Kennslusvið mitt er íslenskar bókmenntir 17., 18. og 19. aldar og flest námskeið mín fjalla um bókmenntir á því skeiði. Ég hef auk þess kennt bókmenntir 20. og 21. aldar í ýmsum námskeiðum og haft umsjón með lokaritgerðum um það efni. Námskeiðin eru einkum af tvennum toga. Annars vegar eru bókmenntasöguleg yfirlitsnámskeið og hins vegar námskeið eða málstofur þar sem farið er nánar í einstök tímabil, stefnur, yrkisefni eða höfunda. Hægt er að sjá áætluð og kennd námskeið mín í felliglugganum hér að ofan (undir heitinu Kennsla).
Meðal nýjunga sem ég hef bryddað upp á í háskólakennslu eru námskeið um dægurlagatexta og alþýðumenningu, um líkamann í bókmenntum og um samband náttúru og bókmennta, en það efni er oft kennt við vistrýni.
Ég hef gaman af því að kenna námskeið með öðrum og hef á undanförnum árum átt gott samstarf við ýmsa samkennara mína, fræðimenn og rithöfunda. Meðal þeirra eru Aðalheiður Guðmundsdóttir, Ármann Jakobsson, Ásdís Egilsdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Benedikt Hjartarson, Dagný Kristjánsdóttir, Daisy Neijmann, Eiríkur Rögnvaldsson, Helga Kress, Höskuldur Þráinsson, Jón Karl Helgason, Margrét Eggertsdóttir, Valur Snær Gunnarsson og Þorvarður Árnason.
Auk þess sá ég um árabil um ýmis námskeið um bókmenntasögu og ljóðaheimspeki með mínum góða samstarfsmanni Matthíasi Viðari Sæmundssyni sem dó langt fyrir aldur fram árið 2004.
Ég hef lært mikið af því að kenna með öllu þessu góða fólki en þeir sem ég læri þó einna mest af eru nemendur mínir, enda lít ég ekki á kennslu á háskólastigi sem einhliða miðlun heldur gagnkvæma og gagnrýna þekkingarsköpun sem fram fer milli kennara og nemenda.
Ég hef haft umsjón með mörgum lokaritgerðum við Háskóla Íslands. Sumar þeirra er hægt að sjá hér í Skemmunni. En allar eru þær skráðar undir Handleiðslu (sjá felligluggann hér að ofan).