Bréf til bróður míns
Bréf til bróður míns: Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871
Markmið rannsóknarinnar er að skrifa ævisögu Sigríðar Pálsdóttur (1809–1871) og byggja hana á þeim 250 sendibréfum sem hún skrifaði Páli Pálssyni bróður sínum 1817–1871. Bréf Sigríðar spanna heila ævi og gefa ómetanlega innsýn í líf konu á fyrri hluta 19. aldar.
Árið 1829 fór Sigríður í vist til biskupshjónanna í Laugarnesi, áðurnefnds Steingríms og Valgerðar, þar sem hún kynntist ástinni í lífi sínu, Þorsteini Helgasyni. Hann var þá trúlofaður frændkonu sinni, Sigríði Hannesdóttur, dóttur biskupsfrúarinnar af fyrra hjónabandi. Elskendurnir áttust þó að lokum og urðu prestshjón í Reykholti í Borgarfirði. Þorstein missti Sigríður árið 1839 frá þremur ungum dætrum. Árið 1845 tók Sigríður óvæntu bónorði ekkjumannsins séra Sigurðar Thorarensen í Hraungerði í Hraungerðishreppi. Hann var tveimur áratugum eldri en hún og átti uppkomna syni. Sigríður lést á heimili dóttur sinnar á Breiðabólstað í Fljótshlíð 25. mars 1871.
Sigríður Pálsdóttir var sýslumannsdóttir, fædd á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu árið 1809, næstelst fimm systkina. Tveimur árum eftir að faðir hennar lést árið 1815 var elsti bróðir hennar, Páll, sendur til fjölskylduvinarins Steingríms Jónssonar prófasts og eiginkonu hans Valgerðar Jónsdóttur biskupsekkju suður til Odda á Rangárvöllum til fósturs og menntunar. Brotthvarf hans markaði upphaf viðamikilla bréfaskrifa fjölskyldunnar þar sem Sigríður, þá átta ára gömul, Þórunn systir hennar, amma hennar Sigríður Ørum og móðirin Malene Jensdóttir (ásamt öðrum ættingum) skrifuðu Páli bréf um það sem fyrir bar heima á Héraði. Sigríður skrifaði Páli meðan henni entist líf.
Bréf Sigríðar eru persónuleg og vel skrifuð. Hún skrifar um ástina og dauðann, m.a. harmrænan dauðdaga fyrri eiginmannsins og missi tveggja barna. Hún ræðir einnig um það sem gerist í kringum hana, bæði hjá mannfólki og í náttúrunni. Hekla gýs með tilheyrandi látum, fréttir eru sagðar af konum í barnsnauð og hún hefur áhyggjur af velferð afkomenda sinna. Þannig verða bréfin ekki aðeins spegill á hennar eigið líf heldur einnig þann tíma sem hún lifði.
Í stuttu máli þá endurspegla bréf Sigríðar viljasterka konu sem þráði framfarir og hreyfanleika sem ung stúlka og kona, en var afar meðvituð um þær takmarkanir sem kynferði hennar setti henni án þess þó að hún færði það í þau orð sem kvenfrelsiskonur gerðu fáeinum áratugum síðar. Hún sótti styrk til Páls bróður síns, skrifaði honum um hvaðeina sem á dagana dreif og sótti til hans ráð þegar á móti blés.
Rannsóknin á sér tvær hliðar. Annars vegar er það ævisagan sjálf, skrifuð fyrir íslenskan lesendahóp, en hins vegar hið fræðilega samhengi sem liggur til grundvallar rannsókninni, túlkun og framsetningu. Þar verður einkum skoðað hvernig sjálfsskilningur og sjálfsmynd verður til og er sköpuð með sendibréfum og hvernig til verður það sem kalla má „sjálfsmynd í bréfi“. Jafnframt byggi ég fræðilegt sjónarhorn mitt á nýlegum skrifum evrópskra kvenna- og kynjasögufræðinga um samhengi og misræmi milli hinna staðbundnu þjóðarsagna og stórsögu evrópskrar kvenna- og kynjasögu þar sem sífellt meiri áhersla er lögð á að flétta saman mismunandi sjónarhornum og röddum úr fortíðinni í stað þess að búa til „saumlausa“ sögu. Í alþjóðlegu rannsóknarsamhengi tefli ég því Sigríði Pálsdóttur fram sem rödd af jaðrinum sem þó vísar út fyrir sitt eigið þjóðlega samhengi.
Rannsóknin var styrkt af Rannís, með svokölluðum utanfararstyrk (Start-program outgoing styrkur), sem gerði ráð fyrir átján mánaða dvöl við erlenda gestastofnun. Ég dvaldi því sem gestafræðimaður við Edinborgarháskóla frá því í mars 2013 og fram í ágúst 2014 þar sem ég vann að rannsóknum mínum og naut góðs af samtali og samvinnu við fræðimenn ytra. Síðustu þrjá mánuðina í Edinborg var ég Visiting Research Fellow hjá IASH, Institute for Advanced Studies in the Humanities, við Edinborgarháskóla (http://www.iash.ed.ac.uk), 1. maí – 25. júlí 2014. Enginn fjárhagslegur styrkur fylgir Visiting Research Fellow stöðu hjá IASH, en aðstaða og viðurkenning.
