Tvær rannsóknir voru gerðar á árunum 2017–2023 til að kanna hvernig nýbrautskráðum kennurum vegnaði í starfi og hvort og hvers konar áhrif kyn hefði. Sú fyrri var gerð með viðtölum við nýja kennslukarla og hin síðari með viðtölum við kvenkyns nýliða.
- Báðar byggðar á raðviðtölum sem stóðu í tvö ár við hvern viðmælanda. Samtals var rætt við átta karla og ellefu konur í rannsóknunum.
- Gögnum var safnað á árunum 2017–2020 í karlarannsókninni og 2021–2023 í kvennarannsókninni.
- Ingólfur Ásgeir Jóhannesson stýrði rannsóknunum í samstarfi við fjóra aðra rannsakendur, það er einn lektor á Menntavísindasviði og þrjá grunnskólakennara. Tveir grunnskólakennaranna voru meistaranemar þegar þeir hófu þátttöku í rannsóknarverkefnunum og skrifuðu meistaraprófsritgerð með hliðsjón af hluta gagnanna.
- Skrifaðar hafa verið fimm fræðigreinar og unnið er að minnsta kosti einni grein til viðbótar.
- Ekki var um skipulagðan samanburð á hópunum tveimur að ræða. Þeir voru ólíkir – ekki bara kynið – heldur líka þannig að flestir karlarnir kenndu í 8.–10. bekk og flestar konurnar á yngsta stigi og miðstigi. Samanburður sem væri hægt að gera yrði því stundum samanburður á kennslu á ólíkum aldursstigum. Þá voru flestir viðmælendur í kvennarannsókninni komnir með eins til þriggja ára starfsreynslu eftir að kennaraprófi lauk, og setti það svip á niðurstöðurnar, en karlarnir nýliðar þótt sumir þeirra hefðu kennt annars staðar með náminu.
Rannsóknirnar gefa vísbendingar um eftirfarandi:
- Formleg leiðsögn var í meiri hluta tilvika takmörkuð, stundum tæpast til staðar og í öðrum tilvikum hittust nýliði og leiðsagnarkennari ekki skipulega. Í þriðjungi tilvika virtist hafa fyrir um fyrirmyndarfyrirkomulag að ræða með reglubundnum fundum og í einu tilviki var leiðsagnarkennari sérmenntaður sem slíkur. Allir viðmælendur upplifðu þó að vel hefði verið tekið á móti þeim við upphaf starfs og að samstarfsfólkið væri hjálpfúst.
- Teymissamstarf var helsti styðjandi þáttur fyrir starf hinna ungu kennara í báðum rannsóknunum. Samrýmist það vel öðrum rannsóknum.
- Kennararnir höfðu alla jafna mótaðar hugmyndir um hvernig kennarar þeir vildu vera og fram kom að helsta ástæða þess að þeir sinntu starfinu væri að vinna með börnunum. Markmið um samskiptafærni og líðan barnanna virtust skipta flesta viðmælendur mestu máli.
Í hvorri rannsókn fyrir sig kom margt forvitnilegt fram:
- Nokkrir af kennslukörlunum höfðu þjálfað eða voru að þjálfa hópíþrótt. Þetta virðist hafa verið þeim gott veganesti við bekkjar- og hópastjórnun. Sama kom fram hjá stöku kvenkyns þátttakendum.
- Nokkuð var um sérstaka karlaklúbba í þeim skólum sem karlarnir störfuðu. Klúbbarnir virðast að einhverju leyti hafa virkað sem stuðningur við nýliðana en frekar félagslegur stuðningur en faglegur. Tilvist slíkra karlaklúbba var líka nefnd af kvenkyns nýliðunum en mjög fáir kvennaklúbbar virðast hafa verið starfandi.
- Kennslukarlarnir lýstu því hvernig búist var við því af þeim að þeir væru góðir í að „halda aga“. Má túlka það sem fyrirfram gefnar hugmyndir um meðfædda hæfni karlkennara og virtist þar af leiðandi visst forskot vegna kyns þeirra. Engin teikn voru um slíkar hugmyndir um agastjórnun hefðu haft áhrif á kvenkyns nýliðana. Á rannsóknartímanum lærðu karlarnir margt sem viðkom faglegri bekkjar- og agastjórnun.
- Skoðað var sérstaklega jafnvægi vinnutíma og einkalífs hjá kvenkyns nýliðunum, þar sem sú umræða kom frekar upp meðal þeirra. Þær beittu ýmsum ráðum til að ná slíku jafnvægi og halda því, svo sem að vinna lengur á vinnustaðnum, taka sem fæst verkefni með sér heim og skoða ekki tölvupóstinn utan vinnutíma.
- Samskipti kynjanna á vinnustöðum viðmælenda voru rædd og í ljós kom að oft var viss aðgreining sem stundum var byggð á kyni. Sú aðgreining helgaðist ekki síst af ójafnvægi í fjölda karlkyns og kvenkyns kennara, studd með aðgreiningu kynja innan skólanna. Sú aðgreining kom meðal annars til vegna þess að konur kenndu í meiri mæli á yngri stigum og karlar á unglingastigi og vegna karlaklúbba á vinnustaðnum. Viðmælendur lýstu farsælu samstarfi milli karlkyns og kvenkyns kennara en þó voru nokkur dæmi þess að kennslukonum þættu karlar komast upp með meira kæruleysi ef svo bar undir.
