Ég fékk fyrirspurn um það hvernig spila mætti tónlist á microbit tölvuna svo ég settist niður, setti saman lítið lag og tók skjáskot til að skjala það. Afurðin er hér að neðan.
Til að spila tónlist í microbit Makecode ritlinum þarf:
- Tölvu til að forrita
Og ekkert meira! Ritillinn hefur innbyggðan hermi sem sýnir (og spilar) það sem forritað er. Því er hægt að fara strax af stað og forrita lögin.
Hins vegar er microbitinn ekki beint gerður til að forrita tónlist (það er bara einn af mörgum eiginleikum hans) svo ef markmiðið er að forrita tónlist (óháð microbit) er hægt að fá sérstaklega gerð forrit til þess. Gott dæmi er Sonic Pi.
Til að spila tónlist á microbit þarf:
- Tölvu til að forrita
- Microbit
- USB kapal
- Tvo leiðara (helst víra með krókódílaklemmum á endunum en jafnvel álpappír virkar líka)
- Heyrnartól eða hátalarar
Til að forrita lagið er upplagt að nota venjulega ritilinn: Makecode
Makecode býður upp á nokkrar skipanir eða púsl til að spila lög eða tóna. Þær helstu er:
- Spila lag
- Spilar eitt af fyrirfram skilgreindu lögum. Þetta eru stuttir lagabútar til að auðveldlega bæta lögum við forritin sín (t.d. ef microbitinn á að gefa til kynna að einhverju sé lokið, eða hann sé tilbúinn til að taka við skipunum).
- Spila tón
- Þetta er gagnlegasta skipunin/púslið þegar kemur að lagagerð. Hér er skilgreind tónhæð og lengd tónsins. Tónhæðina má gefa sem tón á lyklaborðinu (poppar upp þegar smellt er á tóninn) eða með því að gefa upp tíðni hljóðbylgjunnar. Lengd tónsisn er svo gefin með slaglengd (heilnóta, fjórðupartsnóta, o.s.frv.).
- Hvíla
- Ah, hin gagnlegasta skipunin/púslið. :-) Hér er hægt að búa til þagnir á milli tóna.
Vindum okkur nú í forritunina. Lagið er sett saman með því að draga púslin til. Hér er dæmi:
Það verður reyndar fljótlega leiðingjarnt að púsla þessu saman ef lagið a að vera langt. Þá má skella ritlinum yfir í „JavaScript ham“ en þá með auðveldar afrita og líma kóða, og breyta gildum á tónunum.
Þegar lagið er komið færum við forritið yfir á microbit tölvuna og tengjum hátalara við hana.
Ritillinn sýnir hvernig tengja á pinna 0 og pinna GND við hátalaratengi. Reyndar sýnir þetta bara hvernig hljóðið er tengt við vinstri heyrnartólið, en til að spila tónlistina í báðum heyrnartólum þarf að láta leiðarann snerta tvö ystu búta hátalaratengisins:
Það má líka nota sérstaka hátalara gerða fyrir microbit tölvurnar, en mér þykir microbitinn senda svo öflugt merki að það heyrist alveg nógu vel í venjulegum heyrnartólum.