Madam Aiyo

Svona fimmtíu metrum utan við hliðið að húsinu mínu er gamalt og ákaflega skakkt timburhús. Það myndi sóma sér vel í Þingholtsstrætinu hefði það fengið smá viðhald í gegnum áratugina, en lítur nú frekar hrörlega út satt að segja. Þetta er húsið hennar Madam Ayo, konu sem sennilega er um sjötugt eða rétt rúmlega það. Áföst húsinu er svolítil viðbygging þar sem eina af óteljandi búðarholum borgarinnar er að finna. Madam Ayo rekur búðina. Hún situr yfirleitt daglangt á þrepinu fyrir utan, undir skyggni í skjóli fyrir brennandi sólinni. Af og til fær hún viðskiptavin. Madam Ayo selur ýmislegt: Lítil eldstæði fyrir viðarkol, gaskúta fyrir þá sem nota svoleiðis eldsmat við matargerðina, uppþvottalög og sápu. Og þarna er talsvert mikið úrval af hári, bæði ljósu og dökku. Eins og víðar í Afríku leggja konur hér í landi mjög mikið upp úr flottu hári og breyta oft um greiðslu. Kvenkyns kollegar mínir birtast kannski einn daginn með slétt hár niður undir axlir, en svo tveimur dögum seinna með fjölmargar og heljarlangar fléttur sem ná langt niður á bak eða eru vafðar upp í mikinn hnút í hnakkanum. Þetta sem Madam Ayo selur er semsagt ætlað til lengingar á eigin hári.

Þegar ég gekk fram hjá húsinu hennar einu sinni kallaði hún til mín. Spurði hvort ég væri rússneskur. Ég neitaði því náttúrlega, en fannst spurningin áhugaverð og við tókum tal saman. Hú sagði mér brot af ævisögu sinni. Húsið gamla var hús fjölskyldu hennar – hún hafði fæðst þar og alist upp. Þá var þetta hverfi bara lítið þorp, svolítið fyrir utan bæinn. Hún hafði síðan flutt aftur í húsið á efri árum og bjó þar með dótturdóttur sinni og hennar börnum nú, en dóttirin sjálf hafði flutt til Bandaríkjanna fyrir löngu síðan.

Og núna rekur Madam Ayo sem sagt þessa litlu búð. „Eitthvað verður maður að gera til að komast af,“ sagði hún, „þetta er ekki eins og í Evrópu, þar sem fólk hættir bara að vinna og fær svo eftirlaun frá ríkinu!“ Það eru einstaklega erfiðir tímar núna að hennar sögn, jafnvel erfiðari efnahagslega en á þessum hörmungarárum frá 1992 og fram yfir aldamót, þegar blóðugt borgarastríð geisaði í landinu. Efnahagskreppan nú er enn dýpri og þorri fólks í þessu hverfi lifir nánast frá degi til dags. Getur ekki leyft sér neinn lúxus – nema kannski að kaupa sér nokkrar auka fléttur í hárið. Ekki keypti ég nú neitt slíkt af henni, enda ekkert grátt hár í boði.

Annars hafði hún lengi starfað sem aðstoðarkona á tannlæknastofu í borginni. Þangað höfðu ratað allra þjóða kvikindi í gegnum árin: Bretar, Þjóðverjar, Frakkar – og Rússar. Og hafði gert sér far um að læra nokkrar setningar á hverju tungumáli – að heilsa og þakka fyrir og kveðja, þessi grunnatriði. Vildi endilega vita hvernig þetta væri sagt á mínu eigin tungumáli. Ég reyndi að kenna henni grunnatriðin – sæl og bless og svoleiðis, en sleppti alveg að minnast á hæ og bæ.

„Þú verður að koma með súkkulaði handa mér þegar þú kemur aftur!“ sagði hún við mig þegar ég upplýsti að ég yrði á Íslandi yfir jól og áramót. „Og eitthvað íslenskt, jafnvel bara steinvölu.“ Ég lofaði auðvitað öllu fögru. En þá er vandinn að koma súkkulaðinu óbráðnu síðasta spölinn.