Helstu fræðirit og útgáfur

Ísland í Eyjahafinu

Hið íslenska bókmenntafélag, 2019

Í sjálfstæðisbaráttunni þurftu Íslendingar að ná máli sem fullgild menningarþjóð. Þeir litu þá ekki síst til sögufrægra þjóða eins og Forn-Grikkja um fyrirmyndir. Sigurður Guðmundsson málari setti á svið atriði úr eddukvæðum og fornsögum sem sýndu hetjur í hellenskum stíl. Benedikt Gröndal blandaði saman grískum og íslenskum minnum í skrifum sínum og félagar í Kvöldfélaginu æfðu klassíska mælskulist í kappræðum um þjóðmál. Íslendingar lærðu einnig af öðrum þjóðum að lofsyngja landið í ættjarðarljóðum sem urðu að æðstu tjáningu íslensks þjóðernis. Þannig reynist hið þjóðlega oft vera af alþjóðlegum rótum runnið.

Í bókinni er fjallað um þessa og aðra þætti í menningarviðleitni Íslendinga frá 18. og fram á 20. öld. Sveinn Yngvi Egilsson er prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.

___________________________________________

Náttúra ljóðsins: Umhverfi íslenskra skálda

Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan, 2014 front

Náttúra og umhverfi hafa verið eitt helsta yrkisefni íslenskra skálda frá því á 19. öld. Í Náttúru ljóðsinsUmhverfi íslenskra skálda er sýnt hvernig rómantísk skáld móta myndina af íslenskri náttúru og leggja áherslu á ólíkar hliðar hennar, allt frá ægifegurð eldfjalla og hafíss til algrænnar sveitasælu. Mynd Íslands verður mikilvæg í sjálfstæðisbaráttunni og tengist menningarpólitík, en náttúrusýnin þróast og verður sálfræðilegri á 20. öld í ljóðum íslenskra nútímaskálda sem lýsa innra landslagi og hugarheimum.

Rauði þráðurinn í bókinni er rómantíkin og arfleifð hennar frá Jónasi Hallgrímssyni til núlifandi skálda sem yrkja þannig um náttúru og umhverfi að það má lesa í ljósi skáldskapar og fagurfræði 19. aldar. Auk Jónasar koma hér einkum við sögu Steingrímur Thorsteinsson, Matthías Jochumsson, Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind), Snorri Hjartarson, Hannes Pétursson og Gyrðir Elíasson.

Náttúra ljóðsins er fyrsta heildstæða rannsóknin sem gerð er á náttúrusýn og umhverfisvitund í íslenskri ljóðagerð og hér er beitt fræðikenningum sem varpa ljósi á viðfangsefnið og tengjast vistrýni (e. ecocriticism). Sveinn Yngvi Egilsson er prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og rita almenns efnis 2014.

___________________________________________

Textar og túlkun: Greinar um íslensk fræði

Háskólaútgáfan, 2011img020

Í bókinni eru farnar fjölbreyttar leiðir að íslenskum menningararfi og erlendum tengslum hans. Einstök bókmenntaverk, textategundir og höfundar eru tekin til skoðunar, en hér er einnig að finna greinar um nýleg fræðirit sem bjóða upp á rökræður um afmörkuð svið íslenskrar menningar. Látið er reyna á aðferðir og hugtök eins og mælskufræði, myndmálstúlkun, listræna heild, textatengsl, sálgreiningu og kenningar um rými í skáldskap. Greinarnar veita innsýn í íslenska bókmenntasögu allt frá siðbreytingu til okkar daga, en þungamiðja bókarinnar er umfjöllun um rómantík 19. aldar og áhrif hennar á yngri bókmenntir.

