Hænsnfuglar og hrægammar

Í götunni minni í Wilberforce Village er hellingur af hænum. Og hönum: Fyrsta hanagal á morgnana fer ekkert á milli mála, en ég fer nú samt ekki á fætur alveg þá eins og Tumi kallinn hefði eflaust gert. Það er ekki nærri farið að birta af degi þagar hanarnir hefja upp raust sína, raunar á svipuðum tíma og fyrsta bænakallið ómar frá nálægri mosku. Svo gala hanarnir linnulaust fram á daginn og kvöldið og jafnvel nóttina. Þetta gefur borginni svona notalegan sveitó blæ, sem ég kann ágætlega við. Hænurnar spígspora daglangt meðfram götunni, gjarnan með nokkra agnarlitla unga í kringum sig. Hænuungarnir leita að einhverju ætilegu innan um plastpoka og annað rusl. Þeir eiga sínum smáu fótum oft fjör að launa þegar stórir og frekjulegir Landkrúserjeppar – til dæmis sá sem flytur mig til vinnu á morgnana – ryðjast fram hjá í þröngri götunni, án minnsta tillits til hagsmuna hænsnanna sem deila borginni með fólki og öðrum fuglum.

Hátt uppi yfir þessu borgarlífi öllu sveima gjarnan ránfuglarnir – fálkar, gleður, og stöku sinnum hrægammar. Þeir síðastnefndu heiðruðu vinnustað minn með nærveru sinni nokkrum sinnum á regntímanum. Þeir settust einhvers staðar nálægt skýlinu þar sem við borðum hádegismatinn og biðu eftir að við kláruðum. Svo komu þeir að huga að því sem kynni að hafa verið leift af matnum. Þetta voru frekar litlir gammar og ókennilegir, en eftir smá rannsóknir komst ég að því að þetta væru afrískir hettugammar (Necrosyrtes monachus). Þeir hafa ekki átt sjö dagana sæla og eru nú taldir í bráðri útrýmingarhættu víða í álfunni. Ástæðan er sú að á þeim hvílir víða alls konar átrúnaður. Ýmsir líkamspartar þeirra eru taldir geta læknað hina aðskiljanlegustu sjúkdóma, andlega jafnt sem líkamlega, fært handhafanum heppni í spilum og bísness, og jafnvel tryggt að barnið manns verði afbragð annarra barna hvað gáfnafar snertir.

Ég hef mikla samúð með hrægömmunum. Þótt líf borgarhænunnar og unga hennar sé líka varðað fjölmörgum hættum eru þær þó lausar við áþján átrúnaðarins.