Systir konunnar var á landinu um helgina en hún býr í Danmörku með fjölskyldu sinni. Tveir eldri piltarnir komu með og gisti sá yngri þeirra hjá okkur í gærnótt en þeir eldri okkar eru á svipuðum aldri og miklir vinir þrátt fyrir landfræðilegan aðskilnað.

Fyrir svefninn voru þeir frændurnir mikið að lesa og masa og voru á feiknaflugi þegar ég fór inn að segja þeim að slökkva ljósin og fara að sofa. Einhvernvegin upphófust pælingar um óendanleika, geiminn, geimverur, samskipti við þær, stærðfræði og tungumál tölvanna.

Skiljanlega festist ég á spjalli en þegar ég loksins hamdi mig og kom þeim í háttinn var hausinn á mér kominn á flug.

Hvert er nefnilega tungumál tölvanna? Hvað þýða þessir ásar og núll og af hverju ásar og núll?

Fyrir nokkru mætti ég á viðburð á Menntavísindasviði og rabbaði þar við tvo menn, Þórarinn og Gísla, báða mikla pælara. Gísli hafði þá verið að leika sér að því að kenna krökkum um tvíundakerfið í gegnum leik sem hann lýsti fyrir mér og sýndi mér myndband af.

Ég hef lengi haft þetta bak við eyrað og langað að gera eitthvað við þetta. Hef reglulega dustað rykið af þessu og pælt í útfærslum. Svo var það í gærkvöldi sem ég loksins fór að setja þetta í samhengi við Vísindasmiðjuna og ég hugsa að ég sé kominn með skemmtilega útfærslu af leiknum.

Verkefnið

Útfærslan er í breakout-búningi þar sem nemendur þurfa að leysa nokkur verkefni sem byggja á hvort öðru. Hér er lausnarleiðin línuleg, þ.e. það er ekki í boði að leysa þrautirnar í annarri röð, en þetta mætti vera þáttur í stærra verkefni með þeim eiginleika.

Þetta er bara hugmynd og ýmsir vankantar sem mætti sníða af þessu, en eitthvað í þessari mynd gæti verið skemmtilegt.

SVIÐSMYND: Bilun hefur komið upp í rannsóknarstöðinni sem þið eruð í og tölvukerfið hefur læst öllum dyrum ... og sjálfu sér. Til að komast út þurfið þið að endurræsa kerfið.

Þið voruð staðsett í tveimur aðskildum hlutum stjórnstöðvarinnar og getið ekki haft nema takmörkuð samskipti ykkar á milli. Til að endurræsa kerfið og komast út þurfið þið að koma upplýsingum á milli hlutanna.(hópur A): Fyrir framan ykkur er skjár, rauður takki, og fjögur ljós sem þið getið stýrt hverju fyrir sig með rofa.

Til að endurræsa tölvukerfið og komast út þurfið þið að ýta á rauða takkann og koma tíu-stafa talnarununni sem birtist á skjánum til félaga ykkar í hóp B sem þurfa að slá tölurnar inn á lyklaborð í hinum hluta stjórnstöðvarinnar.

Eina leiðin sem þið hafið til að koma tölunum til skila eru perurnar fjórar, en í hinum hluta stjórnstöðvarinnar eru samskonar perur. Þegar þið kveikið á peru í röðinni ykkar kviknar á peru á sama stað í röðinni hjá hinum hópnum.

Ef þau slá inn vitlausa tölu kemur villumelding, talnarunan endurræsist, og þið þurfið að endurtaka leikinn frá byrjun með nýja talnarunu.

(hópur B): Fyrir framan ykkur er skjár, talnalyklaborð og fjórar perur. Til að endurræsa kerfið þurfið þið að slá inn tíu-stafa talnarunu inn á lyklaborðið.

Talnarunan birtist hjá félögum ykkar í hinum hópnum og þau munu koma henni til skila til ykkar í gegnum perurnar fjórar.

Ef þið sláið inn vitlausa tölu kemur villumelding, talnarunan endurræsist, og þið þurfið að endurtaka leikinn frá byrjun með nýja talnarunu.

VERKEFNI 1: Hver tala í rununni er frá 1-4 (Dæmi: 3-1-2-1-2-2-1-2-4-4).

VERKEFNI 2: Vel gert. Nú hafa opnast takmörkuð hljóðsamskipti á milli hópanna. Þegar þið ýtið á rauða hnappinn rofna samskiptin.

Nú þurfið þið að slá inn næstu talnarunu. Sú er tíu stafir sem fyrr, en nú er hver tala í rununni frá 1-6.

VERKEFNI 3: Glæsilegt! Nú eigið þið bara eina talnarunu eftir. Sú er sem fyrr tíu stafir, en hver tala er nú frá 1-15 (Dæmi: 7-1-14-1-1-7-15-7-8-5).

Útfærslur

Hljóðmerki með verkefni 2

Til að flækja aðeins verkfni 2 væri hægt að leyfa þeim ekki að tala saman, heldur væri bara takki hjá hóp A sem gæfi frá sér hljóð. Þau þyrftu þá að samræma reglurnar fyrir það hvernig tölurnar væru skilgreindar út frá hljóðmerkjum eingöngu (þau gætu t.a.m. gefið 1 hljóð með ljósmunstrinu sem táknaði 1, tvö hljóð með munstrinu sem táknaði 2 o.s.frv.).

VERKEFNI 2: Vel gert. Nú hafa opnast takmörkuð hljóðsamskipti á milli hópanna. Þegar þið ýtið á græna hnappinn heyra félagar ykkar í hinum hópnum sama hljóð og þið heyrið. Þegar þið ýtið á rauða hnappinn rofna samskiptin og græni takkinn virkar ekki lengur.

Nú þurfið þið að slá inn næstu talnarunu. Sú er tíu stafir sem fyrr, en nú er hver tala í rununni frá 1-6.

VERKEFNI 2 (hópur B): Vel gert. Nú hafa opnast takmörkuð hljóðsamskipti á milli hópanna. Félagar ykkar geta nú sent ykkur hljóðmerki áður en þið farið að Þegar þið ýtið á græna hnappinn heyra félagar ykkar í hinum hópnum sama hljóð og þið heyrið. Þegar þið ýtið á rauða hnappinn rofna samskiptin og græni takkinn virkar ekki lengur.

Nú þurfið þið að slá inn næstu talnarunu. Sú er tíu stafir sem fyrr, en nú er hver tala í rununni frá 1-6.

Fleiri verkefni

Í þessum anda mætti vinna með þrautir þar sem þau þyrftu að kóða texta í tvíundakerfi og lesa vísbendingar eða lausnir úr strengjum. Það mætti líka láta þau leggja saman tölur í tvíundakerfinu eða raða saman rökrásum til að fá einhverja virkni út (væri kannski hægt að setja það saman úr áþreifanlegum hlutum).