Það er hægt að fá nokkuð ódýr E10 perustæði á netinu ($8 á Ali Expr., $0.8 á Ali Baba, 200 kr í A4) en þau eru gerð til að vera fest við eitthvað undirlag. Við æfingar á rafrásum þar sem íhlutir eru tengdir saman á mismunandi hátt með krókódílaklemmum er gagnlegt að útbúa einhverja platta sem auðvelt er að tengja perurnar við. Hér fyrir neðan má sjá eina útgáfu af slíku.

Perustæðaplatti með máli
Yfirlitsmynd af perustæðaplatta með málum.

Perustæðaplattarnir eru úr 15 mm krossvið, skorinn í 90 mm x 66 mm platta. Þetta er einfaldast að gera með borðsög. Svo er ágætt að pússa brúnirnar sem vísa upp en á plöttunum á myndunum voru brúnirnar rúnnaðar með fræsi.

Það er ágætt að nota 4 mm bolta til að festa krókódílaklemmurnar við.

Krókódílaklemmurnar eru tengdar við 4 mm maskínuskrúfur/bolta. Fyrir þær eru boruð tvö 4 mm göt, um 14 mm frá sitt hvorri skammhliðinni. Að neðanverðu er svo borað inn eftir götunum með breiðari bor, til þess að haus boltans/skrúfunnar falli inn í viðinn. Stærð og dýpt víkkunarinnar fer eftir haus boltans/skrúfunnar sem þið hafið.

Perustæðaplatti með staðsetningu á bolta.
Staðsetning bolta á perustæðaplatta.

Perustæðið er fest mitt á plattann með tveimur tréskrúfum þannig að pólarnir vísi að götunum fyrir boltana.

Loks er 1,5 kvaðrata (1,5 mm2 þverskurðarflatarmál) einþátta koparvír tengdur við annan pól perustæðisins, beygður að boltagatinu og festur við boltann á milli skinnu og rór. Koparvírinn fæst einangraður í flestum byggingavöruverslunum svo þá þarf bara að skera kápuna af.

Neðri hlið perustæðaplatta.
Perustæðaplattinn er boraður út með stærra gati til að fella skrúfuhausinn inn í plattann.

Það er gott að beygja vírinn í hálfhring til að hann festist betur niður umhverfis skrúfurnar. Það getur hins vegar reynst nokkuð snúið að beygja svona stuttan spotta svo það er ágætt að nota eitthvað verkfæri í það, eins og mjónefja töng.

Ef plattana á að nota talsvert er ekki úr vegi að lakka þá til að þeir dragi síður í sig skít.