Nútímans konur

Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á  Íslandi 1850-1903

Rannsóknin beinist að mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903. Skoðaðar eru hugmyndir um samfélagslegt hlutverk kvenna; hverjar þær voru við  upphaf tímabilsins, hvernig þær breyttust og mótuðust í umræðu og  átökum hugmyndafræði og veruleika, og hvernig þeim var hrint í  framkvæmd.

Um 1870 hófst allsnörp umræða í landsblöðunum um stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Framan af hverfðist umræðan um menntun kvenna, einkum hvaða menntun hæfði hinu „kvenlega eðli“ en í raun snérist hún um samfélagslegt hlutverk kvenna. Í verkefninu er því lögð áhersla á að rannsaka áhrif menntunar á mótun kyngervis, einkum þýðingu kvennaskólanna í því að brjóta upp ríkjandi hugmyndir um samfélagslegt hlutverk en einnig hvernig menntun og hugmyndafræði skólanna styrkti hefðbundin kynhlutverk. Jafnframt er sjónum beint að viðbrögðum kvenna sjálfra við umræðu og hugmyndafræði; samsömun þeirra eða andófi við ríkjandi orðræðu um hefðbundin hlutverk kvenna. Gegn hinni opinberu umræðu er því teflt sendibréfum og sjálfsævisögulegum skrifum kvenna til þess að kanna hvernig konur upplifðu þá hugmyndafræði sem haldið var að þeim.

Meginspurningar rannsóknarinnar eru tvær: 1) Hvaða áhrif hafði umræðan um menntun kvenna, og kvennaskólarnir sjálfir, á hugmyndir um kyngervi og hlutverk kvenna í nútímavæddu samfélagi? 2) Hvernig brugðust konur við þessari umræðu og hvaða áhrif höfðu þær á hana?