Þetta misseri sit ég námskeiðið NAF002F - Skipulagning og framkvæmd fræðslu með fullorðnum en við upphaf þess er óskað að nemendur skrifi stuttan pistil þar sem við lýsum þeim hópi fólks sem lífið hefur falið okkur að þjóna með einhvers konar námstilboði og hvaða breytingum við gætum hjálpað þeim að koma á í lífi sínu. Hér fylgja mínar hugleiðingar um það efni.

Fyrir utan kennslu í formlega skólakerfinu hefur mér fallið í skaut að standa fyrir eða taka þátt í að miðla á ýmiskonar námstilboðum fyrir fullorðið fólk, og þá sér í lagi kennurum. Stærsti hluti þessa hefur verið á formi starfsþróunartækifæra sem ég nefndi kennarasmiðjur og fékk að bjóða upp á í tengslum við starf mitt við Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Kennarasmiðjurnar þróuðust m.a. í tengslum við samskipti við kennara sem komu með nemendur sína í Vísindasmiðjuna og þótti skorta á tækifærum til þess að styrkja við sig sjálf í náttúruvísindum.

Kennsla er marghliða fag sem býður upp á ólík tækifæri til vaxtar í starfi á ferli kennarans. Margir náttúrugreinakennarar lögðu ekki upp með það að kenna það fag en tóku boði um það eða jafnvel „drógu stutta stráið“, en heilluðust svo og helguðu sig greininni. Þar sem jafnvel kennarar sem hafa sérhæft sig í náttúruvísindakennslu skortir grunn í faginu eiga bæði nýir og reyndir kennarar erfitt með að fóta sig í því að bjóða nemendum sínum upp á þá þekkingu, leikni og hæfni sem þau vilja geta skilað þeim frá sér með.

Það er mikill munaður að fá að starfa með slíku fólki enda hefur það sterka helgun í starfi, nokkuð skýra sýn á hvað það vill fá út úr starfsþróun.