Að bera höfuðið hátt
Í Freetown búa eitthvað yfir milljón manns, ef að líkum lætur. Talan er ekki alveg á hreinu – erfitt er að henda reiður á fólki í þéttbyggðri borg sem inniheldur mörg óskipulögð fátækrahverfi og sem stækkar gríðarhratt vegna flutninga fólks utan af landi. Þetta er gömul saga og ný: Fólk flytur úr sveit í borg í leit að betra lífi. Borgarljósin lokka, þótt reyndar sé oft rafmagnslaust og alls engin ljós. Og þegar til borgarinnar kemur er oft færra um fína drætti en þeir aðfluttu höfðu vænst. Að fá fasta og launaða vinnu er fyrir marga nánast ómögulegt.
Hvað er þá til ráða? Að skapa sína eigin vinnu. Fyrir mjög marga þýðir það að finna eitthvað sem selja má öðru fólki og fá inn fáeinar ljónur á dag til að framfleyta sér og sínum. Sölumennska af einhverju tagi virðist það sem mikill meirihluti borgarbúa fæst við. Sölumennskan er ekki bundin við fáeina markaði, heldur situr fólk við nánast allar götur og falbýður aðskiljanlegustu hluti: Ávexti, fatnað, tannkrem, þvottaefni. Við umferðarþung hringtorg smeygja ungir menn sér milli bílanna og bjóða farþegum og bílstjórum þurrkublöð eða kex eða derhúfur eða fána. Fátækt margra – jafnvel flestra – af þessum herskara seljenda er alveg skínandi blá. Sierra Leone er eitt af fátækustu ríkjum heims, og það sést.
En samt ber fólk yfirleitt höfuðið hátt. Og notar jafnvel höfuðið sjálft sem vettvang sölumennsku sinnar. Alls staðar er fólk á ferð með varning á höfði sér. Maður mætir kannski barni með plastkassa sem gæti þess vegna verið úr Rúmfatalagernum, með nýsteiktum ástarpungum eða einhverju öðru góðgæti, eða þá sölukonu með haug af brjóstahöldurum sem stendur upp úr plastbalanum hennar. Um daginn mætti ég ungum manni með hálfs metra háan stafla af vandlega samanbrotnum handklæðum á höfðinu og sýnishorn á handleggnum, þar sem hann gekk um Lumley-hverfið, en þar er sölumennskan með ákafara móti. Ég keypti af honum ljómandi gott baðhandklæði fyrir sextíu ljónur. Held hann hafi sett upp talsvert hærra verð fyrir mig útlendinginn en hann hefði gert fyrir landa sína, en það var í´góðu lagi.