Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð?
Margar af spurningunum sem ég hef svarað fyrir Vísindavefinn hafa snúist um sögu fornaldar, klassískar bókmenntir eða gríska og rómverska goðafræði. Segja má að alla vega ein spurning hafi snúist um allt þetta samtímis. Það var spurning um ástæður Trójustríðsins. Trójustríðið er auðvitað atburður úr goðafræði Grikkja en um leið er það sögusvið margra helstu bókmenntaverka þeirra og stundum óljós mörkin þar á milli. En ekki nóg með það, heldur var borgin Trója líka til í raun og veru og allt bendir til þess að Grikkir hafi setið um hana. Þessari spurningu er því ekki hægt að svara á neinn einfaldan hátt. Hún varðar í senn goðsagnir og bókmenntir, fornleifafræði og sagnfræði. Ef það væri hægt að bæta við textafræðilegu vandamáli, þá væri þetta ekta fornfræði.