Í um tvö ár höfum við verið með litrófssjár úr pappahólkum í Vísindasmiðjunni. Við notum þær til að sýna litróf loftljósanna sem gestir þekkja sem regnboga, nema hvað í regnboga flúrpera eru göt; þær gefa bara frá sér ákveðna liti.

Þegar nógu bjart er úti má skoða litróf sólarljóssins sem er samfellt og án (sjáanlegra) gata. Nema hvað pappahólkarnir voru ekkert sérstaklega góðir og voru farnir að láta á sjá (ekki síst vegna þess að þeir voru settir saman með flipum sem virðast hafa verið ákaflega spennandi að opna).

Ari keypti mikið magn af hólkum til að senda með Ljósakössunum og bjó til útgáfu sem við gerðum föndurmyndband af fyrir kennara sem vildu sjá okkar hugmynd að svona hólki:

Mig langaði svo að búa til nokkra svona til að leysa pappahólkana af. Ég vildi bæta þá á þrjá vegu:

 • Dekkja hólkinn þannig að litrófið sæist betur.
 • Sverta innra byrðið til að minnka glampa.
 • Grenna raufina til að gera litrófið skarpara og götin skýrari.

Fyrstu tvær umbæturnar reyndi ég að ná fram með því að mála innra byrði hólkanna með möttum svörtum þekjulit sem við áttum frá verkefni sem ég hafði keyrt í Háskóla unga fólksins fyrir nokkrum árum. Liturinn tolldi hins vegar illa við plastið og flagnaði leiðinlega af.

Ég reyndi þá matt, svart spray-lakk sem virkaði mun betur. Það þurfti nokkrar umferðir til að ná nógu þykkri húð svo það blæddi ekki ljós inn um hliðarnar. Líklega hefði ég ekki þurft að lakka þetta svo vel þar sem pappírinn sem ég síðar klæddi hólkinn hefði líklega þétt það sem upp á vantaði.

Hins vegar reyndist það mikilvægt að gera umferðirnar ekki of þykkar, því þá fóru að myndast taumar þegar lakkið lak niður.

Ljósgreiðuna festi ég á hólkana á mjög svipaðan hátt og Ari, nema ég notaði bara tvö límbönd og ákvað að nota heldur gúmmí-(rafvirkja-)límband til að festa hana á þar sem það var þynnra (og þar með auðveldara að líma yfir).

Raufina gerði ég úr svörtum pappa sem ég risti eins mjóa rauf og ég gat í. Ég mundi glaður vilja finna leið sem er ennþá mjórri en hef ekki rekist á neina aðferð til þess. Tillögur vel þegnar.

Að lokum vafði ég hólkana með mislitum pappír. Annars vegar til þess að gera þá litskrúðugri, og hins vegar vegna þess að mér er alltaf illa við að hafa marga hluti nákvæmlega eins. Ef þeir eru í mismunandi lit (eða a.m.k. númeraðir) er auðveldara að sjá hvort einhvern vantar og hvort einhver einn er að bila eða haga sér illa).

Fyrir áhugasama um aðferðina, fylgir stutt skref-fyrir-skref lýsing:

Leiðbeiningar fyrir litrófssjárgerð

Í þetta þarf (ath. það þarf að yfirfara stærðir hlutanna):

 • Langan og stuttan hólk (u.þ.b. 15 cm og 1,5 cm)
 • 1,25 (?) cm breitt gúmmílímband
 • 2,5 (?) cm breitt gúmmílímband
 • tvíhliða límband
 • ljósgreiðu (?? x ?? cm, það er hægt að fá ábót í Ljósakassann ef kennara langar að gera fleiri svona hólka (t.d. láta hvern nemanda gera sína litrófssjá)
 • svartan pappír
 • matt, svart spray-lakk
 • dúkahníf
 • skæri

Núllta skref: Hólkurinn litaður að innan

Hólkarnir (stuttu og löngu) eru lagðir á einhvern dúk, maskínupappír eða annað sem má fórna og litaðir að innan með möttu, svörtu spray-lakki. Nokkrar þunnar umferðir ættu að duga ef pappírinn sem klæðir hólkinn hleypir ekki í gegnum sig ljósi.

