Category: Í hnotskurn

Stutt kynning

Erla Hulda Halldórsdóttir, 2. júní 2025

©Kristinn Ingvarsson

Ég er prófessor í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, með kvenna- og kynjasögu sem sérsvið. Einnig hef ég unnið að rannsóknum á sviði læsis þá einkum í tengslum við skriftarkunnáttu, hagnýtingu hennar og sendibréf frá nítjándu öld. Þá hef ég skrifað um sagnaritun kvenna og rannsakað fræðilegar ævisögur. Við námsbraut í sagnfræði kenni ég bæði valnámskeið sem tengjast sérsviði mínu en einnig skyldunámskeið á borð við sagnfræðileg vinnubrögð og heimssögu nítjándu aldar. Sjá vef HÍ.

Áður en ég var ráðin til HÍ árið 2016 hafði ég um árabil unnið hjá söfnum og stofnunum á borð við Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu, Kvennasögusafn Íslands og RIKK (Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við HÍ). Jafnframt hafði ég unnið sem sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Doktorsprófi lauk ég við HÍ árið 2011.