Þetta er búið að vera mikið ferðalag! Bókstaflega og óeiginlega sem hófst fyrir meira en þremur árum þegar sú hugmynd kom upp að nýta alþjóðlegt ár ljóssins árið 2015 til að setja saman kassa af kennslugögnum og gefa í skólana.

Ari Ólafsson bar hitann og þungann af verkefninu; fann til íhluti, pantaði og setti saman. Þetta tók sinn tíma og fyrstu kassarnir voru afhentir á kennaradögum Vísindasmiðjunnar vorið 2017. Við nýttum svo hvert tækifæri til að koma kössunum út um veturinn og lokahnykkurinn náðist svo um vorið 2018 þar sem við tókum ljósakassa með í Háskólalestina og höfðum samband við þá skóla sem eftir stóðu og voru á leið okkar.

Eðli málsins samkvæmt höfðu skólarnir fyrir Norðan og Austan farið halloka af ljósakassaafhendingum. Síðustu Lestarferðirnar tvær voru á Grenivík og Egilsstaði og þar sem Ari þurfti að aka með búnaðarkerru Háskólaestarinnar ákváðum við að lesta kerruna með kössum og svo hringdi ég í kennarana sem á leið hans voru og við náðum að koma kössum til svo til þeirra allra. Á þrettán mánuðum höfum við sumsé komið út í skóla landsins 139 ljósakössum.

Næsta vetur langar okkur svo að fylgja þessu eftir og komast að því að hvaða marki þessir kassar eru notaðir. Ég hef heyrt af notkun í nokkrum skólum en á netinu hef ég einungis fundið eina frétt af notkun kassans úr tísti frá Menntamiðjunni:

Já, og svo langar okkur náttúrulega að búa til annan svona kassa, fyrir eitthvað annað svið vísindanna sem skólarnir hefðu gagn af.