Keke, okada, poda-poda
Þetta er auðvitað alveg bannað, en ég segi ykkur það samt: Oft fer ég ferða minna innan borgarinnar með keke eða jafnvel okada. Keke eru þríhjóla farartæki sem upprunnin eru á Indlandi, en hafa rutt sér til rúms víða í Afríku á undanförnum árum. Í aftursætinu er pláss fyrir þrjá fullorðna farþega, þótt þröngt geti verið þar ef einn eða fleiri eru rassbreiðari en meðal Indverji, sem er raunar ekki ótítt hér í borg. Einnig er pláss fyrir óskilgreindan fjölda barna í fangi foreldra ef svo ber undir. Ökumaðurinn er undantekningarlítið piltur öðru hvoru megin við tvítugt. Ökutækin eru í eigu útgerðarmanna sem gera þessa stráka út á harkið á götum borgarinnar. Keke eru alls staðar. Fargjaldið er gjarnan þetta fjórar til sex ljónur – svona þrjátíuoogfimm til fimmtíukall íslenskur.
Okada eru líka alls staðar, og jafnvel rúmlega það. Þetta eru bara venjuleg mótorhjól, hér líka undantekningarlaust af indversku bergi brotin, með 125 kúbika vél, sem hefði sannarlega þótt saga til næsta bæjar í skellinöðrumenningunni í Nesjaskóla á sínum tíma. En hér er þetta ekki neitt leiktæki unglingsstráka, heldur lífsafkoma ökumannanna, sem halda gjarnan til á tilteknum götuhornum en dóla líka bara um göturnar og flauta linnulítið til að vekja athygli gangandi vegfarenda.
Mér þykja þetta ágætir samgöngukostir. Nota keke til að komast niður á strönd til að fá mér bjór á laugardagseftirmiðdegi; okada þegar ég þarf að komast upp snarbratta brekkuna heim úr matvörubúðinni með jógúrt og ost og aðra munaðarvöru sem ekki fæst á næsta götuhorni – og sem aðeins er á færi lúxusdýra eins og mín.
Ljóst að keke og okada koma til móts við brýna þörf fyrir ódýrar samgöngur í afrískum borgum eins og Freetown, sem hafa byggst upp á ógnarhraða og oft – eins og hér – án nokkurs heildarskipulags á gatnakerfi og almenningssamgöngum. Engin er borgarlínan, og reyndar ekkert eiginlegt strætókerfi. Eins og víða í fátækari löndum er hér slatti af einkareknum smárútum – poda-poda – sem fara tilteknar lengri leiðir innan borgarinnar og jafnan troðið vel í þær. Ég hef ekki nýtt mér þær hér. Flestar virðast hanga saman einvörðungu á límbandi eða lygi. Og svo hjálpar líka boðskapurinn sem jafnan er málaður flúruðum stöfum aftan á þessi farartæki: Jesús ræður för; Allah er máttugur. Eða kannski flokkast það bara undir lygina? Ég held mig við keke og okada. En þið megið engum segja – vinnuveitandinn harðbannar mér að nota þessi (að hans mati) bráðhættulegu farartæki.