- Álag í starfi ungu kvennanna var gríðarlega mikið. Þær voru komnar með mikla ábyrgð, meðal annars á verkstjórn yngri kennara og stuðningsfulltrúa (líklega líka leiðbeinenda þótt við ræddum það ekki sérstaklega) – enda voru nokkrar komnar með fjögurra til fimm ára kennslueynslu þegar rannsóknartímanum lauk.
- Í viðtölum við kvenkyns nýliðana sem kenndu yngstu börnunum kom fram að þær báru mikla umhyggju fyrir nemendum sínum og höfðu metnað fyrir þeirra hönd til að ná framförum í náminu. Þær fundu þó oft fyrir togstreitu og vissu úrræðaleysi, þar sem þeim fannst starfsaðstæðurnar stundum hamla því að þær gætu sinnt nemendum eins og þær vildu. Teymiskennslan olli því svo að nemendahóparnir gátu verið í heildina 30–60 nemendur.
Hóparnir sem unnu að rannsóknunum voru tveir:
- Fyrri hópur: Ingólfur, Andri, Valgerður.
- Síðari hópur: Ingólfur, Aðalheiður, Maríanna, Valgerður.
- Andri Rafn Ottesen tók viðtöl og gerði meistaraprófsrannsókn í fyrri rannsókninni og ritaði grein með Ingólfi Ásgeiri Jóhannessyni. Ingólfur tók einnig nokkur viðtöl. (Maríanna Jónsdóttir Maríudóttir afritaði viðtölin sem Ingólfur tók.)
- Valgerður S. Bjarnadóttir vann úr gögnun fyrri rannsóknar og ritaði tvær greinar með Ingólfi og Andra, aðra fyrir erlent tímarit.
- Aðalheiður Anna Erlingsdóttir, Maríanna Jónsdóttir Maríudóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir tóku viðtölin í síðari rannsókninni.
- Aðalheiður gerði meistaraprófsrannsókn og ritaði grein með Ingólfi og Valgerði.
- Ingólfur, Valgerður og Maríanna hafa skrifað grein í sameiningu.
- Valgerður og Ingólfur eru með grein á ensku í smíðum um síðari rannsóknina.
Meistaraprófsritgerðir:
Aðalheiður Anna Erlingsdóttir. (2023). „Ég var sett með þeim í teymi af ástæðu … þær eiga að leiðbeina mér í þessu.“: Kvenkyns nýliðar í grunnskólakennslu [meistaraprófsritgerð, Háskólinn á Akureyri]. https://skemman.is/handle/1946/45074
Andri Rafn Ottesen. (2018). Eftirsóttasti minnihlutahópurinn? Fyrstu mánuðir kennslukarla í starfi [meistaraprófsritgerð, Háskóli Íslands]. Skemman. https://skemman.is/handle/1946/31674
Tímaritsgreinar:
Andri Rafn Ottesen og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2019). Eftirsóttasti minnihlutahópurinn? Fyrstu mánuðir fjögurra karla í grunnskólakennslu. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun.
https://doi.org/10.24270/netla.2019.1
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Andri Rafn Ottesen og Valgerður S. Bjarnadóttir. (2022). Styðjandi þættir í starfi grunnskóla við karlkyns nýliða. Tímarit um uppeldi og menntun, 31(1), 91–109.
https://doi.org/10.24270/tuuom.2022.31.5
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Andri Rafn Ottesen og Valgerður S. Bjarnadóttir. (2024). Natural disciplinarians or learning from the job? The first two years of seven male teachers in Icelandic compulsory schools. Education Inquiry, 15(2), 188–202. doi.org/10.1080/20004508.2022.2080343
Aðalheiður Anna Erlingsdóttir. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Valgerður S. Bjarnadóttir. (2024). Kynjað starfsumhverfi kvenkyns nýliða í grunnskólakennslu. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. DOI: https://doi.org/10.24270/netla.2024/18
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Valgerður S. Bjarnadóttir og Maríanna Jónsdóttir Maríudóttir. (2024). Jafnvægi starfs og einkalífs ungra kvenkyns kennara í íslenskum grunnskólum. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2024 - Menntakvika 2024. http://netla.hi.is https://doi.org/10.24270/serritnetla.2024.7
Samstarfsaðilar:
Háskólinn á Akureyri: María Steingrímsdóttir, þá dósent við Háskólann á Akureyri, veitti ráðgjafi við fyrstu skref fyrri rannsóknarinnar. Aðalheiður Anna Erlingsdóttir var meistaranemi við Háskólann á Akureyri þegar hún skrifaði meistaraprófsritgerðina.
Sunna K. Símonardóttir félagsfræðingur, sem vann að rannsóknaryfirlit um kennslukarla og fleira.
Styrkir:
Jafnréttissjóður Íslands: Rannsóknin með kennslukörlunum.
Rannsóknasjóður Háskóla Íslands: Báðar rannsóknirnar.
Sumarvinnuátak Vinnumálastofnunar: Rannsóknin með kvenkyns nýliðum.
Efnisorð: Nýliðun kennara, leiðsögn, kyngervi, kyn kennara, ungir kennslukarlar, nýbrautskráðir kvenkyns kennarar, styðjandi þættir, teymiskennsla, stuðningsfulltrúar, jafnvægi starfs og einkalífs, tilfinningastjórnun