Rannsóknir mínar eru aðallega á sviði íslenskra bókmennta síðari alda og hafa beinst að viðtökum fornmennta, rómantík, bókmenntum og umhverfi (vistrýni) og þjóðlegri orðræðu í bókmenntum og listum.
Doktorsritgerð mín, Arfur og umbylting: Rannsókn á íslenskri rómantík (1999), fjallar um það hvernig íslensk skáld 19. aldar unnu úr arfinum og vísuðu um leið í samtíð sína. Ég hef ritstýrt greinasafni ýmissa höfunda um Jónas Hallgrímsson (Undir Hraundranga, 2007) og gefið fræðilegar greinar mínar út á bók (Textar og túlkun, 2011). Ég hef unnið að fræðilegum útgáfum á bókmenntatextum, m.a. á verkum Jónasar Hallgrímssonar (Ritverk, 1989) og Gísla Brynjúlfssonar (Ljóð og laust mál, 2003), en einnig á Reykjabókartexta Njálu (Brennu-Njálssaga, 2003, 2. útg. 2004).
Ég hef um árabil rannsakað orðræðu og umhverfi í ljóðagerð síðari alda. Um það efni fjalla ég í fræðiriti mínu Náttúra ljóðsins: Umhverfi íslenskra skálda (2014). Birtingarmyndir þjóðernisins í bókmenntum og listum hafa verið helsta viðfangsefni mitt að undanförnu og um þær fjalla ég í nýjasta fræðiriti mínu, Ísland í Eyjahafinu (2019). Ég hef tekið þátt í ýmsum rannsóknarverkefnum með öðrum fræðimönnum. Meðal þeirra eru samanburðarrannsókn á evrópskum þjóðskáldum (Cultural Saints of the European Nation States), rannsókn á viðtökum Njálu (Breytileiki Njáls sögu), rannsókn á áhrifum Lúthers á Íslandi (2017.is) og rannsókn á menningarstarfi Sigurðar Guðmundssonar málara og Kvöldfélagsins (Menningarsköpun). Ég vinn nú ásamt fimm öðrum fræðimönnum að ritun nýrrar íslenskrar bókmenntasögu sem er væntanleg á næstu misserum.
Ég greini yfirleitt frá fyrstu niðurstöðum rannsókna minna á málþingum og ráðstefnum (sjá fyrirlestraskrá í felliglugga undir Miðlun) en lokaniðurstöður birti ég á prenti eins og sjá má á ritaskrá minni (felligluggi undir Rannsóknum).