Búrin bannfærð
Sjónarmið um velferð dýra í landbúnaði hafa átt vaxandi fylgi að fagna, bæði erlendis og hér á landi. Í íslenskum lögum um þessi efni, sem sett voru árið 2013, er gengið skýrt og greinilega út frá því að dýr séu „skyni gæddar verur“. Með þessu er hin skelfilega hugmynd sem ráðið hefur svo miklu um þankagang manna gagnvart húsdýrum allt frá því að Descartes var á dögum – að dýr séu ekkert frábrugðin vélum – loksins sett til hliðar. Vélar má taka sundur að vild, setja saman aftur, og stilla þannig að þær snúist hraðar og afköstin aukist. Lengi hafa dýr verið meðhöndluð á einmitt svona máta: Sem tannhjól í framleiðslumaskínu sem krafa er gerð um að snúist sífellt hraðar.
Smátt og smátt þrengir að þeim tegundum búskapar – eða kannski öllu heldur iðnaðarframleiðslu – sem byggir á dýrahaldi í búrum. Nú síðast bárust fréttir frá Noregi um að þar yrði bannað að halda loðdýr frá árinu 2025. Þetta þykja mér góðar fréttir. Búrdýr hvers konar – refir, minkar, hænsn og laxar, svo dæmi séu tekin – munu kannski brátt heyra sögunni til.
Eins og vænta mátti hafa hagsmunaaðilar ýmsir rekið upp sárt ýlfur vegna fréttanna frá Noregi. En það góða land er einungis það nýjasta af mörgum þar sem ákveðið hefur verið að hætta þessum skepnuskap. Í átta Evrópulöndum er öll loðdýrarækt þegar bönnuð. Í Danmörku og Hollandi er bannað að halda refi á þennan hátt. Í þremur löndum til viðbótar hafa reglur verið hertar svo mjög að sýnt þykir að loðdýrarækt leggist af.
Hér á landi voru um 44.000 minkar haldnir í búrum samkvæmt síðustu tölum Hagstofu Íslands; mun fleiri en allir íbúar Kópavogs. Þeir eiga betra skilið, litlu skinnin.