Eins og gerist, þá hafa hlaðist upp munir í geymslunni í Vísindasmiðjunni, og þá mikið til fremst; munir sem við höfum lagt frá okkur án þess að gefa þeim almennilega góðan stað og þannig stífla aðgengið að rýminu innar sem svo aftur gerir það flóknara að ganga frá hlutum.

Núna var svo komið að það var í raun bara hægt að komast að fimmtungi geymslunnar vegna þess að það lá svo mikið í gangveginum. Í vetrarfríinu eygði ég smá frí svo ég stökk á tækifærið og afréð að ganga á þennan haug.

Ein stærsta fyrirstaðan voru þrjár stærðarinnar krossviðsplötur þaktar geisladiskum. Þær höfðu verið notaðar til að klæða kerruna okkar gömlu að innan svo úr varð lítið upplifunarlistaverk. Síðastliðin ár hafa þau hins vegar bara verið í geymslu.

Og það að mestu leyti fyrir okkur án þess að það lægi fyrir að við næðum nokkurtíma að nota þær á ný.

Svo eftir vísindaleikina (viðburð þar sem við tókum á móti börnum starfsfólks Háskóla Íslands) greip ég Elí og við sóttum plöturnar niður í kjallara. Ég náði ekki að gera mikið þann daginn en á föstudaginn kippti ég af restinni af geisladiskunum og mældi hvað ég þyrfti af við til að klæða neyðarútgang sem liggur út úr Vísindasmiðjunni, bakatil.

Mig hefur lengi langað að nota þann litla afkima í eitthvað. Flestar hugmyndirnar kalla á að loka ganginn af en fyrsta skrefið er þá að loka glugganum og loftinu. Þarna gafst sumsé tækifæri á að grynnka á geymslunni og fikra okkur áfram með nýjar uppstillingar í sama vetfangi.

Ein hugmynd kallar á nokkra skynjara, ljós og jafnvel hátalara, og útbúa þetta litla rými þannig að gestir geti stýrt ljósum og hljóði með þvíað ganga í gegnum rýmið eða hreyfa sig í því.

Ég þurfti ekki nema tvær plötur í það verkefni svo ég sat upp með eina sem ég hafði engin not fyrir. Hún var enn að mestu þakin geisladiskum svo ég mátaði hana við einn vegginn í Vísindasmiðjunni. Svo vill til að sá veggur er einmitt með nokkrum gipstöppum sem eru frekar ljótir á að sjá, svo það féll bara feykivel að stytta plötuna lítið eitt og festa plötuna upp á vegg.