___________________________________________

Undir Hraundranga: Úrval ritgerða um Jónas Hallgrímsson

Hið íslenska bókmenntafélag, 2007img016

Undir Hraundranga er úrval ritgerða um Jónas Hallgrímsson frá 19. öld til nútímans. Hér er að finna fjölbreytt skrif um ævi og örlög Jónasar, um vísindastörf hans og hugmyndaheim, um áhrifavalda og umhverfi hans. Fjallað er um mörg áhugaverðustu verk skáldsins og tekist á um túlkun þeirra. Elstu ritgerðirnar eru eftir Konráð Gíslason og Hannes Hafstein og hinar yngstu eru frá allra síðustu árum. Auk núlifandi fræðimanna og skálda eiga margir þekktir höfundar frá 20. öld efni í bókinni. Meðal þeirra eru Einar Ól. Sveinsson, Halldór Laxness, Jakob Benediktsson, Kristinn E. Andrésson, Sigurður Nordal og Svava Jakobsdóttir. Bókin er gefin út í tilefni af því að tvær aldir eru liðnar frá fæðingu Jónasar. Ritstjóri er Sveinn Yngvi Egilsson sem einnig ritar inngang.

___________________________________________

Brennu-Njálssaga: Texti Reykjabókar

Bjartur, 2004img017

Textaútgáfa Sveins Yngva Egilssonar er fyrsta almenningsútgáfa Brennu-Njálssögu í hálfa öld sem byggð er á nýjum handritarannsóknum, en þær voru meðal annars styrktar með framlagi úr Lýðveldissjóði. Útgefandi leggur til grundvallar texta Reykjabókar, handrits sem er talið vera frá því um 1300 og er langheillegast af elstu handritum sögunnar. Er hér farið nær texta handritsins en í fyrri útgáfum sem flestar hafa þó í orði kveðnu fylgt Reykjabók. Sérstaða Reykjabókar er meðal annars fólgin í mörgum vísum sem hún hefur umfram ýmis önnur handrit sögunnar, en þeim hefur gjarnan verið sleppt í eldri útgáfum. Hins vegar er stafsetning handritsins færð til nútímahorfs til að gera textann aðgengilegri og er svipaður háttur hafður á og í öðrum lestrarútgáfum Íslendingasagna. Útgáfunni fylgja skýringar á vísum, torskildum orðum og orðtökum, mannanafnaskrá, staðarnafnaskrá, tímatal, ættartölur helstu persóna og kort af Rangárþingi.

___________________________________________

Gísli Brynjúlfsson: Ljóð og laust mál

Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2003img022

Bókin Ljóð og laust mál eftir Gísla Brynjúlfsson geymir m.a. úrval af ljóðum hans, ritgerðir og sögur, auk valdra kafla úr frægri dagbók Gísla í Kaupmannahöfn 1848. Umsjónarmaður er Sveinn Yngvi Egilsson sem ritar inngang og skýringar. Bókin er 13. ritið í ritröðinni Íslensk rit sem Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands gefur út.

___________________________________________

Arfur og umbylting: Rannsókn á íslenskri rómantík

Hið íslenska bókmenntafélag og ReykjavíkurAkademían, 1999img019

Nítjánda öldin er tímabil rómantísku skáldanna í íslenskum bókmenntum, fagurkera á borð við Jónas Hallgrímsson, Grím Thomsen, Benedikt Gröndal og Gísla Brynjúlfsson. En þeir voru annað og meira en ljóðrænir sveimhugar og náttúrudýrkendur. Þessi skáld vildu reisa þjóðlega menningu og skáldskap á grunni fornaldarinnar en voru jafnframt í hringiðu evrópskrar sögu og hugmynda. Þau sóttu sér yrkisefni í fornnorrænar goðsagnir, miðaldasögur og íslenska og erlenda frelsisbaráttu. Í ljóðum sínum lofsungu þau sögulega áhrifavalda eins og Napóleon Bónaparte, Lajos Kossuth og Jón Sigurðsson.

Í Arfi og umbyltingu fjallar Sveinn Yngvi Egilsson um úrvinnslu rómantísku skáldanna á bókmenntaarfi miðalda og tengsl þeirra við erlenda skáldjöfra og samtímaviðburði. Bókin veitir ferskum straumum inn í rannsóknir á íslenskri rómantík og fær lesandann til að hugsa á nýjan hátt um ljóðagerð nítjándu aldar.