Ég fór af stað með hitstigsmælingar með Raspberry Pi fyrir um tveimur árum en okkur Snæbjörn Guðmundsson langaði til að búa til frostþýðuklefa sem mér datt í hug að keyra með Raspberry Pi tölvu.

Svo datt það eitthvað uppfyrir og ég náði aldrei að klára hitastigsmælingarnar þótt ég hefði einhverntíma fengið það til að virka. Það þurfti einhverjar stillingar til sem ég gleymdi og hafði hvergi skjalað. Svo, hér kemur þá skjölunin...

Sumsé, hitastigsneminn er svokallaður DS18B20 nemi og ég hef séð tvær útgáfur. Ein lítur út eins og venjulegur smári sem auðvelt er að stinga í brauðborð, og svo hin sem ég er með sem er lítill málmhólkur með alllöngu skotti og þremur vírum sem með góðum vilja er hægt að stinga einhverstaðar í, en er fremur gerðir til að vera lóðaðir fastir.

Það þarf að hlaða stuðningi fyrir þetta inn í Raspbian. Annars vegar sem "document tree overlay" sem má gera með því að setja í skrána /boot/config.txt línuna:

dtoverlay=w1-gpio

Svo þarf að endurræsa vélina og þá má hlaða inn tveimur módúlum sem þarf til að allt virki. Það má hins vegar bara bæta þeim stuðningi við í /etc/modules með því að bæta við skrána línunum:

w1_gpio
w1_therm

Svo má endurræsa og þá á allur stuðningur að vera kominn til að lesa hitastigið af nemanum.

Neminn er tengdur með svarta vírinn í jörð, rauða í 3,3 V og gula í GPIO pinna 4. Guli pinninn þarf svo að vera "dreginn upp" í 3,3 V með því að tengja gula vírinn við 3,3 V tengið/rauða vírinn í gegnum viðnám (t.a.m. 4,7 kOhm sem virðist vera algengt; ég hef ekki prufað að breyta um viðnám en það væri áhugavert að prufa).

Hver DS18B20 nemi hefur sitt eigið númer svo það má jafnvel tengja fleiri en einn við sömu Raspberry Pi tölvu. Af nemunum má svo lesa undir: /sys/bus/w1/devices/28-*