Hvernig á maður að svara spurningum?

Geir Þórarinsson, 28/08/2011

Stundum hef ég fengið nokkuð skrítnar spurningar frá Vísindavefnum. Vefnum hafa auðvitað borist alls kyns skemmtilegar spurningar, eins og „Hver er sinnar gæfu smiður?“ og „Hver er sjálfum sér næstur?“ Aðrar eru ef til vill efni í heimspekilegar pælingar, eins og  „Hvenær er núna?“, þótt óvíst sé hvort spyrjanda sé alvara. Þegar mér barst spurningin „Hvernig á maður að svara spurningum?“ skrifaði ég ef til vill allt of langt mál. Það hefði sennilega nægt að svara í einu orði: „Svona!“

Hvernig á maður að svara spurningum?

Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð?

Geir Þórarinsson, 28/08/2011

Margar af spurningunum sem ég hef svarað fyrir Vísindavefinn hafa snúist um sögu fornaldar, klassískar bókmenntir eða gríska og rómverska goðafræði. Segja má að alla vega ein spurning hafi snúist um allt þetta samtímis. Það var spurning um ástæður Trójustríðsins. Trójustríðið er auðvitað atburður úr goðafræði Grikkja en um leið er það sögusvið margra helstu bókmenntaverka þeirra og stundum óljós mörkin þar á milli. En ekki nóg með það, heldur var borgin Trója líka til í raun og veru og allt bendir til þess að Grikkir hafi setið um hana. Þessari spurningu er því ekki hægt að svara á neinn einfaldan hátt. Hún varðar í senn goðsagnir og bókmenntir, fornleifafræði og sagnfræði. Ef það væri hægt að bæta við textafræðilegu vandamáli, þá væri þetta ekta fornfræði.

Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð?

Voru stóumenn skeytingarlausir um allt nema dygðina?

Geir Þórarinsson, 28/08/2011

Margar af spurningunum sem ég hef fengið frá Vísindavefnum hafa snúist um fornaldarheimspeki, sem á að heita mitt sérsvið og er sniðmengi af mínum greinum, fornfræði og heimspeki. Eftir að hafa minnst á stóumenn víða í svörum mínum barst t.d. einn daginn spurning um stóuspeki. Stóumenn kenndu að ekkert væri gott nema dygðin og ekkert væri illt nema löstur. En voru þeir þá skeytingarlausir um allt annað? Svarið við þeirri spurningu er nei, eins og lesa má á Vísindavefnum.

Voru stóumenn skeytingarlausir um allt nema dygðina?

Sleipurök

Geir Þórarinsson, 28/08/2011

Ég hef um árabil skrifað um heimspeki og fornfræði fyrir Vísindavefinn. Fyrsta svarið sem ég samdi fyrir þann ágæta vef birtist haustið 2005 og fjallaði um fótfesturök en það eru rök sem ganga út á að vara einhvern við því að fallast á tiltekið atriði því þá þurfi sá hinn sami einnig að fallast á eitthvað annað og svo enn annað og þannig áfram. Segja má að með þessu missi maður fótfestuna og hrapi stjórnlaust. Oftast er því líka haldið fram að endaskrefinu fylgi afar óæskilegar afleiðingar og þess vegna sé varasamt eða jafnvel stórhættulegt að fallast á upphaflega skrefið. Ef til vill er kaldhæðnislegt að þetta hafi verið fyrsta svarið mitt á Vísindavefnum af því að í kjölfarið var ég beðinn um að semja annað svar og svo annað og þannig koll af kolli. Í dag hef ég samið á annað hundrað svör fyrir Vísindavefinn.

Hvað eru sleipurök?