Konur sem kjósa

Konur sem kjósa. Aldarsaga, kom út hjá Sögufélagi 24. október 2020. Höfundar eru Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir.

Snæfríð Þorsteins hannaði og braut bókina um.

Bókin fjallar um íslenska kvenkjósendur í eina öld. Titillinn vísar til kosningaréttarins en einnig til þess hvernig konur sköpuðu sér rými til að móta eigið líf og samfélagið allt. Sjónum er beint að einu kosningaári á hverjum áratug og þannig teknar ellefu sneiðmyndir af sögu kvenna undanfarin hundrað ár. Fjallað er um kvennablöð og kvennaframboð, kvennafrí og kvennaverkföll, um baráttu kvenna fyrir hlutdeild í stjórn landsins og frelsi til að ráða menntun sinni og atvinnu, barneignum og ástarsamböndum. Við sögu koma konur úr öllum stéttum, ungar og gamlar, úr sveit og bæ, húsfreyjur sem börðust fyrir rafmagni, vatnsveitu og heilnæmri mjólk og konur sem brutu blað þegar þær urðu læknar, bílstjórar, veðurfræðingar, snyrtivöruframleiðendur og rafvirkjar. Áður ósagðar sögur kvenna njóta sín í lifandi texta og bókina prýðir fjöldi mynda af konum í leik og starfi í hundrað ár.

Konur sem kjósa er stórvirki sem byggir á áralöngum rannsóknum og samvinnu fjögurra fræðimanna á sviði kvenna- og kynjasögu, stjórnmála- og menningarsögu. Það eru konur sem eiga orðið í þessari bók.

Konur sem kjósa fékk Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, árið 2021, í flokki fræðibóka. Einnig Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki fræðibóka og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka.

Á rafrænu Kynjaþingi 10. nóvember 2020 ræddi Rakel Adolphsdóttir forstöðukona Kvennasögusafns Íslands við höfunda um gerð og efni bókarinnar. Samtalið má  sjá hér.

Hér að neðan eru tvær opnur úr bókinni, myndasíða úr 1. kafla (1916) og rammagrein úr 2. kafla (1926).