Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825–1832

„Ég er þinn elskari“, skrifar Baldvin Einarsson (1801–1833) undir bréf til Kristrúnar Jónsdóttur (1806–1881) unnustu sinnar meðan hann bíður skips á Skagaströnd síðsumars 1828. Hann hafði komið heim frá Kaupmannahöfn þá um sumarið til að hitta hana og biðjast fyrirgefningar á svikum sínum. Baldvin og Kristrún voru trúlofuð þegar hann fór utan til náms í Kaupmannahöfn sumarið 1826. Þar sveik hann hana í tryggðum og við tók flókið bréfasamband ástar, fyrirgefningar og blekkingar. Baldvin var að margra mati ein helsta vonarstjarna Íslands um 1830 en hann dó langt fyrir aldur fram árið 1833, eftir að hafa skaðbrennst í eldi. Þá var hann giftur danskri konu og hafði átt með henni þrjú börn.

Bréf Baldvins til Kristrúnar ná yfir sjö ár. Þau eru flæði orða og tilfinninga, fegurðar og svika. Þau eru galsafengin og alvarleg, opinská og upphafin. En þetta er aðeins önnur hlið bréfasambandsins því bréfin sem Kristrún skrifaði honum hafa ekki varðveist. Hvað er þá hægt að segja um hug hennar og hjarta? Ástarsaga Kristrúnar og Baldvins vekur upp spurningar um þögn og hvernig hægt sé að fylla upp í eyðurnar í sagnfræðilegri frásögn heldur einnig um túlkun og framsetningu heimilda, um völd og valdahlutföll kvenna og karla, um virði heimilda og það hvernig goðsagnir um fólk og atburði fortíðar verða til.

Bókin Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825–1832 fjalla um þessa sögu. Í fyrri hluta hennar skrifa ég inngangskafla, „Ástarharmsaga“ þar sem rætt er um ástir Kristrúnar og Baldvins og saga þeirra og bréf sett í samhengi við rannsóknir á ást og sendibréfum fyrri tíma. Í síðari hluta bókarinnar eru birt bréf Baldvins til Kristrúnar 1825–1832, ásamt viðauka með þremur bréfum sem hann skrifaði föður hennar, séra Jóni Jónssyni á Grenjaðarstað, 1827 og 1829. Bréfin eru birt orðrétt en færð til nútímastafsetningar og því auðlesin öllu nútíðarfólki. Háskólaútgáfan gaf bókina út árið 2023.