Velkomin á heimasíðuna mína. Ég er prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og hef aðsetur á 4. hæð Árnagarðs við Suðurgötu (sími 525 4419, netfang: sye@hi.is). Viðtalstímar eru eftir samkomulagi.

Kennslusvið mitt er íslenskar bókmenntir 17., 18. og 19. aldar og flest námskeið mín fjalla um bókmenntir frá því skeiði. Ég hef auk þess kennt bókmenntir 20. og 21. aldar í ýmsum námskeiðum og haft umsjón með lokaritgerðum um það efni.

Rannsóknir mínar eru aðallega á sviði íslenskra bókmennta síðari alda og hafa m.a. beinst að viðtökum fornmennta, rómantík, bókmenntum og umhverfi (vistrýni) og þjóðernisfræðum. Doktorsritgerð mín, Arfur og umbylting: Rannsókn á íslenskri rómantík (1999), fjallar um viðtökur fornmennta á 19. öld. Fræðiritið Náttúra ljóðsins: Umhverfi íslenskra skálda (2014) fjallar um vistrýni og var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og rita almenns efnis. Nýjasta fræðirit mitt, Ísland í Eyjahafinu (2019), fjallar um þjóðlega orðræðu og menningarblöndun í bókmenntum og listum frá 18. og fram á 20. öld.

Ég fjalla nánar um kennslu og rannsóknir mínar á heimasíðunni, eins og sjá má á borðanum hér að ofan og felligluggum undir honum. Í ritaskránni, sem er í felliglugga undir Rannsóknum, er að finna tengla í rafrænar útgáfur á ýmsum verkum mínum. Hægt er að nálgast veffyrirlestra og annað efni af því tagi í felliglugga undir Miðlun. Hér á síðunni er einnig að finna upplýsingar um feril minn, menntun og stjórnun.