Um mig

IMG_0870Ég starfa sem dósent í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Sérsvið mitt er kvenna- og kynjasaga.

Störf mín og rannsóknir síðustu rúma tvo áratugi hafa að mestu leyti snúist um sögu kvenna og kyngervis. Til að mynda var ég forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands í fimm ár og starfaði hjá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum í fjögur ár.

Ég lauk doktorsprófi í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 2011. Doktorsritgerðin mín, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903, kom út árið 2011.

Niðurstöður rannsókna minna hafa birst í greinum og bókarköflum á Íslandi og erlendis, sjá nánar í lista yfir útgefið efni. Nokkrar greinar og kafla má lesa á academia.edu. Auk fræðilegs efnis hef ég birt fáeinar lausbeislaðar greinar um sögulegt efni, svo sem á vefnum Sögublogg.

Yfirstandandi rannsóknarverkefni mín eru annars vegar Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915-2015, sem ég vinn að ásamt dr. Ragnheiði Kristjánsdóttur og dr. Þorgerði Þorvaldsdóttur. Rannsóknin er styrkt af Rannís.

Hins vegar vinn ég að því ljúka bókinni Bréf til bróður míns, sem er rannsókn á ævi og bréfaskrifum Sigríðar Pálsdóttur (1809–1871). Bókin er afrakstur rannsóknarverkefnis, nýdoktorsrannsóknar minnar, sem styrkt var af Rannís 2013-2015. Þar koma saman helstu áhugasvið mín og rannsóknaráherslur síðustu ára, þ.e. kynjasögulegt sjónarhorn, notkun persónulegra heimilda, (sagn)fræðilegar ævisögur, verðugleiki sögulegra viðfangsefna, einkum út frá sjónarhorni kyngervis, og kynjun þjóðarsagna.

Kveikja og kjarni rannsóknarinnar eru 250 sendibréf sem Sigríður skrifaði bróður sínum, Páli Pálssyni stúdent og skrifara á Stapa um ævina. Bréfin, sem varðveitt eru í viðamiklu bréfasafni Páls á Handritasafni Landsbókasafns, spanna samtals rúmlega hálfa öld, hið fyrsta skrifað í hennar nafni í desember árið 1817 þegar Sigríður var átta ára gömul en hið síðasta fáeinum vikum áður en hún lést 1871.

Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt. Annars vegar rannsókn á heimi bréfaskipta, sjálfsmyndarsköpun í sendibréfum og mikilvægi þeirra í samskiptum og tengslaneti fjölskyldna á fyrri hluta 19. aldar. Hins vegar að skrifa ævisögu Sigríðar Pálsdóttur sem grundvölluð er á kenningum og aðferðum ævisögulegra rannsókna og sagnfræði. Sjónarhorn kyngervis er leiðarstef í báðum rannsóknarhlutum.

Þegar hafa birst nokkrar greinar um rannsóknina á innlendum og erlendum vettvangi, sbr. úttefið efni. Rannsóknin var sem áður segir styrkt af Rannís, með svokölluðum utanfararstyrk (Start-program outgoing styrkur), sem gerði ráð fyrir átján mánaða dvöl við erlenda gestastofnun. Ég dvaldi því sem gestafræðimaður við Edinborgarháskóla frá því í mars 2013 og fram í ágúst 2014 þar sem ég vann að rannsóknum mínum og naut góðs af samtali og samvinnu við fræðimenn ytra. Síðustu þrjá mánuðina í Edinborg var ég Visiting Research Fellow hjá IASH, Institute for Advanced Studies in the Humanities, við Edinborgarháskóla (http://www.iash.ed.ac.uk), 1. maí – 25. júlí 2014. Enginn fjárhagslegur styrkur fylgir Visiting Research Fellow stöðu hjá IASH, en aðstaða og viðurkenning.

Árið 2014–2015 dvaldi ég í þrjá mánuði við tungumáladeild Umeå Universitet í Svíþjóð fyrir dvalarstyrk frá sænsku Akademíunni. Þar vann ég að rannsóknum á sögulegu læsi (skriftarkunnáttu og hagnýtingu hennar), en bréf Sigríðar Pálsdóttur og fjölskyldu hennar eru afar áhugaverð fyrir slíkar rannsóknir, ekki síst af því Sigríður og systkini hennar skrifuðu bróður sínum bréf frá því þau voru börn og til dauðadags. Þannig er hægt að skoða læsisiðkun (e. literacy practices) og hagnýtingu skriftar, og hvernig hún breytist, í meira en hálfa öld.

Frá 1. janúar 2015 til 30. júní 2016 starfaði ég sem sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands auk þess að sinna kennslu í kvenna- og kynjasögu við námsbraut í sagnfræði.

Ég hef tekið þátt í innlendum rannsóknarverkefnum og evrópskum netverkum á sviði sagnfræði og kynjafræða.

Tilvitnunin hér að ofan er komin frá skáldkonunni Virginiu Woolf sem skrifaði sígild verk um sögu kvenna og ævisöguritun.