Árið 2014–2015 dvaldi ég í þrjá mánuði við tungumáladeild Umeå Universitet í Svíþjóð fyrir dvalarstyrk frá sænsku Akademíunni. Þar vann ég að rannsóknum á sögulegu læsi (skriftarkunnáttu og hagnýtingu hennar), en bréf Sigríðar Pálsdóttur og fjölskyldu hennar eru afar áhugaverð fyrir slíkar rannsóknir, ekki síst af því Sigríður og systkini hennar skrifuðu bróður sínum bréf frá því þau voru börn og til dauðadags. Þannig er hægt að skoða læsisiðkun (e. literacy practices) og hagnýtingu skriftar, og hvernig hún breytist, í meira en hálfa öld.
Ég hef skrifað nokkuð um Sigríði á innlendum og erlendum vettvangi og flutt fyrirlestra um þessa rannsókn. Af því efni sem birst hefur á íslensku bendi ég sérstaklega á grein í vorhefti Skírnis (187) árið 2013 þar sem ég fjalla um Sigríði, ævisögur og kyngervi ævisagna. Einnig grein í hausthefti tímaritsins Sögu árið 2013 (LI:2, 2013) þar sem ég ræði um sendibréf Sigríðar, ömmu hennar, móður og systur á tímabilinu 1817–1829 og loks grein í Sögu árið 2015 (LIII:1, bls. 121–139) þar sem rætt er um ýmsar áskoranir sem fylgja því að rannsaka ævi einstaklings.
Listi yfir birtar greinar þar sem Sigríður og þessi rannsókn kemur við sögu á einn eða annan hátt er hér:
2020. „The unforeseeable narrative. Epistolary lives in nineteenth-century Iceland“, í The Palgrave Handbook of Auto/Biography, aðalritstj. Julie Parsons (Palgrave Macmillan, 2020).
2018. „Beyond the Centre: women in nineteenth- century Iceland and the grand narratives of European women’s and gender history“, Women's History Review 27:2 (2018), bls. 54–175, DOI: 10.1080/09612025.2017.1303888, rafræn birting 3. apríl 2017.
2017. „Andvarp syrgjandi ekkju“. Dauðinn, sorgin og trúin í bréfum Sigríðar Pálsdóttur“, Áhrif Lúthers. Siðaskipti, samfélag og menning í 500 ár. Ritstj. Hjalti Hugason, Loftur Guttormsson og Margrét Eggertsdóttir (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 2017), pp. 367–393.
2016. „A Biography of Her Own. The Historical Narrative and Sigríður Pálsdóttir”, Biography, gender and history: Nordic Perspectives. Cultural History – Kulttuurihistoria 14. Ritstjórar Erla Hulda Halldórsdóttir, Maarit Leskilä-Kärki, Tiina Kinnunen og Birgitte Possing (Turku: k&h, Turku University, 2016), bls. 81–100.
2015. „Ferð til fortíðar & sagnfræðingurinn í verki sínu”, Saga LIII:1 (2015), bls. 121–139.
2015. „‘Do Not Let Anyone See This Ugly Scrawling’: Literacy Practices and the Women's Household at Hallfreðarstaðir 1817–1829“, Life Writing 12:3 (2015), bls. 289–308. DOI: 10.1080/14484528.2015.1004352
2014. “Elämä kirjeissä. Miten representoida jo representoitua elämää”, Historiallinen elämä. Biografia ja historiantutkimus. Ritstj. Heini Hakosalo, Seija Jalagin, Marianne Junila og Heidi Kurvinen (Finnish Literature Society, 2014).
2014. „„Don’t you forget your always loving sister“. Writing as a social and cultural capital“, Vernacular Literacies – Past, Present and Future. Ritstj. Ann-Catrine Edlund, Lars-Erik Edlund og Susanne Haugen. Northern Sudies Monographs 3. Vardagligt skriftbruk 3. Umeå: Umeå University og Royal Skyttean Society: 2014, bls. 181–192.
2013. „Kvennabréfin á Hallfreðarstöðum. Hagnýting skriftarkunnáttu 1817–1829“, Saga LI:2 (2013), bls. 57–91.
2013 „Táknmynd eða einstaklingur? Kynjað sjónarhorn sögunnar og ævi Sigríðar Pálsdóttur“, Skírnir 187 (vor) 2013, bls. 80–115.
2013. „gleimdu ecki þinni einlægt Elskandi Sistir“. Skriftarkunnátta sem félagslegt og menningarlegt auðmagn“. Söguþing 2012. Ráðstefnurit. Sagnfræðistofnun, Reykjavík, 2013. Vefútgáfa, http://hdl.handle.net/1946/15589