Það er í lagi að ytra byrðið litist líka því að utan á það kemur gúmmílímandið og pappírsklæðningin. Ég var að gæta þess voðalega vel að úða bara á innra byrðið en hefði heldur átt að lakka stuttu hólkana bara að innan og utan svo ég endaði ekki með ólakkaðan kanntinn sem ég þurfti að lokum að lita sér.

Fyrsta skref: Ljósgreiðan fest á hólkinn.

Tveir grannir límbandsbútar eru lagðir með klístruðu hliðina upp og ljósgreiðan lögð þar ofan á. Gott er að teikna hring á pappír með hólkinn sem skapalón til að miða út bilið á milli límbandanna (það er ágætt að teikna hringinn á rúðustrikað blað eins og í myndbandinu að ofan, eða á svarta pappírinn því það þarf hvort eð er að gera í skrefi þrú að neðan).

Límböndin eru lögð samsíða þannig að þau bera við ytra borð hringins/hólksins.

Hólkurinn er svo lagður ofan á þannig að límbandið festist við endann og límbandið lagt upp að hliðinni. Ég skar í límbandið (eins og á myndbandinu að ofan) til að það krumpaðist ekki.

Ljósgreiðurnar eru viðkvæmar fyrir puttafeiti og rispum. Það hafði komist eitthvað kusk í umslagið sem þær voru geymdar í svo ég þreif þær með gleraugnaklút áður en ég lagði þær á límbandið.

Annað skref: Litli hringurinn festur á.

Hringurinn er aðallega til að verja ljósgreiðuna og mynda skyggni svo maður geti borið augað alveg upp að litrófssjánni þegar  maður horfir inn í hana (til að minnka glampa).

Um 15 cm langur bútur (ca. ummál hólksins) er skorinn af af breiða límbandinu og hringurinn límdur á. Mér reyndist betur að skera bútinn fyrst af frekar en að líma með draga bandið sífellt af rúllunni. Öðrum kann að reynast hitt betur.

Þriða skref: Raufin skorin.

Með hólkinn sem skapalón Hringur er teiknaður Hólkurinn er lagður upp á endann á svartan, ógegnsæjan pappír og hringur teiknaður út  og klippti út. pappírshringirnir urðu reyndar aðeins of stórir svo þeir beygluðust þegar ég reyndi að líma þá á. Ég lagði þá því upp að hólknum og skar það sem út af stóð af með dúkahníf.

Um 2 cm löng lína er merkt á miðju skífunnar og skorið eftir henni með dúkahníf. Önnur lína er svo skorin eins nærri þeirri fyrri og mögulegt er.

Ég lenti í því að ef ég reyndi að skera of mjóa rauf þá lenti dúkahnífurinn í fyrri skurðinum og raufin féll saman á smá bút. Þá kemur blettur í litrófið sem mér þótti verri en að hafa eilítið breiðari rauf.

Spjaldið með raufinni er svo fest á hólkinn með granna gúmmílímbandinu. Með því að toga það þétt að hólkinum og láta svona 2 mm standa út yfir spjaldið tognar á límbandinu og það leggst yfir jaðarinn á spjaldinu.

Fjórða skref: Hólkurinn klæddur.

Að lokum er um A5 stærð af pappír vafinn um hólkinn. Ég skar bara A4 blöð sem ég átti til í 10 litum í tvennt, lagði tvíhliða límband á jaðrana og rúllaði utanum. Það var smá vesen að láta það passa almennilega (þannig að pappírinn legðist alveg rétt ofan á sjálfan sig) en mér þótti það betri lausn en að nota lím sem harðnaði hægt (UHU lím gengi kannski en þá þyrfti að halda við pappírinn meðan límið þornar).