Doktorsritgerð

Ég lauk doktorprófi í íslenskri málfræði 26. nóvember 2013. Leiðbeinandi minn var Kristján Árnason.

Hljóðkerfi og bragkerfi - Stoðhljóð, tónkvæði og önnur úrlausnarefni í íslenskri bragsögu ásamt útgáfu á Rímum af Ormari Fraðmarssyni

Í íslenskum kveðskap að fornu og nýju eru dæmi um að mismunandi hljóð standi saman í rími eða stuðlun. Til forna stuðlaði j við sérhljóð og a og ö stóðu saman í aðalhendingum. Enn í dag stuðla saman orð sem rituð eru með h í framstöðu þótt ólík séu í framburði (t.d. hjólhöfuðhvalur). Fleiri dæmi má finna.

Sú kenning sem ég ver í doktorsritgerð minni er að öll einkennileg fyrirbæri af þessu tagi séu best skýrð með kveðskaparhefðum, hljóðfræðilegum líkindum og stuðningi af stafsetningu. Gjarnan er þá um mjög langlífar hefðarreglur að ræða og má segja að kveðskapurinn miðist að sumu leyti enn við norrænt mál eins og það var nokkrum öldum fyrir landnám Íslands.

Rökum er teflt gegn þeirri hugmynd að baklægar gerðir generatífrar hljóðkerfisfræði séu haldbærar til skýringar á kveðskap. Hugmyndir formgerðarsinna um að líkindi hljóða ráðist einkum af dreifingu þeirra og stöðu í hljóðkerfinu eru einnig teknar til gagnrýninnar skoðunar.

Það sögulega vandamál sem mest rými fær í ritgerðinni er hvernig skáld á síðmiðöldum hafi haldið aðgreindum orðum með fornum og nýjum ur-endingum. Íslenska hafði frá upphafi ur-endingar m.a. í orðmyndum eins og tungur en um 1300 fengu orðmyndir eins og ungr innskots-u og til urðu nýjar ur-endingar. Ég rökstyð að íslenska hafi að fornu verið tónamál eins og norska og að mismunandi tónkvæði hafi skipt máli fyrir skáldin. Orðmyndir eins og tungur og ungur hafa þá haft mismunandi tónfall og ekki rímað fullkomlega saman.