Regent Road

Spölkorn frá húsinu þar sem ég bý er gatan Regent Road. Þeir sem hafa komið til Lundúna þekkja götu með svipuðu nafni þaðan, Regent Street, en þar er um flest ólíku saman að jafna. Búðargluggar glæsigötunnar í Lundúnum eru hlaðnir fokdýrri merkjavöru – Rolex-úrum og Armani-jakkafötum og svoleiðis. Fólkið sem sprangar um Regent Road í Freetown er öllu hófstilltara í klæðaburði, svona yfirleitt. Og þó: Á föstudögum, þegar kallað er til bæna í mosku götunnar, má líta afar vel klætt fólk, karlmenn í sparikuflum og með kollhúfu og konur ekki síður glæsilegar. Öll met eru þó slegin á sunnudögum þegar líða fer að hádegi. Þá safnast þau kristnu saman í sínum guðshúsum, sem líka leynast í götunni, karlarnir í klæðskerasaumuðum jakkafötum og konurnar í litskrúðugum kjólum og með höfuðföt í stíl. Og börnin jafn skartlega til fara. Nóg er af flinkum klæðskerum í þessari borg, og öll er þessi stórfenglega fatadýrð saumuð á Singer-saumavél eins og þá sem mamma átti, nema yfirleitt fótstigna.

En gatan sjálf er allt annað en glæsileg satt að segja. Einhvern tímann var hún víst malbikuð. Enn má sjá slitur af malbiki hér og þar, en mest af því hefur fyrir löngu brotnað upp. Steypiregn hefur þar með átt greiðan aðgang og skolað burt mölinni sem undir leyndist, svo að háir kantar og grjóturð stendur eftir, og svo standa háar brúnir malbiksleifanna kannski þrjátíu til fjörutíu sentimetra upp fyrir urðina. Lítil umferð vélknúinna ökutækja er þess vegna um Regent Road. Sem er í sjálfu sér ágætt kannski. Nóg er af slíku annars staðar í borginni.

Allmargar búðir og sölustallar eru í götunni, sem selja allt milli himins og jarðar – fisk, byggingarefni, grænmeti, gos, kex. Og þarna má á einum eða tveimur stöðum kaupa sér falleg föt, saumuð á staðnum. Gott ef ekki líka gullslegið Rolex-úr, rétt eins og í London, en að vísu kannski ekki alveg ekta. En samt - það er eiginlega sáralítill munur þegar að er gáð.