Þegar ég stóð í tækjakaupum fyrir um ári fyrir forritunarsmiðjur sem við keyrðum svo í janúar og febrúar rakst ég á geislavirkninema. Ódýran sem maður þyrfti að lóða saman sjálfur, en samt græja sem á að geta greint umhverfisgeislun og aukna geislun frá sérlega geislavirkum hlutum í umhverfinu.

Ég kastaði skeyti á Snæbjörn og spurði hvort þetta væri áhugavert fyrir jarðfræðina; væri gaman að geta borið geislavirkt grjót upp að þessu. Jú, það hélt hann nú svo ég skellti einu setti með í sendinguna.

Hún kom fyrir um ári, en aldrei komst það nógu hátt upp á forgangslistann að setja græjuna saman. Ekki fyrr en ég var langt leiddur af þokuklefaraunum mínum sem ég mun tíunda við tækifæri.

Ég var sumsé að bisa við að setja saman þokuklefa sem á að sýna rákir af völdum geislunar ... og ekkert sást. Ég prufaði nokkrar geislalindir, en ekkert gekk.

Voru þessar geislalindir alveg dauðar? Hver var hlutfallslegur styrkur á milli þeirra.  Og var kannski bakgrunnsgeislunin hér á Íslandi bara ekki nógu mikil?

Til að svara þessu þyrfti ég geislavirknimæli ... sem við áttum jú til.

Geigerneminn, eða Geiger–Müller-neminn, byggir á hólki sem nefnt er eftir þeim félögum Hans Geiger og Walther Müller sem var doktorsnemi Geigers og þróaði hólkinn með honum. Hólkurinn er leiðandi að innan og eftir honum liggur grannur leiðandi þráður. Geislun sem fer um loftið innan hólksins jónar loftið sem þá eykur leiðni þess.

Með því að setja nokkuð háa spennu (oft 400-900 V) á milli þráðarins og hólksins má nema mælanlegan straum þegar loftið jónast.

Það læddist satt að segja að mér leiður grunur um að þetta ætti eftir að mislukkast hjá mér. Tilraunirnar með þokuklefann höfðu gert mig svo svartsýnan og ég vissi að það þyrfti ekki nema einn bilaðan íhlut til að Geigerneminn virkaði ekki, og það yrði langur vegur að leita að villunni.

Samkvæmt leiðbeiningunum átti að stilla nemann á minnstu næmni, kveikja á nemanum og svo hægt og rólega skrúfa upp þar til það heyrðust smellir í tækinu. Þegar því var náð átti að skrúfa næmnistillinn upp um 45° til viðbótar.

Og viti menn! Við ræsingu gerðist ekkert en áður en ég hafði snúið því nema brot úr hring heyrðust nokkrir smellir. Og þegar ég bar geislalindirnar sem ég var með upp að nemanum tók hann að smella af áfergju.

Græjan virkaði!

Já, og geislalindirnar tvær virkuðu báðar ágætlega. Sem er ágætt fyrir næstta verkefni: Að koma þokuklefanum í gagnið!