Það má skilgreina nám á ólíka vegu — kalt og ópersónluega, eða háfleygt og ljóðrænt — en í grunninn felst það í umbreytingu á því sem við erum. Það er kannski rétt að gæta þess að nám þarf ekki endilega að vera jákvætt — við getum t.a.m. lært slæma hegðun — þótt yfirleitt snúist það um að bæta við einhverri uppbyggilegri eða gagnlegri hæfni við það sem við höfðum fyrir.
Hróbjartur snertir einnig á einu sem ég tel mikilvægt: Hann segir að það sé námið sem hafi fleytt okkur eins langt og við höfum náð sem er heldur mikið mannhorf fyrir minn part, en ég er því hjartanlega sammála sem hann fylgir því með; að það er geta okkar til að læra saman sem skiptir okkur miklu máli. Það er ekki bara að okkur sé eðlislægt að læra heldur er okkur eðlislægt að læra og miðla í samfélagi við annað fólk.
Áskorun: Nám
Áður en þú lest áfram skrifaðu hjá þér þína skilgreiningu á námi:
Hvað er nám í þínum huga? Hvernig gætir þú lýst því sem nám ER í nokkrum orðum?
Þegar ég hugsa um nám leiði ég hugann að meðvitaðri öflun þekkingar eða hæfni, en á móti kemur að það má svosum segja að nám geti vel átt sér stað án þess að nemandinn átti sig eða sækist sérstaklega eftir því. Þannig má segja að nemandi sem hefur engan áhuga á því að sitja í einhverri gerð tíma en lætur til leiðast að taka þátt í verkefnum eða samræðum getur vel lært. Kannski er ekkert unnið með því að skilgreina nám svo það utanskilji það að læra að beygja sig þegar farið er í gegnum lágar dyr til að reka höfuðið ekki uppundir.
Kannski er munurinn fremur í því að nám sem nemandinn sækist eftir og er meðvitaður um er hagkvæmara og dýpra, frekar en að annað sé nám en hitt ekki.
Í myndbandinu er sett fram eftirfarandi skilgreining:
Nám er sérhvert ferli sem leiðir til varanlegra breytinga í þekkingu, hegðun, viðhorfi og leikni. Breytinga sem ekki er hægt að tengja beint við aukinn aldur eða þroska.
Þessi skilgreining fer vel í að aðgreina „eðlilegan þroska“ frá námi, en ég er efins um að seinni setningin sé jafn auðveld og aðgreinanleg og hún kann að virka sem. Er það virkilega svo að slíkar varanlegar breytingar séu annað hvort tengdar við aukinn aldur eða þroska, eða ekki?
Myndbandið snertir á því að ekki sé nóg að fá upplýsingar; vinna þarf með þær.
Þekking: Það sem verður til þegar einhver vinnur með upplýsingar og gerir að sínum. (9:25)
Leikni: Getan til að vinna verk og leysa verkefni (9:50)
Hróbjartur kemur að mikilvægi þess að nemendur sjái markmið í því sem þau læra. Þau spyrja sig (og jafnvel kennarann) hvort þetta muni nýtast þeim. Ég velti því fyrir mér hvernig sú spurning tengist annarri spurningu: „Kemur þetta á prófi?“ og hugleiði hvort það sé markmiðið sem nemendur eru farnir að tengja helst við — og þá hvort það sé heilbrigt...
Kaflinn fjallar um fjórflokkun náms:
- Uppsöfnun (e. cumulative)
- Samlögun (e. assimilative)
- Aðhæfingu (e. accommodative)
- Umbreytingu (e. transformative)
Áskorun: Fjórar tegundir náms
Spáðu aðeins í þína kennslu og þessar fjórar tegundir náms. Veldu tiltekið námskeið eða námsferli sem þú verður ábyrg/ur fyrir fljótlega. Veltu fyrir þér hvers konar nám þú reiknar með að nemendur þínir fari í gegnum á þessu tilteknu námskeiði. Eru þeir að læra eitthvað alveg nýtt og þurfa að safna saman upplýsingum eða stangast það sem þau munu læra á við það sem þau telja sig vita fyrir o.s.frv. Skrifaðu svörin í glósubókina þína, þau nýtast þér þegar þú ferð að undirbúa framsetningu námsefnis og verkefni.
Ég hugsa að sú kennsla sem ég hafi helst boðið fullorðnum upp á hafi verið blanda uppsöfnunarnáms og samlögunar. Mikið til hefur þetta verið á formi efnislegrar fræðslu um eðlisfræði eða forritun, en einnig um aðferðir til að auðvelda kennurum að bjóða nemendum upp á (aukið) verklegt nám eða verkefnavinnu. Að einhverju leyti snertir slíkt nám á aðhæfingu, sér í lagi þegar forhugmyndir þeirra reynast vera ranghugmyndir. Umbreytandi nám væri æskilegast en til að ná einhverju slíku þyrfti eflaust að ná að fylgja þátttakendum eftir í einhvern tíma þannig að þau geti mátað lærdóminn við starfið og séð í reynd hvernig það getur virkað.