa sem ég hef gegnt innan Háskólans eftir fastráðningu má nefna formennsku í kennslunefnd Hugvísindasviðs og setu í Kennslumálanefnd HÍ, formennsku í fagráði Hugvísindasviðs hjá Rannsóknasjóði HÍ (Doktorsnámssjóði/Eimskipafélagssjóði) og setu í stjórn þess sjóðs, setu í Vísindaráði Háskólans, setu í Jafnréttisnefnd Hugvísindasviðs, setu í úttektarnefnd um vinnumatskerfið sem skipuð var að frumkvæði rektors 2015 og setu á Háskólaþingi sem fulltrúi Hugvísindasviðs auk starfa sem formaður námsbrautar í heimspeki og forstöðumaður Heimspekistofnunar.

Ég hef átt því láni að fagna að taka þátt í og stýra nokkrum stórum rannsóknarverkefnum sem hlotið hafa öndvegisstyrk frá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) og veglega styrki frá Evrópusambandinu (Horizon 2020) og Evrópska rannsóknarráðinu (ERC). Ég nýt mín vel í þverfaglegum rannsóknum og hef starfað með vísindafólki af flestum sviðum Háskólans.

Ég er höfundur fræðibóka á íslensku og frönsku og hef birt greinar í tugatali í heimspekitímaritum og greinasöfnum, alþjóðlegum og innlendum, á íslensku, ensku og fleiri málum. Þar að auki hef ég ritstýrt fjölda bóka og tímaritshefta. Ég hef þýtt fjölmargar bækur og greinar yfir á íslensku úr dönsku, ensku, frönsku og þýsku. Heildarfjöldi verka á ritaskrá minni er kominn vel á þriðja hundraðið. Ég legg í rannsóknum mínum mikla áherslu á íslenska tungu og tel það eitt meginhlutverk Háskóla Íslands að halda úti fræðaiðkun á íslensku.

Um fræðastörf mín og afurðir þeirra vísast að öðru leyti á ritaskrá mína og ferilskrá hér á vefsíðu minni.

Nokkrir stefnu- og áherslupunktar

Meginreglur háskólastarfsins

  • Akademískt frelsi er lífæð háskólans – annað og meira en innantómt slagorð.
  • Jafningjaræði er lykilatriði – dreifð ákvarðanataka og ábyrgð, lýðræðisleg vinnubrögð.
  • Kjarnastarfsemin er akademían – kennsla og rannsóknir – en allir þættir háskólastarfsins eru mikilvægir og vinna að sameiginlegu markmiði.
  • Háskólar sem þekkingarsetur leika lykilhlutverk í baráttunni fyrir betri heimi og blómlegri framtíð mannlegs samfélags.

Háskólasamfélagið og starfsmannamál

  • Starfsmannastefna þarf að vera heildræn og sanngjörn þannig að starfsandi sé með besta móti. Við erum öll í sama liði.
  • Skilgreina þarf og skýra, í samvinnu við stéttarfélög, skyldur HÍ sem vinnuveitanda hvað varðar aðbúnað starfsfólks.
  • Einkaskrifstofur verði í boði fyrir allt akademískt starfsfólk sem þarf á því að halda en könnuð verði sú leið að segja megi sig frá einkaskrifstofu gegn mánaðarlegri greiðslu svipað því sem tíðkast með fæðisfé.
  • Stuðla þarf að því að starfsfólk taki virkan þátt í háskólasamfélaginu og að þar ríki lifandi vinnustaðamenning.
  • Mikilvægt er að nemendur séu virkir þátttakendur í háskólasamfélaginu og heimavanir á háskólasvæðinu.
  • Stefnt skal að því að afnema útvistun á almennum þrifum í húsnæði HÍ. Þrif verði að nýju eðlilegur hluti af starfseminni og starfsfólk sem sér um þrifin hluti af samfélaginu.
  • Gæta þarf að „stofnanaminni“ innan HÍ og miðlun þess, t.d. hvað varðar ráðningarferli.
  • Bæta þarf móttöku starfsfólks til muna, bæði fastráðins og lausráðins, og styrkja verkferla m.t.t. verkaskiptingar, ábyrgðar o.s.frv.
  • Fjármögnun HÍ og dreifing fjár til sviða og deilda verði skýrð fyrir nýju starfsfólki (og því starfsfólki sem fyrir er).
  • Skýra þarf stöðu starfsfólks frá löndum utan Schengen-samstarfsins og bæta verkferla í kringum ráðningu þess.
  • Skýra þarf stöðu doktorsnema innan háskólasamfélagsins, hvenær þeir teljast til starfsfólks og hvenær ekki, t.d. hvað varðar setu í stjórn stofnana og önnur störf sem tilheyra starfslýsingu fastráðins akademísks starfsfólks.

Faglegt sjálfstæði Háskólans

  • Gera þarf stjórnvöldum ljóst að þýðing HÍ fyrir samfélagið hvílir á faglegu sjálfstæði hans. Tími er kominn til að tryggja fjármögnun skólans til langs tíma og í skjóli fyrir hugdettum stjórnmálafólks.
  • Tryggja þarf að hagsmunir HÍ séu ætíð í fyrirrúmi hvað varðar húsnæði á háskólasvæðinu.
  • Tryggja þarf hagsmuni HÍ og háskólafólks hvað varðar umsýslu með rafræn gögn, vistun þeirra, eignarhald og notkun.

Kennslumál

  • Útfæra þarf möguleikann á að ráða fólk í akademískar stöður með megináherslu á kennslu (eins og nefnt er í stefnuplagginu HÍ26).
  • Hafa þarf vakandi auga fyrir samstarfi hvað varðar námsframboð og ná fram samlegðaráhrifum.
  • Finna þarf lausn á því eilífðarmáli að draga úr vægi deildarmúranna/sviðsmúranna margfrægu; nýtilkomið örnám getur komið sér vel þar.
  • Hugsa þarf ofan í kjölinn hvaða breytingar gervigreind hefur í för með sér m.t.t. hlutverks menntunar almennt og æðri menntunar sérstaklega.
  • Gæta þarf þess að fjarnám sé vandað og taka á spurningunni um tilfallandi upptökur í kennslustundum.
  • Gæta þarf þess að fjarnám komi ekki niður á velsæld háskólasamfélagsins.

Kjaramál

  • Gæta þarf að kjaramálum doktorsnema, m.a. með því að skýra og staðla ráðningarsamband doktorsnema á styrk við HÍ.
  • Stytting vinnuvikunnar verði innleidd í akademíunni sem hluti af starfsumhverfi og vinnustaðarmenningu.
  • Unnið verði gegn kulnun og örmögnun með fræðslu um vörn gegn áreiti og aðferðir til að vera ekki „alltaf í vinnunni“, t.d. hvað varðar samskipti við nemendur.