Rannsóknir

Ég er óforbetranlegur sundurgerðarmaður í rannsóknum – hef afar vítt áhugasvið og hef ekki alltaf staldrað lengi við á hverjum stað. Einnig hef ég oftar en ekki reynt að vinna þverfræðilega, með hugmyndir og kenningar ættaðar jafnt úr minni eigin fræðigrein og úr ýmsum öðrum fræðigreinum og í samstarfi við fólk af ýmsu akademísku sauðahúsi. En í stórum dráttum má skipta þeim rannsóknaverkefnum sem ég hef fengist við í þrennt (sjá ritskrá):

  • Þróun svæða og byggða. Frá því á námsárum mínum hef ég fengist við rannsóknir um þessi efni. Á Nýja-Sjálandi tók ég á sínum tíma þátt í rannsóknum um aðlögun bænda að róttækum breytingum á efnahagslegu umhverfi. Á Papúu Nýju-Gíneu rannsakaði ég samfélags- og umhverfisbreytingar sem fylgdu aukinni þátttöku sjálfsþurftarbænda í markaðshagkerfinu. Og á Íslandi hef ég skoðað efnahags- og félagslega þróun bæði sjávarbyggða og landbúnaðarhéraða.
  • Hugmyndir um náttúru og landslag. Þessi áhugi kviknaði að hluta vegna hinna miklu deilna sem spruttu upp á Íslandi um nýtingu orkulinda fyrir síðustu aldamót, samfara vaxandi ferðamennsku. Auk þess að taka þessar deilur sjálfar fyrir hef ég til að mynda skoðað þróun þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða (á Papúu Nýju-Gíneu og í Ghana auk Íslands); margræðni landslagshugtaksins; orðræðu um innfluttar tegundir; og tengsl fólks og (annarra) dýra.
  • Skipulagsmál og samgöngur. Áhugi minn á skipulagi er tiltölulega nýlegur. Hann tengist einkum borgarumhverfinu – enda bý ég í einu borg á Íslandi – og líka allt að því nördalegum áhuga á einni merkilegustu vél sem upp hefur verið fundin: Reiðhjólinu. Ég hef sett upp nokkur verkefni sem tengjast aðstæðum til hjólreiða og virkra samgangna í víðari skilningi.

Helstu verkefni í vinnslu:

  • Renewable Energy and Landscape Quality (RELY): Net fræðifólks frá flestum Evrópulöndum, styrkt af COST-áætlun Evrópusambandsins. Greining á landslagsáhrifum af nýtingu hinna ýmsu endurnýjanlegu orkugjafa.
  • Seigla íslenskra sjávarbyggða: Verkefni styrkt af RANNÍS, sem snýst um að rekja búsetuþróun í sjávarbyggðum landsins sl. aldarfjórðung og greina orsakir mismunandi þróunar. Doktorsnemi: Matthias Kokorsch.
  • Social Aspects of Fisheries for the 21st Century (SAF21): Fjölþjóðlegt verkefni um félagslegar hliðar fiskveiðistjórnunar, styrkt af Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins. Doktorsnemi: Kristinn Nikulás Edvardsson.
  • Upplifun hjólreiðafólks af umhverfi á höfuðborgarsvæðinu: Tilraun í samvinnu við dr. Jiři Pánek við Palacký-háskólann í Olomouc í Tékklandi. Við notum vefútfærslu til að safna landfræðilegum upplýsingum beint frá hjólreiðafólki.